Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:09:31 (335)


     Steingrímur Hermannsson :
    Herra forseti. Það er vissulega tímabært að ræða atvinnuástandið í þessu landi og þó fyrr hefði verið. Því verða hins vegar ekki gerð nokkur skil á þeim örfáu mínútum sem hver ræðumaður hefur. Ég ætla aðeins að minnast á örfá atriði og reyna fyrst og fremst að draga saman sumt af því sem mér þótti hvað athyglisverðast í ræðu hæstv. forsrh.
    Reyndar hygg ég að hæstv. forsrh. muni vera sá eini hér á landi sem er eins bjartsýnn á framtíð íslensks atvinnulífs á næstu mánuðum og árum og kom fram í ræðu hans. Þvert á móti þá hitti ég varla nokkurn mann sem ekki er orðinn yfirfullur af vonbrigðum og svartsýni. Hæstv. forsrh. taldi og sagði réttilega að við Íslendingar værum í fremstu röð þjóða, reyndar væri líklega rétt að segja að við hefðum verið í fremstu röð þjóða. Þarna er einmitt um arfinn af þeim fortíðarvanda að ræða sem hæstv. forsrh. hefur gert að sinni sérgrein. Þetta er það sem náðist með samstilltu átaki ríkisvalds, atvinnulífs, vinnuveitenda og launþega.
    Hæstv. forsrh. boðaði jafnframt og lagði á það mikla áherslu að hér yrði haldið áfram sömu stefnu og verið hefur. Hver er þessi stefna? Það er sú stefna sem leitt hefur Bretland í þann vanda í atvinnumálum nú að hann hefur aldrei verið meiri. Reyndar telja flestir sem á stöðu Bretlands líta að Bretar séu í vonlausri stöðu í því efnahagskapphlaupi sem nú á sér stað á milli þjóða. Og það er sú stefna sem Bandaríkjamenn eru nú í óðaönn að reyna að feta sig út úr. Það er með öðrum orðum stefna afskiptaleysis ríkisvaldsins, það er frjálshyggjan sem við höfum kallað hér, stefna sem kennd hefur verið við Thatcher og Reagan.
    Hæstv. forsrh. deildi á fyrri ríkisstjórn fyrir það að hafa hafnað vestrænum leiðum í efnahagsmálum. Þetta er alrangt. Við höfnuðum nákvæmlega þessari stefnu Thatcher og Reagans. En við höfnum ekki þeim leiðum sem farnar hafa verið t.d. í löndum eins og Frakklandi og Þýskalandi. Að vísu tel ég að samstarf ríkisins og þátttaka ríkisvaldsins í atvinnulífinu í Frakklandi sé of mikil, hún er þar mjög mikil, en því verður heldur ekki neitað að Frakkar eru nú með einhverja sterkustu stöðu í efnahagsþróun sem verið hefur í Evrópu upp á síðkastið. Og öllum er að sjálfsögðu kunnugt um það að í Þýskalandi ræður fyrst og fremst stefnunni mjög virk þátttaka og samstarf ríkisvaldsins, alveg sérstaklega í gegnum bankana, og atvinnulífsins. Og það er einmitt slík þátttaka sem við í fyrri ríkisstjórn vildum að hér yrði sinnt, bæði af hálfu ríkisvalds og banka.
    Hæstv. forsrh. virtist ekki hafa miklar áhyggjur af því atvinnuleysi sem nú blasir við. Hann vakti réttilega athygli á því að það atvinnuleysi sem Þjóðhagsstofnun spáir, um það bil 3%, er svipað og var á árunum 1967--1969. En þarna er hins vegar mjög stór munur á. Hægri stjórnin sem sat á þeim árum taldi sér skylt að leggja mjög mikið fjármagn í það að endurreisa og koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný úti um allt land. Og meira að segja sá maður, sem varð forsætisráðherra þeirrar stjórnar um tíð, var í forsæti fyrir þeirri nefnd sem samræmdi þetta átak. Hvar er slíkt átak nú af hálfu þessarar ríkisstjórnar? Mér heyrðist jafnvel hæstv. forsrh. hafa heldur litlar áhyggjur af því að atvinnuleysi kynni að verða hér 4--6%. Það er jú minna en í fjölmörgum Evrópulöndum, það er alveg hárrétt, t.d. minna en í Danmörku eins og hann nefndi. Ég vona að atvinnuleysi hér verði ekki það mikið. Það vona ég svo sannarlega. En ég verð að viðurkenna að ég hræðist það vonleysi og þá svartsýni sem alls staðar ríkir og ég held að það sé rétt sem kom þó fram hjá hæstv. viðskrh. að fjárfestingin sem nú er hér á landi er allt of lítil til þess að halda uppi hagvexti. Ég óttast einmitt að keðjuverkun af þessu mikla hruni fjárfestingar og því vonleysi sem ríkir kunni að leiða til þess að atvinnuleysi hér aukist meira en við höfum til þessa séð.
    Ég leyfi mér að vekja athygli á leiðara í Morgunblaðinu --- það er mikið vísað í það blað hér í þessum þingsölum, bæði af stjórn og stjórnarandstöðu --- en ég vísa í leiðara sem birtist 3. sept. 1992 þar sem vakin er athygli á því að stór verkefni hafa farið úr landi og ekkert virðist vera gert til þess að sporna þar gegn. Er vakin athygli á því að Útgerðarfélag Akureyringa samdi við pólska skipasmíðastöð um breytingar um smíði á togara og nýlega sá ég í fréttum að það sama gerðu Þingeyingar. Í þessum leiðara segir, með leyfi forseta:
    ,,Það dugar ekki að fljóta sofandi að feigðarósi. Vinnan er að flytjast úr landi og eftir situr atvinnulaust fólk. Þá þróun verður að stöðva og henni verður að snúa við.``
    Mig langar til að vita hvað hæstv. ríkisstjórn hefur hugsað sér að gera til þess að snúa þessari þróun við, til að vinnan flytjist ekki úr landi.
    Hæstv. forsrh. sagði réttilega að það að breyta genginu væri ekki lausn á öllum vanda. Ég er honum alveg sammála um það. En fast gengi má heldur ekki verða trúarbrögð. Hverjum dettur í raun í hug að íslenska krónan sé svo sterk að dollarinn fellur gagnvart íslensku krónunni dag frá degi? Er íslenska krónan sterkari en dollarinn í dag? Dettur einhverjum það í hug?

    Sumir tala um frjálsa gjaldeyrismarkaði. Hvað halda menn að íslenska krónan seldist á úti í London eða New York núna? Haldið þið virkilega að hún seldist á það sem hún er skráð hér? Nei, ég vil festu í gengi. En ég held að þessi ofsatrú á fast gengi boði hér mikla vá.
    Ég vek athygli á því að það er ýmislegt fleira en sjávarútvegurinn sem á þar undir högg að sækja, t.d. það sem ég nefndi áðan um skipasmíðaiðnaðinn. Hvað vilja menn segja um þá miklu dýrtíð sem a.m.k. ferðaþjónustan heldur fram að erlendir ferðamenn sjái hér á Íslandi? Þetta tengist vitanlega líka genginu. Ég held að menn ættu að skoða það vandlega hvort sú blanda af gjaldeyri sem nú er miðað við er sú rétta. Ég hef miklar efasemdir um að það sé svo.
    Virðulegi forseti. Á þessum skamma tíma hef ég ekki mikið svigrúm til að fara í ýmislegt sem ég vildi nefna. Þó ætla ég að reyna að fara hratt yfir nokkur atriði sem mér finnst nauðsynlegt að þegar verði tekin til athugunar.
    Í fyrsta lagi vil ég taka undir með leiðara Morgunblaðsins fyrir nokkrum dögum þar sem segir að Bandaríkjamenn hafi lækkað vexti tuttugu og þrisvar sinnum á tiltölulega skömmum tíma í sínu atvinnuástandi. Hér þarf að lækka vexti. Það verður að gerast. Það verður að gerast fyrir forustu ríkisstjórnarinnar.
    Í öðru lagi verður að afnema þær álögur sem lagðar voru á sjávarútveginn á þessu ári. Það verður að afnema þær.
    Í þriðja lagi verður að útdeila úr Hagræðingarsjóðnum til þeirra fyrirtækja sem fyrst og fremst munu eiga rétt á því samkvæmt athugunum sem hafa verið gerðar, með öðrum orðum í samræmi við tillögur hæstv. sjútvrh. Það er ekki rétt að fara að styrkja sjávarútveginn til að kaupa kvóta. Reyndar vildi ég gjarnan fá að vita hvar það mál liggur. Hvaðan eiga þeir peningar að koma?
    Í fjórða lagi verður ríkisstjórnin vitanlega að móta atvinnumálastefnu, hún verður að gera það í nánu samráði við atvinnuvegina og hún verður að taka virkan þátt í því að leggja fjármagn til að framkvæma þá stefnu, skapa þann grundvöll sem er nauðsynlegur. Ég vil nefna t.d. menntunina en svo sannarlega þarf að auka verulega þar átak og þó að það sé til lengri tíma þá er ekki ráð nema í tíma sé tekið.
    Ég vil einnig nefna ýmsar þær nýju atvinnugreinar sem menn hafa bundið miklar vonir við en sem fá ekki fjármagn í dag vegna þess vonleysis sem ríkir. Það er góðra gjalda vert að leggja fjármagn í rannsókna- og þróunarstarfsemi og ég fagna því. En það þarf miklu meira. Það þarf m.a. áhættufé til að koma þeim nýju fyrirtækjum í gang í dag sem duglegir athafnamenn hafa í huga. Og það væri sannast að segja engin ofrausn þó að hæstv. ríkisstjórn legði eins og helminginn af því sem hún kann að selja af opinberum fyrirtækjum í það að koma nýjum fyrirtækjum af stað. Síðan getur hún selt það hlutafé þegar það er orðið einhvers virði. Ég vek athygli á því að þetta hefur tekist ágætlega hjá Þróunarfélagi Íslands sem er núna að selja hlutafé í ýmsum fyrirtækjum sem það lagði í upphafi og bjargaði sumum frá stöðvun. En það vantar miklu meira fé til þessara mála eins og ástandið er í dag. Þetta þarf vitanlega að gera. Ríkisstjórnin verður að byggja á ítarlegum áætlunum og athugunum á hinum ýmsu sviðum því að hér eru kostir og möguleikarnir margir. Það þýðir ekkert að byggja á þeirri von að hér komi stóriðja á allra næstu missirum. Því miður. Ég er því hlynntur að í hana verði farið en efnahagsástandið í heiminum er þannig að á það eitt má ekki treysta.
    Það er vitanlega vonlaust og sorglegt að hlusta á hæstv. forsrh. nefna sem nánast eina bjargvætt okkar í dag samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Hefur hæstv. forsrh. ekki fylgst með því hvernig þróun mála er þar? Nýjustu spár eru að þar verði hagvöxtur langtum minni en áður var gert ráð fyrir og ástandið í Evrópu er satt að segja þannig að það vekur mann mjög til umhugsunar um það að við Íslendingar tengjumst því nánar. Ég hef ekki tíma til að fara út í það hér en mun ræða það við umræður um Evrópska efnahagssvæðið.
    Við erum svo sannarlega í mikilli hættu með okkar atvinnulíf. Það bendir margt til þess að óbreytt stefna ríkisstjórnarinnar, frjálshyggjan, stefna Thatcher og Reagans, eigi eftir að skilja eftir sig hér slíkt svöðusár ef hún fær að haldast að það muni taka langan tíma að byggja upp frá þeim botni á ný.