Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:22:14 (393)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel að síðustu orð hv. þm. megi skilja á þann veg að hv. þm. sé tilbúinn til þess að setjast niður ásamt fulltrúum annarra þingflokka og ræða það hvernig við getum breytt þingsköpum þannig að það hvetji ríkisstjórnir til þess að kalla fremur þing saman en að beita bráðabirgðalöggjafarvaldinu. Ég nefndi þetta í framsöguræðu minni og ég styð þetta sjónarmið hv. þm. Ég tel að bæði þessi útgáfa og eins þær umræður sem hér hafa orðið um þessi lög hljóti að leiða til þess að hv. alþm. kanni það gaumgæfilega hvort ekki er hægt að breyta lögum þannig að við séum t.d. með lög svipuð og Danir og þyrftum hugsanlega ekki nema einn dag til þess að koma fram mikilvægri lagasetningu ef á þarf að halda.