Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:35:20 (338)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Bjartsýni sem ekki er byggð á raunsæi er ekki til þess að skapa von hjá þeim sem í atvinnulífinu standa og sjá hvernig málin eru. Ég hygg að þeir séu æði margir sem undrast þá bjartsýni sem hefur komið fram í ræðu hæstv. forsrh. Þetta minnir mann dálítið á það sem nú er að gerast í Bandaríkjunum þar sem Bush forseti fer um héruð og lýsir því yfir að allt sé með blóma í Bandaríkjunum og Bandaríkin séu best og mest o.s.frv. og hagfræðingarnir horfa hver á annan. Vitanlega er það mikilvægt í svona sambandi að menn geri sér grein fyrir því hvernig ástandið er og það finnst mér hæstv. forsrh. alls ekki gera.
    Ég vil einnig mótmæla því að viðleitni fyrri ríkisstjórna til að örva nýsköpun í atvinnulífinu hafi ekki leitt af sér ýmislegt. T.d. er sá vísir, sem er hér á landi að hátækniiðnaði þar sem nokkur fyrirtæki starfa enn og einstöku fyrirtæki með töluverðum krafti, frá þeim tíma þegar ákveðið var að auka áhættufjármagn í þessu skyni. Ég vek athygli á ferðaþjónustunni sem hefur stöðugt farið vaxandi og var mjög höfð í huga í nýsköpun í atvinnulífinu.
    Sannarlega er það rétt að fiskeldið á rætur sínar að rekja til átaks þeirrar ríkisstjórnar sem ég leiddi og sömuleiðis ríkisstjórnar sem núv. hæstv. sjútvrh. leiddi í þá tíð. Þó að þar hafi dottið botninn úr vegna þess að svo mikið verðfall var erlendis þá mun fiskeldið koma upp á ný, það er ekki nokkur vafi á því og það er að koma upp. Ég vil líka vekja athygli á því að þegar svona hlutir hafa gerst í sjávarútveginum sem

er oft, þá hafa ríkisstjórnirnar allar, hverjar sem þær hafa verið, fellt gengið til að koma sjávarútveginum, þessum stóra atvinnuvegi, yfir lægðina. Það var að sjálfsögðu ekki fært í sambandi við fiskeldið. Ég held því að hæstv. ríkisstjórn nú geti tekið sér margt til fyrirmyndar sem fyrri ríkisstjórnir hafa gert til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífinu.