Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:16:53 (382)


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum eru bráðabirgðalög sem sett voru í sumar, þann 26. júní sl., og verður af umræðunum, sérstaklega af umræðunum um þingsköp, ekki ráðið annað en það hafi verið staðið á margan hátt mjög óeðlilega að þessu máli. (Gripið fram í.) Það var 3. júlí, kjaradómur féll 26. júní, ég ruglaði þessu saman.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur gert grein fyrir afstöðu Kvennalistans í þessu máli. Einnig kom mjög greinilega fram þegar Kjaradómur birti úrskurð sinn þann 26. júní hver afstaða Kvennalistans væri í þessu máli. Við tókum bæði efnislega afstöðu til þess sem Kjaradómur gerði og gagnrýndum jafnframt mjög harðlega það að bráðabirgðalög væru sett við þær aðstæður og raunar efast ég stórlega um að aðstæður hafi verið fyrir hendi sem heimiluðu ríkisstjórninni yfirleitt að setja bráðabirgðalög. Ég vil koma hér í þennan ræðustól til að lýsa þeim efasemdum mínum. Ég tel að það hafi ekki verið svo brýn nauðsyn að setja þessi bráðabirgðalög. Það var ekkert sem mælti gegn því að Alþingi væri kallað saman.
    Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér hefði þótt eðlilegast að þessi heimild í stjórnarskránni væri alls ekki fyrir hendi, þ.e. að 28. gr. stjórnarskrárinnar stæði þar ekki eins og hún er núna. Í samræmi við það futtu þingkonur Kvennalistans sem voru í neðri deild á síðasta kjörtímabili frv. til stjórnarskipunarlaga þar sem lagt var til að þessi grein félli brott úr stjórnarskránni, þ.e. heimildin til að setja bráðabirgðalög.
    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þá tillögu en ég vil aðeins fá að vitna í umræðuna sem þá fór fram, aðeins eina setningu sem sýnir kannski hver afstaða manna var á þeim tíma til þessarar breytingar á stjórnarskránni. Þá sagði hv. þm. Ólafur G. Einarsson, sem þá var formaður þingflokks Sjálfstfl., núv. hæstv. menntmrh., að hann væri þeirrar skoðunar að afnema ætti með öllu heimild ríkisstjórnarinnar til setningar bráðabirgðalaga og í þessari umræðu vitnaði hann til sinnar eigin ræðu sem hann hafði haldið nokkru áður og vil ég, með leyfi forseta, fá að lesa það. Ég tek hérna inn úr miðri setningu:
    ,, . . .  ég vil hins vegar stíga skrefið til fulls og afnema algerlega heimildina til að gefa út bráðabirgðalög.``
    Þarna var hann að vitna í sjálfan sig í umræðum um þrengingu á þessari heimild sem margoft hefur verið flutt tillaga um. Það var því alveg greinilegt að einn af núv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar hefur þessa skoðun og ég man ekki betur en sú skoðun hafi verið studd af mörgum hv. þm. Sjálfstfl. á þeim tíma. Þetta vildi ég nefna, virðulegur forseti.
    Ég minnist þess líka að á síðasta kjörtímabili voru sett lög á BHMR sem hér hefur margoft verið vitnað til og ætla ég ekki að endurtaka það svo mikið sem vitnað hefur verið til umræðna á þeim tíma en það er skemmst frá því að segja að þingmenn Sjálfstfl. fóru hamförum þegar bráðabirgðalög voru sett á BHMR eins og það var þá orðað. Það var af ýmsum ástæðum sem hér hafa verið raktar sem þingmenn Sjálfstfl. töldu ásamt öðrum reyndar, t.d. þingkonum Kvennalistans, að þetta væri algjör óhæfa. Ég vildi sérstaklega geta þessa vegna þess að Sjálfstfl. er í meiri hluta þeirra sem ætla núna að staðfesta þessi bráðabirgðalög eftir því sem hér er upplýst af hæstv. fjmrh.
    Við breytingu á stjórnarskránni sem var gerð á síðasta ári náðist því miður ekki samstaða um að fella á brott þetta ákvæði. Þá töldu margir að nauðsynlegt væri að hafa þessa heimild inni í stjórnarskránni í neyðartilvikum. Menn töluðu þá þannig að eðlilegt væri að það væri haft inni ef um einhverjar sérstakar náttúruhamfarir væri að ræða eða eitthvað kæmi upp á sem gerði það að verkum að ekki væri hægt að kalla Alþingi saman. Það var margoft tekið fram að það ætti við þegar ekki væri hægt að kalla saman. Ég vil aðeins fá, virðulegur forseti, að vitna örstutt í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, þáv. þingmanns, núv.

menntmrh., þegar hann mælti fyrir þessu frv. Þá sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Þá sé þingfundum frestað til loka þingársins með því skilyrði að það sé kallað saman ef nauðsyn krefur, t.d. til þess að afgreiða aðkallandi löggjöf að ósk ríkisstjórnarinnar eða efna til mikilvægra umræðna.``
    Síðan rekur hann þetta enn frekar og segir aðeins síðar: ,,Þessa breytingu [þ.e. að Alþingi sitji allt árið] ber að nokkru leyti að tengja þeirri umræðu sem verið hefur um bráðabirgðalög nú upp á síðkastið.`` Það er því greinilegt að þegar mælt var fyrir þessu frv. var það skilningur þeirra sem studdu frv. og þeirra sem mæltu fyrir því að það væri verið að þrengja verulega heimildina til þess að setja bráðabirgðalög og það væri túlkun löggjafans að það ætti ekki nema í algerum undantekningartilvikum að setja bráðabirgðalög þegar ekki væri hægt að kalla saman Alþingi af einhverjum ástæðum. Ég vil því líta svo á að ríkisstjórninni hafi alls ekki verið heimilt að setja þessi bráðabirgðalög sem við erum nú að ræða. Ég tel að það sé ótvírætt skilningur allra þeirra sem studdu frv. og það var minn skilningur. Ég gerði sérstaka grein fyrir því að mér þætti slæmt að það skyldi ekki vera hægt að ná samstöðu um að breyta þessu, að fella heimildina algerlega í burtu, en taldi að þar sem þessum skilning væri haldið til haga mundi ég styðja frv.
    Ef við lítum aðeins yfir þetta mál og feril þess í sumar og veltum fyrir okkur hvort aðstaða hafi verið þannig að ekki hafi verið hægt að kalla saman Alþingi, það hafi borið svo brátt að að setja varð þessi lög á svo stuttum tíma, vil ég aðeins benda á að 26. júní birtist úrskurður Kjaradóms og síðan hófust miklar umræður hér í þjóðfélaginu. Þann 30. júní sagði hæstv. forsrh. í fleiri en einum fjölmiðli, ég hef hér úrklippu úr DV, að það sé hugsanlegt að kalla Alþingi saman. Það er því greinilegt að strax 30. júní telur hæstv. forsrh. að það sé eðlilegt og komi vel til greina að Alþingi komi saman til að fjalla um þennan úrskurð Kjaradóms og þá hugsanlega að setja einhver lög í því sambandi eins og ríkisstjórnin virtist vera að hugsa um. Þann 3. júlí kemur fram hjá hæstv. forsrh. í Morgunblaðinu þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Davíð forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin hafi aldrei útilokað þann möguleika að Alþing verði kallað saman vegna úrskurðar Kjaradóms.``
    Daginn eftir, þann 4. júlí --- það var 3. júlí sem bráðabirgðalögin voru gefin út --- er haft eftir forsrh. í Morgunblaðinu að það hefði verið talið nauðsynlegt að setja þessi bráðabirgðalög þar sem þeir sem hefðu sett fram óskir um að þing kæmi saman hefðu haft mismunandi leiðir í huga sem erfitt hefði verið að ná samstöðu um. Ég veit ekki betur en það hafi komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún teldi að meiri hlutinn væri fyrir þeirri leið sem hún fór. Þá skiptir auðvitað engu máli þó að þeir flokkar, sem eiga sæti á Alþingi, hafi haft mismunandi leiðir í huga. Það er ekki endilega nauðsynlegt að allir séu sammála á þingi, menn geta haft mismunandi skoðanir. Ef ríkisstjórnin taldi sig hafa meiri hluta að baki átti hún auðvitað að kalla saman þing og gera þær ráðstafanir sem hún taldi nauðsynlegar í krafti þess að meiri hluti alþingismann stæði að baki ríkisstjórninni í þessu máli. Ég tel því nauðsynlegt að Alþingi taki sig til og afnemi heimildina til handa ríkisstjórninni til að setja bráðabirgðalög vegna þess að það er mjög óeðlilegt að fram hjá Alþingi sé gengið með þeim hætti sem gert var og allsendis óeðlilegt að kalla ekki saman Alþingi, sem nú starfar allt árið. Hægt hefði verið að gera með mjög stuttum fyrirvara til þess að afgreiða mál sem að mati ríkisstjórnarinnar eru svo brýn að hún telur jafnvel eðlilegt að setja bráðabirgðalög með þeim dæmalausa hætti sem gert var síðasta sumar.