Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:29:36 (383)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mér finnst afar dapurlegt að þessi umræða skuli fara fram eins og raun ber vitni en það er auðvitað vegna þess að tilefnið er dapurlegt. Mér finnst það ákaflega dapurlegt að við alþingismenn skulum standa í þeim sporum að vera að ræða bráðabirgðalög sem hafa verið sett með þeim hætti sem hér um ræðir.
    Mig langar til að fara örfáum orðum um aðdragandann að þessu máli og hvernig það snýr að mér sem þingmanni. Á fáeinum þingflokksfundum á liðnum missirum hafa farið fram umræður um launamál, a.m.k. í mínum þingflokki. Ég geri ráð fyrir því að það hafi gerst í fleiri þingflokkum. Þegar fór að líða að miðjum vetri taldi ég að það mál væri úr sögunni og þegar samningar um raunverulega framlengingu á þessum svokölluðu þjóðarsáttarsamningum lágu fyrir taldi ég að breyting á kjörum alþingismanna væri úr sögunni í bili. Það kom mér þess vegna mjög á óvart þegar kjaradómur birtist þjóðinni.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég tel að það geti ekki hafa gerst án vitundar ráðamanna í ríkisstjórninni að Kjaradómur fjallaði um þessi mál og ég tel að það hljóti að hafa verið af einhvers konar vanrækslu af hendi fjmrn. að ekki var brugðist við í tíma því að það er engin spurning í mínum augum að Alþingi átti að taka þátt í þjóðarsáttinni. Það átti að fresta öllum leiðréttingum á launum alþingismanna sem annarra. En það er auðvitað ekki það sama og að setja lög í landinu að gera samninga á almennum vinnumarkaði og aðilar vinnumarkaðarins hafa ekki lögsögu yfir öðrum farvegum sem kjör í landinu fara um. Allt frá því að þessir samningar voru gerðir hafa samningaviðræður farið fram milli ýmissa launahópa sem hafa yfirleitt allar endað með því að menn hafa farið nokkurn veginn eftir forskriftinni sem var gefin í kjaradeilunni eða sem sagt í framlengingunni á þjóðarsáttinn í vetur leið. En það hefur þó aldrei farið á milli mála að samningsrétturinn er samningsaðilanna á vinnumarkaðinum og það er þess vegna engin lögsaga sem þeir geta tekið sér þó að víðtækur samningur sé gerður.
    Það sem ég er að segja er það að ég veit að fjmrn. fylgdist vel með og vissi vel hvað var að gerast á meðan Kjaradómur fjallaði um þann dóm sem var kveðinn upp í fyrra skiptið í vor. Það þurfti að kveða upp nýjan dóm t.d. vegna þess að launamál presta voru komin undir Kjaradóm og vegna hinna nýju dómaraembætta sem þurfti að staðsetja í kerfinu. Fjmrn. vissi eins og ég sagði áðan mjög vel hvað var að gerast. Það er mér þess vegna óskiljanlegt hvers vegna það var ekki lagt fram frv. á þeim tíma sem verið var að fjalla um þessi mál sem hefði átt að geta verið með svipuðum hætti og bráðabirgðalögin sem ríkisstjórnin setti seinna. Ef það hefði verið gert, þá hefðu menn ekki lent í þessari vitleysu sem ég vil kalla sem bráðabirgðalagasetningin hefur komið af stað.
    Þegar kjaradómur birtist urðu auðvitað mjög hörð viðbrögð í þjóðfélaginu vegna þess að almenningur í landinu leit á þjóðarsáttarsamningana sem eins konar vopnahlé í kjaramálum og að allir ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu hlytu og yrðu að taka þátt í þessu vopnahléi, þ.e. það yrði enginn samningur gerður sem færi fram úr því sem samið var um í þjóðarsáttarsamningunum. Þessi hörðu viðbrögð urðu til þess að það fór smám saman að renna upp fyrir ríkisstjórninni að eitthvað þyrfti að gera og niðurstöðuna þekkjum við. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar varð sú að velja þá leið að setja bráðabirgðalög. Ég ætla ekki að fara að lengja umræðuna með því að ræða um það mál. Ég tel að það hafi verið rangt að setja bráðabirgðalögin. Það hefði átt að kalla þingið saman og vísa til rökstuðnings annarra sem hér hafa talað á undan af því tilefni. En það sem ég vildi ræða er hvert framhaldið var.
    Eftir að bráðabirgðalögin höfðu verið sett varð Kjaradómur auðvitað að kveða upp nýjan úrskurð vegna þess að í bráðabirgðalögunum stendur að Kjaradómur eigi að kveða upp nýja úrskurði. En hver átti sá úrskurður að vera? Eftir hverju átti Kjaradómur að fara og hvað stóð í bráðabirgðalögunum um það? Hvað var þetta nýja sem Kjaradómur átti að taka inn í sína skoðun á launamálum? Jú, það er ósköp skýrt og einfalt. Hér stendur, með leyfi forseta:
    ,,Enn fremur skal Kjaradómur við úrlausn mála taka tillit til stöðu og þróunar kjaramála á vinnumarkaði, svo og efnahagslegrar stöðu þjóðarbúsins og afkomuhorfa þess.
    Telji Kjaradómur ástæðu til að gera sérstakar breytingar á kjörum einstakra embættismanna eða hópa skal þess gætt að það valdi sem minnstri röskun á vinnumarkaði.``
    Ég hefði talið að það væri nokkuð augljóst að niðurstaðan af þessari lagasetningu væri einföld og skýr, þ.e. að niðurstaða Kjaradóms hefði átt að vera að það hefðu orðið það litlar breytingar á launum á almennum vinnumarkaði frá því að þessi lög tóku gildi og þangað til úrskurður var kveðinn upp að ekki væri ástæða til að gera breytingar frá fyrri úrskurði. Grundvöllur þessarar lagasetningar sem hér er til umræðu hlýtur að hafa verið sá veruleiki sem var orðinn og allt tal um að miða við einhverja hluti sem eru fyrr í tímanum, sem sagt áður en þessi lög tóku gildi, hlýtur að vera tal um það að víkja frá grundvallarreglunum sem liggja á bak við það að virða lög í landinu. Það er sem sagt mín skoðun að niðurstaða Kjaradóms, sem þeir sem hann skipa voru nánast hraktir út í að koma með, hafi verið brot á sjálfum bráðabirgðalögunum vegna þess að þau eru skýr. Það er tekið fram að það eigi að taka tillit til þeirra atriða sem ég las upp áðan. Það er ekkert sem segir í sjálfum lögunum um það að þau eigi að gilda aftur í tímann. Það er líka brot á eðlilegum reglum í samfélaginu að lög gildi aftur í tímann og það, sem kemur fram í tilkynningunni frá forseta Íslands, að lögin séu sett vegna tveggja úrskurða sem Kjaradómur kvað upp 26. júní og það standi sem sagt til og eigi að breyta raunverulegum niðurstöðum, er að mínu viti mistök. Ég álít að það séu alger mistök frá hendi löggjafans að gefa út lög og að útskýra þau með þeim hætti að það sé ætlast til þess að þau virki aftur fyrir sig.
    Ég verð að segja það alveg eins og er að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það hvernig þetta mál hefur gengið fyrir sig og ég tel að full ástæða sé til að ræða það hvar ábyrgðin liggur í málinu. Ég hef því miður komist að þeirri niðurstöðu að ábyrgðin liggi hjá fjmrn. vegna þess að það var sá aðili sem fylgdist með og vissi hvað var að gerast hjá Kjaradómi. Það var þaðan sem aðvaranir áttu að koma. Það var örugglega fyrir fram vitað ef menn hefðu haft áhuga á því að fylgjast náið með, þá var það fyrir fram vitað nokkru áður en dómur var kveðinn upp hvað mundi gerast. Fjmrn. var beinn aðili að málinu vegna þeirra embættismanna sem þarna var verið að fjalla um og þaðan áttu aðvaranirnar að koma til ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin átti að sjá til þess að lög væru sett áður en slysið varð. Það var ekki gert. Mér finnst það íslensku löggjafarvaldi til skammar að koma síðan eftir á með lagasetningu sem ætlast var til að dómstóll tæki gilda og Kjaradómi var raunverulega ætlað að skera ríkisstjórnina niður úr snörunni og ekki bara ríkisstjórnina heldur líka okkur alþingismenn vegna þess að okkur hafði sést yfir það að til þess að vera raunverulegir aðilar að þjóðarsáttinni urðum við að setja stíflur í þá farvegi sem önnur launamál voru að fara um í þjóðfélaginu. Það gerðum við ekki. En við ætlum að bjarga okkur á kostnað þingræðisins með því að setja bráðabirgðalög sem standast ekki eðlilega skoðun. Það var engin boðleg leið til baka, því miður. Og ef þingið hefði komið saman til að ræða málið eins og eðlilegt var hefðu menn kannski getað komist a.m.k. að þeirri niðurstöðu að þeir yrðu að axla þá ábyrgð sem hafði lagst á herðar þeirra meðan þeir sváfu á verðinum.