Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:26:41 (337)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Herra forseti. Það er gömul saga og ný að það er erfitt að gera mönnum til hæfis. Hv. 7. þm. Reykn. sakaði mig um of mikla bjartsýni, bjartsýni sem fengist ekki staðist. Ég hef reyndar heyrt hér í umræðum vikum og mánuðum saman að það væri bölmóður úr minni átt og frá mínum líkum sem væri að drepa hér allt. En nú er bjartsýnin hins vegar orðin of mikil vegna þess að hv. þm. hittir bara menn uppfulla af svartsýni. Ég veit reyndar ekki alveg í hvaða selskap hann er en ég tel enga ástæðu til þess að hann sé bara að umgangast menn sem eru uppfullir af svartsýni eins og hann sagði í ræðu sinni.
    Ef við hins vegar horfum til þeirrar stöðu sem við höfum verið að miða okkur við og einmitt þau ár sem ég nefndi áðan í fyrri ræðu minni, þegar fram kom að frá árunum 1987--1989 hefði atvinnutækifærum fækkað hér í landi og frá 1989 og áfram síðan staðið í stað þrátt fyrir mikla innspýtingu af opinberum peningum, þá eru menn líka til viðbótar að hugsa um það, og það er mjög mikilvægt, að á þeim tíma voru menn að veiða 400 þús. tonn af þorski til viðbótar þessum peningum. 400 þús. tonn af þorski. Samt sem áður varð engin nýsköpun í atvinnulífi einmitt þegar hv. þm. var forsætisráðherra.
    Hv. 7. þm. Reykn. nefndi líka að menn mættu ekki hafa ofsatrú eða oftrú á föstu gengi. Ég get verið honum sammála um það og ég er ekkert haldinn þeirri trú á föstu gengi. En við þurfum líka að hafa einhverjar efnislegar ástæður til þess og þær mjög ríkar til þess að genginu þurfi að breyta og þær efnisástæður liggja ekki fyrir. Reyndar er það svo að þó að markaðsgengið væri hér þegar komið á, þá eru engin efnisleg rök sem benda til þess að gengið mundi breytast þegar af þeim ástæðum þannig að því er ekki haldið uppi með stjórnvaldsaðgerðum núna, umfram það sem markaðurinn mundi knýja á um. Þetta er raunveruleikinn sem við mönnum blasir og menn verða að hafa í huga.
    Menn hafa nefnt viðreisnarárin og þá taka menn þessi tvö ár af þessum tólf. Viðreisnarárin voru auðvitað farsælustu ár hér í stjórnmálum sem menn hafa þekkt og aldrei hefur þjóðinni miðað betur áfram en einmitt þá. Hins vegar var það alveg rétt að 1967 og 1968 varð áfall þegar síldin hrundi og atvinnuleysið jókst. En þó voru aðstæðurnar öðruvísi þá og að sumu leyti léttari. Á þeim árum voru menn að virkja og á þeim árum voru menn að byggja álver og á þeim árum var, eins og kom fram, ég hygg hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. frekar en öðrum þingmanni hér, ákveðið yfirfall sem gat átt sér stað til Norðurlandanna þannig að atvinnuleysistölur sem slíkar birtust kannski ekki með nákvæmlega sama hætti. Menn höfðu úr öðrum þáttum að spila. Þá voru skuldir hvers manns í landinu á sama verðlagi 190 þús. kr. á meðan þær eru 800 þús. kr. eða rúmlega það á mann núna sem auðvitað þrengir stöðuna. Þetta eru mjög mikilvægir þættir sem menn verða að hafa í huga.
    En við skulum líka átta okkur á því að á þeim tíma unnu menn sig út úr vandanum af því að efnahagsgrundvöllurinn var í raun traustur. Og það var það sem ég kom inn á í minni fyrstu ræðu, efnahagsgrundvöllurinn er að verða traustur hér, allir meginþættirnir eru að verða traustir og þess vegna er líklegra og augljósara að við höfum stöðu til þess að vinna okkur út úr vandanum. Allir meginþættirnir sem máli skipta eru að verða hagstæðir, verðbólgan lág, vextirnir hafa breyst.
    Hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði að ég hefði haldið fram furðulegum hlutum varðandi vextina. Málshefjandi nefndi --- og það var rétt hjá honum --- að þegar nafnvextirnir voru í þeim hæðum sem þeir voru þá urðu fyrirtækin í ýmsum tilvikum að greiða allt upp í 20% raunvexti. Málshefjandi nefndi það réttilega þó að þingmaðurinn segðist ekki vilja bera ábyrgð á orðum málshefjandans. Slíkt er ekki í dag. Nafnvaxtastigið hefur lækkað og er reyndar lægra en nokkru sinni fyrr af því að verðbólgan er lág og raunvaxtastigið hefur jafnast þó að raunvextir, eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, séu háir, séu háir hér allt í kringum okkur ef Bandaríkin eru undanskilin. Þar hefur ekki einu sinni tekist, þó að menn hafi 23 sinnum lækkað vextina, að hleypa krafti í efnahagslífið. Það mun sennilega ekki gerast heldur í Bandaríkjunum fyrr en eðlilegra samræmi verður milli vaxta í Evrópu og í Bandaríkjunum miðað við það sem er núna. En verðbólga og vextir hafa batnað verulega, verð á mörkuðum er hagstætt, það er vaxandi sparnaður í landinu, viðskiptahalli fer minnkandi ár frá ári, lánsfjáreftirspurn ríkisins hefur minnkað verulega og á þessu ári næst nánast allt lánsféð inn af innlendum sparnaði, sem mikilvægt er. Lánsfjáreftirspurnin hefur minnkað verulega hjá ríkinu, eins og tölur sýna glöggt fram á, hvernig sem menn láta hér í salnum. Allir þessir þættir hafa skapað okkur mjög batnandi stöðu, bæði minnkandi viðskiptahalli sem þó er of mikill og það að gjaldeyrisvarasjóðurinn hefur vaxið. Allt eru þetta jákvæð grundvallaratriði sem gefa okkur góða viðspyrnu inn í framtíðina. Þess vegna held ég að sé full ástæða til bjartsýni og við eigum ekki að harma, hv. 7. þm. Reykn., þá bjartsýni því hún byggir á góðum grundvelli.
    Við erum í þessari stöðu þrátt fyrir að þorskaflinn sé núna helmingi minni en hann var þegar menn voru ekki að fjölga störfum í landinu heldur fækka þeim, þegar menn voru að dæla inn 30 milljörðum króna án þess þó að fjölga störfum, heldur fækka þeim. Samt sem áður erum við núna að halda sjó þrátt fyrir að þorskaflinn hafi minnkað um helming. Það gefur okkur góð færi.
    Varðandi álver er ég þeirrar skoðunar að þar muni skapast möguleikar. Mér sýnist þróunin geta orðið í jákvæðar áttir þó að álverð hafi ekki hækkað verulega að undanförnu. Það hefur hækkað nokkuð en staðið í stað undanfarna mánuði. Það er margt sem bendir til þess núna að svo geti farið að álverð fari að stíga og möguleikarnir á byggingu álvers, sem við höfum beðið eftir, flest hver, a.m.k. hv. 7. þm. Reykn. og hans flokkur að meginstefnu til og flestir aðrir flokkar hér, verði að raunveruleika.
    Ég tel mig hafa fulla ástæðu til þess að vera bjartsýnn hvað þetta snertir. (Gripið fram í.) Ég skil ekki þingmanninn nú frekar en forðum. Ég hef ekki þrek til þess að skilja þingmanninn nú frekar en endranær.
    Ég tel að þessi umræða hafi sýnt glögglega fram á það að hinn raunverulegi vandi sem við verðum að horfast í augu við þegar við förum yfir dæmið er ekki annar en sá sem er bein afleiðing af minnkandi þorskafla tvö ár í röð. Ekki annar en sá. Allt annað er í jákvæðum farvegi. Efnahagsmálin eru að öðru leyti í jákvæðum farvegi og það skiptir miklu máli vegna þess að við hljótum að trúa því, fyrst jafnvarlega er farið eins og við höfum farið í að taka afla úr sjó, þá muni staðan styrkjast og hagur okkar batna vegna þess að efnahagsgrundvöllurinn er í lagi. Hann er í lagi og það er meginatriðið, atriði sem við getum auðvitað byggt á.
    Ég tel að þegar við horfum á þessa umræðu þá megum við ekki, þó freistandi sé, falla í þá gryfju að reyna að ná okkur í betri tölur í atvinnuástandi frá mánuði til mánaðar með því að grípa til skammtímaaðgerða. Það eru langtímaaðgerðirnar sem skipta mestu máli, langtímasjónarmiðin. Menn mega ekki hrökkva út úr þeirri braut. Menn verða að trúa því að hún sé rétt eins og ég fyrir mitt leyti geri.