Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:34:52 (331)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. iðnrh. nefndi ekki álver en sagði hins vegar eitthvað á þá leið að það þyrfti að halda áfram nýtingu orkunnar. Það var þetta orð sem féll niður í máli hans í fyrsta sinn í fimm og hálft

ár sem ég vakti athygli hans á, en hann hefur komið hér upp og staðfest að hann er út af fyrir sig enn á trúnni.
    Varðandi Japan skiptir ekki öllu máli hvort Japan er nær okkur eða fjær í kílómetrum talið. Staðreyndin er sú að Japan er eitt af mikilvægustu viðskiptalöndum okkar Íslendinga. Það er í vaxandi mæli að verða sá mótor sem drífur aflvél hins alþjóðlega viðskiptakerfis og áhrif á heimsmarkað fara vaxandi úr þeirri átt. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt og skynsamlegt að horfa ekkert síður til þeirra en margra annarra sem nær okkur liggja.
    Ég vil líka minna hæstv. ráðherra á það --- það er eins og þeir átti sig ekki á því --- að það atvinnuleysi sem við erum að bera okkur saman við í nágrannalöndunum er búið að vera viðvarandi í þeim löndum. Við erum að upplifa þetta sem breytingu frá því ástandi að fyrir nokkrum árum voru þúsundir útlendinga við störf og þensla á vinnumarkaði. Því er breytingin auðvitað gífurleg og inn í þetta vantar alveg þann samdrátt í yfirvinnu og fallandi tekjur heimilanna sem líka hafa áhrif, ekkert síður en atvinnuleysið sjálft. Tilburðir hæstv. ráðherra til að gera lítið úr þessu skelfilega atvinnuleysi, sem er hér að ganga í garð, eru því satt best að segja ekki merkilegar og að fara að reyna það með útúrsnúningum af því tagi sem hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. hafa reynt bætir ekki málstað þeirra, hvorki hér innan veggja og þaðan af síður í augum þolendanna úti í þjóðfélaginu, það er ég alveg sannfærður um.
    Varðandi opinberar skuldir og stöðu Íslands og Japans, svo enn sé farið í þann samanburð, þá staðfesti hæstv. iðnrh. að honum hafði skjátlast í ræðu sinni áðan. Sú leiðrétting sem ég kom með stendur og opinberar skuldir Japana, þ.e. skuldir ríkis og sveitarfélaga og hreinna opinberra sjóða, eru 63% miðað við þjóðarframleiðslu á sama tíma og þær eru 36,5% á Íslandi. Það segir heilmikið um það hvaða möguleika þessir aðilar hafa til þess að beita sér þegar á þarf að halda. Samt hika Japanar ekki við að beita hinu opinbera til þess að örva efnahagsstarfsemina hjá sér á sama tíma sem við erum svo ógæfusöm uppi á Íslandi, anno domini 1992, að sitja uppi með ríkisstjórn sem situr ofan á höndunum á sér.