Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:32:14 (360)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að þessir tveir hæstv. ráðherrar hafa áttað sig á nauðsyn þess að þeir urðu að svara þessum spurningum áður en umræðan hélt áfram. Það hefur hér komið fram, og ég hef enga ástæðu til þess að rengja það, að Alþfl. hefur greinilega viðhaft venjubundin vinnubrögð við setningu þessara bráðabirgðalaga. Alþfl. hefur greinilega fylgt þeirri venju að ræða við þingmenn flokksins áður en bráðabirgðalögin voru sett, ég legg áherslu á það, og kannað það að stuðningur var fyrir hendi svo viðkomandi ráðherra hefur getað tjáð forseta lýðveldisins að að baki lægi stuðningur þingmanna Alþfl. Þetta ber að virða og þetta eru rétt vinnubrögð.
    Það er hins vegar alveg ljóst af yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að Sjálfstfl. hefur alls ekki gert það sama. Það vill svo til að ég er hér með í höndum grein eftir þáv. formann Sjálfstfl., núv. hæstv. dómsmrh., Þorstein Pálsson sem birtist í Morgunblaðinu 1. des. 1991. Hvað segir formaður Sjálfstfl., núv. dómsmrh., í þessari grein? Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Það er venja þegar bráðabirgðalög eru sett að viðkomandi ráðherra gengur úr skugga um að hann hafi tryggan meiri hluta fyrir þeirri löggjöf.`` Ég endurtek fyrir hæstv. fjmrh. Þorsteinn Pálsson, fyrrv. forsrh., núv. dómsmrh., þáv. formaður Sjálfstfl., segir í Morgunblaðinu á fullveldisdaginn 1. des.: ,,Það er venja þegar bráðabirgðalög eru sett að viðkomandi ráðherra gengur úr skugga um að hann hafi tryggan meiri hluta fyrir þeirri löggjöf.``
    Það hefur verið upplýst hér að Sjálfstfl. gerði þetta ekki við setningu þessara bráðabirgðalaga, hvorki hæstv. forsrh. né hæstv. fjmrh. fullvissuðu sig um að þingmenn Sjálfstfl. styddu þessi bráðabirgðalög. Þannig hefur það verið staðfest hér í salnum að það var ekki hægt að greina forseta lýðveldisins frá því að þingmenn Sjálfstfl. styddu þessi bráðabirgðalög þótt slík venja sé um starfshætti sem menn hafa ekki hvikað frá í Stjórnarráðinu. Þess vegna er auðvitað eðlileg spurningin sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson bar hér fram: Hvað sagði fjmrh. við forseta lýðveldisins? Hvað sagði forsrh. við forseta lýðveldisins? Satt að segja er það mjög snúið og erfitt að halda þessari umræðu áfram án þess að hæstv. forsrh. komi til hennar. Það er auðvitað lykilatriði áður en efnisumræða heldur áfram um málið að forsrh. Íslands Davíð Oddsson upplýsi það hvað hann sagði við forseta lýðveldisins ef hann talaði við forseta eða ef það var fjmrh. sem einn talaði við forsetann, hvað var þá sagt. Þess vegna vil ég ítreka hér að þetta verður að komast á hreint áður en efnisumræða heldur áfram um málið.