Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 14:56:08 (372)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. fjmrh. mjög einfaldrar spurningar. Hún var þessi: Hver talaði við forseta lýðveldisins? Var það hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh.? Það hefur ekki komið skýrt svar við þeirri spurningu. Þess vegna er hún endurtekin hér. Var það hæstv. forsrh. sem talaði við forseta lýðveldisins eða var það hæstv. fjmrh. eða einhver annar ráðherra?
    Í stað þess að svara þessari spurningu með mjög einföldum hætti, það þarf í raun og veru ekki nema eitt orð til þess að svara henni, þá kaus hæstv. fjmrh. að lesa fyrst upp úr lögfræðiritgerðum og í öðru lagi að blanda allt öðru máli inn í þessa umræðu. Og það er auðvitað vitnisburður um að hæstv. fjmrh. telur sig vera kominn í vonda stöðu að hann leggur ekki í það að svara því alveg skýrt hér í salnum, var það forsrh. sem talaði við forseta lýðveldisins eða var það fjmrh. eða einhver annar ráðherra? Þess vegna er sú spurning ítrekuð hér.
    Síðan hefur komið fram spurningin: Hvað var sagt við forseta lýðveldisins? Það er ekkert leyndarmál hvað var sagt við forseta lýðveldisins og sú spurning er aftur ítrekuð hér. Og það er satt að segja merkilegt að það þurfi hálftíma til þess að draga það fram og ekki komið fram enn.
    Síðan segir hæstv. fjmrh. að ég hafi sagt það hér í umræðunni að hann hafi logið. Það er rangt. Ég hef ekki sagt það hér í umræðunni. Það var nafni minn, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem sagði það í sinni ræðu en ekki ég þannig að hlutirnir gerast nú nokkuð ruglingslegir hjá hæstv. fjmrh.
    Hins vegar er það rétt hjá hæstv. fjmrh. að ég greindi frá því fyrir helgina að í atkvæðagreiðslu um fjáraukalög í febrúar á síðasta þingi þegar 31 þingmaður, samkvæmt Alþingistíðindum, greiddi atkvæði með tillögum fjárln. þá hefði hæstv. fjmrh. verið í þeim hópi. Ég reiknaði satt að segja með því sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur atkvæðagreiðslu um fjáraukalög, slík grundvallarlög í samskiptum fjmrn. og Alþingis. Það hvarflaði bara ekki að mér að hann hefði verið fjarverandi en það er alveg sjálfsagt að hafa það sem réttara reynist. Hann var fjarverandi og ég leiðrétti það í grein sem birtist í Morgunblaðinu á morgun. Og það mun þjóðin fá að vita til enda íslenskrar sögu að fjmrh. Friðrik Sophusson mætti ekki í atkvæðagreiðslu um fjáraukalögin. En það er tæknilegt atriði. Stóra spurningin í þeirri umræðu er hins vegar, hvers vegna mætti hann ekki? Var það vegna þess að hann þorði ekki að greiða atkvæði með mér og á móti Pálma Jónssyni? Eða ætlaði hann að greiða atkvæði með Pálma Jónssyni og fjárln. ef hann hefði mætt og ef svarið við því er já, þá var auðvitað efnishlið míns málflutnings hér fyrir helgina fullrétt. ( Forseti: Ræðutíma hv. þm. er lokið.) En vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur komið með þetta mál inn í þingsalinn ( Forseti: Ég vil minna hv. þm. á að ræðutíma hans er lokið.) þá tel ég nauðsynlegt, forseti, að fá sérstakan tíma til að ræða þetta mál hér vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur átt frumkvæði að því.