Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 15:54:06 (334)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Atvinnuleysi getur orðið af ýmsum orsökum. Við sumu, svo sem atvinnuleysi einstakra starfsstétta eða árstíðabundnu atvinnuleysi í verstöðvum, er lítið hægt að gera. Aðrar ástæður eru oft viðráðanlegar ef vilji er fyrir hendi. En þá þarf að taka pólitíska ákvörðun um að bregðast skuli við vandanum. Til þess þarf pólitískt hugrekki. Þetta pólitíska hugrekki hefur hæstv. ríkisstjórn ekki.
    Ég get ekki kallað það neitt annað en pólitískt hugleysi af verstu gerð að láta sem atvinnulífið komi

ríkisstjórnarstefnunni ekkert við eins og núverandi stjórnvöld gera. Það litla sem vel er gert er nú talað um að skera niður, hverjar svo sem framkvæmdirnar verða. Þá á ég einmitt við hið sérstaka framlag til atvinnumála kvenna í dreifbýli sem hæstv. síðasti ræðumaður gerði að umtalsefni. Þetta er stórmerkt átak. En ég veit ekki betur en það sé eitt af því sem til stóð að skera niður. Það kom mér verulega á óvart að hæstv. félmrh. hefði ekki frétt af því vegna þess að það hafði ég frétt. Við munum fylgjast vel með því máli.
    Mitt í klisjukenndum fullyrðingum um að atvinnulífinu sé best borgið með sem minnstum afskiptum ríkisvaldsins eru stjórnvöld með bullandi íhlutun í rekstur fyrirtækja með því að halda uppi háu vaxtastigi í samkeppninni um sparifé landsmanna og með því að leggja sífellt hærri álögur, t.d. á sjávarútveginn og þá ekki síst fiskvinnsluna í landi.
    Við kvennalistakonur fengum orð í eyra fyrir ábyrgðarleysi þegar við hreyfðum því fyrir hartnær ári að nauðsynlegt gæti orðið fyrir ríkið að taka erlend lán til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi í tímabundinni kreppu. Þetta er góð og gild hagfræði og verður ekkert úrelt á því einu að hafa verið notuð fyrr á öldinni eða vera ekki í anda frjálshyggjunnar. Þeim fer fjölgandi sem eru sammála okkur kvennalistakonum um að ríkinu beri að stuðla að arðbærum framkvæmdum á þessu samdráttarskeiði sem nú er skollið á. Fyrr á árinu voru þessar raddir orðnar háværar og von til þess að eitthvað færi að gerast. Einkum voru það hinir annars allsráðandi aðilar vinnumarkaðarins sem gerðu þessa kröfu á ríkið. Ég minnist þess að hafa lent með Víglundi Þorsteinssyni, svo einhver sé nefndur, í útvarpsviðræðum um þetta mál og var þá reyndar að velta því fyrir mér hvort hann væri með niðurstöðu landsfundar Kvennalistans í höndunum, svo líkar voru hans hugmyndir okkar hugmyndum. Fulltrúi stjórnarsinna í þessum umræðum hafði reyndar lítið fram að færa enda segir ríkið, nú seinast í gervi fjmrh.: Ekki ég. Hann streitist enn við þótt áskoranir komi úr öllum áttum. Þetta er stjórnarstefnan.
    Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, e.t.v. allir nema félmrh., sem ekki hefur þó verið hlustað á, virðast halda að atvinnuleysi kosti ekki nokkurn skapaðan hlut, jafnvel þótt Atvinnuleysistryggingarsjóður sé að tæmast, eins og glöggt kom fram í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Eins og fram kemur hér að framan er gert ráð fyrir að hvert prósentustig í atvinnuleysi kosti á árinu 1992 um 51 millj. kr. á mánuði eða 153,7 millj. kr. á mánuði miðað við 3% atvinnuleysi eins og verið hefur að undanförnu. Samkvæmt áætlun Atvinnuleysistryggingasjóðs vantar um 1.080 millj. kr. á árinu 1993, eða um helming eigna sjóðsins, upp á að sjóðurinn geti sinnt lögboðinni skyldu sinni, þ.e. ef atvinnuleysi verður ekki meira en 3%. Má því í raun segja að sjóðurinn komist í greiðsluþrot að óbreyttu á árinu 1994 enda áætlað að um 500 millj. vanti upp á að endar nái saman á árinu 1992. Verður sjóðurinn að fara að ganga á eigur sínar í lok september 1992 fáist ekki sérstök fjárfesting.``
    Nú kemur þessi sami fjmrh. í fölmiðla, sá sem ekki vildi hreyfa við neinu, og er undrunin uppmáluð og skilur ekkert í því hvers vegna minni tekjur koma í ríkiskassann nú en áætlað var. Samdrátturinn er hraðari en búist var við, held ég að hafi verið orð hans svona nokkurn veginn. Ég sakna hans í þessari umræðu. Ég hélt að hann yrði hér og hefði viljað eiga við hann orðastað. Hann hefði betur hlustað í fyrravetur á ræðu fulltúa Kvennalistans í fjárln., Jónu Valgerðar Kristjánsdóttur, en hún benti einmitt á þessa hættu. Það er ekki hægt að búast við grósku og veltu í samfélagi sem haldið er í ánauð lágra tekna og atvinnuleysis. Spár um atvinnuleysi eru misjafnar. Sumir forsvarsmenn atvinnulífsins t.d. VSÍ búast frekar við að það verði um 6% en þessi 3% sem Ríkisendurskoðun gefur sér og læt ég mér fyrra karp um þau mál í þessari umræðu í léttu rúmi liggja.
    Ríkisstjórnin íhugar nú, eftir því sem ég hef alla vega heyrt en vona að rangt sé, að það sé helst til ráða að takmarka aðgang að Atvinnuleysistryggingasjóði. Þetta er auðvitað ekki nokkurt úrræði. Ég óttast mjög þá fjárlagavinnu sem í hönd fer á þessum forsendum. Ég óttast að það haldi áfram, sem síst má gerast á samdráttartímum, að velferðarkerfið verði veikt verulega og skólakerfið lagt í rúst. Það er engin lausn að leggja niður nauðsynlega sjúkrahús- og öldrunarþjónustu og láta atvinnulausar konur annast um sjúka og aldraða heima fyrir. Það lifa fáir á launum einnar fyrirvinnu, hvað þá engrar og jafnvel fullar atvinnuleysisbætur duga engum til framfærslu. Þar að auki fylgir umönnun af þessu tagi mikið álag sem ekki er hægt að mæta nema að takmörkuðu leyti utan stofnana. Það gerist æði oft að konum er skákað til í tilverunni og ætlast til að þær lifi á loftinu á meðan þær bjarga hrynjandi heilbrigðiskerfi. Það gleymist líka að hluti þess atvinnuleysis, sem verið er að búa til nú með ómældum kostnaði, er vegna niðurskurðar á þjónustu, m.a. á sjúkrahúsum. Er virkilega þörf á þess konar aðgerðum? Til eru þeir sem telja að krepputalið sé orðum aukið og e.t.v. ekki annað en afsökun ríkisstjórnarinnar fyrir samdrætti, niðurskurði og einkavæðingu. Afleiðingin er hins vegar raunverulegt atvinnuleysi.
    Nú um helgina mátti lesa í Tímanum ummæli Halldórs Grönvolds og Kristínar Hjálmarsdóttur hjá Iðju. Vildu þau meina að kreppuástandið, sem nú gætir, væri að hluta sálræns eðlis. Væntingar eru auðvitað vel þekkt fyrirbæri í hagfræði og sé skoðun þeirra rétt er ábyrgð ríkisstjórnarinnar á samdrættinum jafnvel enn meiri en ég hef þegar nefnt. Halldór segir m.a. í þessari frétt, með leyfi forseta:
    ,,Svo virðist sem stóra áfallið sem klifað var á í sumar komi sem betur fer ekki en samt sem áður ganga atvinnurekendur með skeifu og draga lappirnar.``
    Fréttamaður heldur áfram og vitnar í Kristínu sem sagði að ,,þrátt fyrir litla verðbólgu og hófsamar launahækkanir sé svartagallsrausið nánast búið að draga allan kjark úr mönnum og ekkert lát sé á samdráttareinkennum í atvinnulífinu.``
    Í þessu sambandi er athyglisvert að rifja upp ummæli forstjóra Þjóðhagsstofnunar, Þórðar Friðjónssonar, um efnahagslegt kvef í stað lungnabólgu nú í sumar. Kannski var þetta bara kverkaskítur. En ef búið er að setja allt atvinnulífið í veikindafrí út af honum þá kemur það til með að taka nokkurn tíma að koma því aftur á stað og hafa ærinn kostnað í för með sér. Það er svo sem ekki fráleitt að taka undir skoðanir þessa fólks. Einhvern veginn virðist atvinnulífið bugað og líkast því sem það sé að víkja sér undan næsta höggi sem stjórnvöld ætla að láta ríða. Á meðan svo er komið er engin orka eftir til að fást við raunveruleg bráðatilfelli eins og varanlegt, staðbundið atvinnuleysi kvenna á Suðurnesjum sem hefur verið um 10% í heilt ár og aldrei slíku vant hjaðnaði það lítið á sumarmánuðunum. Atvinnuleysi er raunar á góðri leið með að verða viðvarandi ástand bæði hjá konum og körlum á Suðurnesjum.
    Það er mörgum enn í minni á eldhúsdegi í vor hvernig andstæðustu ræður kvöldsins hljómuðu, ræða hæstv félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, sem varaði við atvinnuleysi og var svört á svip, og ræða hæstv., utanrrh., Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem sagði bara EES eins og venjulega. Í málflutningi hans virtist mér þessi skammstöfun þýða Evrópa, en engin störf. Hæstv. félmrh. virðist líka verið lagður á flótta undan vandanum og hefur fundið einfalda töfralausn: sameiningu sveitarfélaga. Auðvitað er það engin allsherjarlausn frekar en nokkur önnur, það eru ekki til töfralausnir. Það eru til margþættar aðferðir og ekkert annað og til þeirra þarf að grípa.
    Samstarfsnefnd ríkisstjórnarinnar fundar með fulltrúum vinnumarkaðarins. Það er augljóst að þeir vilja fara þá leið, sem við kvennalistakonur höfum bent á, að efla atvinnulífið þó það kosti erlend lán.
    Það kemur ekki á óvart að skástu úrræðin sem bent er á núna koma ekki frá ríkisstjórninni heldur, eins og fyrr á árinu, frá aðilum vinnumarkaðarins. Í leiðara í Vinnunni, nýjasta tölublaði, segir Ásmundur Stefánsson, með leyfi forseta:
    ,,Framkvæmdir jafnt opinberra aðila sem einkaaðila eru nánast stöðvaðar og samdráttur segir til sín bæði í almennum iðnaði og þjónustugreinum. Mörg fyrirtæki og stofnanir fækka starfsfólki til að ná fram hagræðingu og sparnaði til að mæta harðri samkeppni og fjárlaganiðurskurði. Margt bendir því til að atvinnuleysi verði ekki minna, jafnvel meira, á stóru þéttbýlisstöðunum en á þeim stöðum sem eiga allt undir sjávarútvegi.
    Almennur opinber stuðningur við fjárfestingar í atvinnulífinu er líklegri til að herða á hagræðingu og auka á fækkun fólks en fjölga atvinnutækifærum.
    Í sjávarútvegi setur takmarkaður afli þröngar skorður fyrir framleiðsluaukningu og eftirspurnarsamdráttur er í almennum iðnaði og þjónustu. Sértækar aðgerðir koma því frekar til greina. Þar mætti t.d. nefna að gefa fyrirtækjum, hvort sem er starfandi eða nýjum, kost á að setja framleiðslu í gang eða auka hana með því að fá fyrir lítið eða ekkert þá umframorku sem nú er ekki nýtt.
    Einnig kemur til greina að auka opinberar framkvæmdir. Það er hins vegar því aðeins réttlætanlegt að auka skuldir hins opinbera að framkvæmdirnar skili hárri arðsemi og treysti atvinnu til lengri tíma.``
    Ég tek undir þessi orð og fagna því að verkalýðsforustan bendir á úrræði í atvinnumálum. Ég sakna þess vissulega að sjá ekki einnig tillögur um styttan og sveigjanlegan vinnutíma á óskertum launum sem gætu bætt ástandið á vinnumarkaðnum verulega. Ég bendi á þingsályktunartillögu okkar kvennalistakvenna frá síðasta vori um þetta efni. Ég held að eitt meginverkefni okkar á Íslandi nú á næstunni verði að hækka kaupmátt grunnlauna og taka allar yfirborganir og yfirvinnu inn í dagvinnutímann. Það er vel hægt en til þess þarf vilja og hann hefur skort því miður. Meira að segja hjá verkalýðshreyfingunni. Konur hafa lengst af mátt sæta því að vinna á taxtalaunum, tvær af hverjum þremur konum að jafnaði og meira að segja einn af hverjum tveimur körlum. Þetta kann að vera að breytast og veldur vonandi auknum þrýstingi á þessa sjálfsögðu kröfu. Vert er að minnast þess lærdóms sem við getum dregið frá 1977 þegar yfirvinnubann var sett á og afköst urðu síst minni á flestum vinnustöðum en þegar yfirvinna var unnin. Það er öllum í hag að stytta þennan óhóflega vinnutíma án þess að skerða launin. Því miður var gerð sú sögulega skyssa að fylgja þessum samningum ekki eftir í sólstöðusamningunum sem gerðir voru eftir þessa langvinnu launadeilu.
    Gjaldið sem við greiðum vegna atvinnuleysisins er ekki bara minnkandi tekjur ríkisins og minnkandi útgjöld. Við sitjum einnig uppi með þau félagslegu vandamál sem eru fylgifiskur atvinnuleysis og reyndar hins gamla skolla okkar, of langs vinnudags. Á þessum tímum vilja fylgismenn ríkisstjórnarinnar ganga inn í Evrópskt efnahagssvæði þar sem viðvarandi atvinnuleysi er um 7,8%. Hlálegt er að heyra hæstv. viðskrh. nefna endurmenntun í atvinnulífinu og benda á það sem gert hefur verið á Norðurlöndum um leið og boðaður er 800 millj. kr. viðbótarniðurskurður í menntakerfinu. Enn hlálegra var að heyra hæstv. félmrh. benda á þessa lausn þar sem enga peninga er að hafa. Þetta er því miður innistæðulaus ávísun.
    Stjórnvöld eru gjörn á að benda á slíkar töfralausnir í stað þess að takast á ábyrgan hátt á við vandann. EES mun ekki leysa atvinnumál þjóðarinnar. Færð hafa verið veigamikil rök fyrir því að atvinna í fiskvinnslu muni lítið eða ekkert aukast með tilkomu EES. Nær væri að létta álögum af fiskvinnslunni og gera hana samkeppnisfærari t.d. við frystitogarana. Þá kæmi e.t.v. annað dæmi út en það sem nú hefur leitt fjölda útgerða út í að offjárfesta áfram í frystitogurum. Ég ætla að geyma mér sjávarútvegsumræðuna í bili þar sem hún verður væntanlega á dagskrá á næstunni.

    Virðulegur forseti. Fylgifiskar atvinnuleysis eru margs konar. Brotin sjálfsmynd og örvæntingarfullar tilraunir til að skrimta af atvinnuleysisbótum sem enginn lifir á er ekki fýsilegt hlutskipti. Enn alvarlegara er það þó að atvinnuleysi getur hér eins og í nágrannalöndunum orðið varanlegt í hópi ungmenna. Erum við reiðubúin að mæta þeim vanda?