Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 15:44:20 (385)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. sagði að fjmrn. hafi ekki afskipti af því sem Kjaradómur væri að aðhafast. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég veit ekki hvaða orðalag menn vilja hafa um samskipti fjmrn. og Kjaradóms en ég efast ekkert um að þau samskipti hljóta að þurfa að vera töluvert mikil þar sem Kjaradómur er að fjalla um launamál embættismanna ríkisins og hann hlýtur að þurfa að sækja æðimiklar upplýsingar til fjrmn. og starfsmanna þess þannig að ég vísa því á bug að það sé ekki samband þarna á milli sem hafi gefið fjmrn. nægilegar upplýsingar um það hverju menn ættu von á og þess vegna hafi fjmrn. átt að geta brugðist við.
    Hæstv. fjmrh. sagði líka að þessi lög væru ekki afturvirk vegna þess að menn hefðu borgað út eftir þeim í heilan mánuð. Það finnst mér einkennilegur skilningur. Lögin eru vitanlega jafngildi afturvirkni þar sem Kjaradómur leit á þau þannig að þau gæfu forskrift um það að það ætti að sækja viðmiðanir aftur í tímann, aftur fyrir gildistöku laganna til þess að ákveða hvaða laun ættu að gilda fyrir þá embættismenn sem þarna um ræðir. Ég skil ekki hvað er afturvirkni ef það er ekki það að þurfa að fara aftur fyrir tíma laganna til að sækja þessar viðmiðanir.
    Í þriðja lagi vil ég svo segja það . . .  ( Forseti: Ræðutími hv. þm. er úti og bið ég hann um að ljúka máli sínu.) Virðulegur forseti. Það skal ég bara gera nú þegar.