Atvinnumál

14. fundur
Mánudaginn 07. september 1992, kl. 16:43:12 (343)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :

    Herra forseti. Hv. þm. leggur mér orð í munn þegar hann segir eða gefur það til kynna að ég taki atvinnuleysistölur ekki alvarlega. Þvert á móti fór ég í minni upphafsræðu mjög nákvæmlega yfir að það væru auðvitað áhyggjuefni með hvaða hætti atvinnuleysið hefur þróast. En hins vegar lagði ég áherslu á það að við yrðum að hafa þessar tölur í réttu samhengi og ekki að vera að halda því fram að atvinnuleysið væri að þróast í sömu átt og til að mynda í Danmörku og Finnlandi þar sem það er 11--13%. Það er afskaplega áríðandi að menn haldi sig við efnið þótt menn séu ekki að gera lítið úr þessum tölum í sjálfu sér miðað við þann veruleika sem við þekkjum. Öðrum þjóðum finnst þetta vera lítið.
    Ég tók reyndar eftir því þegar hv. þm. var að tala um atvinnuleysið í Noregi og Svíþjóð, þá notaði hann alltaf orðið ,,aðeins`` á undan. Atvinnuleysið væri ,,aðeins`` 4,5% þarna og ,,aðeins`` 5% þarna. Satt best að segja þykir Dönum auðvitað slíkt avinnuleysi lítið, því allt er afstætt, þar sem þeir eru með 11% atvinnuleysi.
    Varðandi það að ég viti ekki í hvaða þjóðfélagi ég bý þá er það nú svo að ég veit það mjög nákvæmlega og fylgist vel með þessu þjóðfélagi. Ég veit það ekkert síður en þingmaðurinn og það er ekki bara nóg að ég viti í hvaða þjóðfélagi ég bý, ég veit líka hvar ég á lögheimili en það er meira en sumir vita.