Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:23:31 (394)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Umræður snúast eðlilega um það atriði hvort heimilt hafi verið að beita ákvæði um bráðabirgðalög og kannski að hluta til líka hvort það væri rétt og siðlegt. Það er ekki nema hálfur sannleikur hjá hæstv. fjmrh. að vitna til greinargerðar með frv. til stjórnarskipunarlaga sem lagt var fram á 113. löggjafarþingi því að eins og ég rakti í minni ræðu, þá kom það fram af hálfu framsögumanns þess máls, hæstv. núv. menntmrh., að það var greinilega verið að breyta hlutunum frá því sem verið hafði og m.a. tók hann svo til orða að þingfrestun væri skilyrðisbundin því að ef ríkisstjórninni þætti ástæða til að setja lög, þá bæri að kalla þing saman. Þetta var nú afstaða framsögumanns málsins sem jafnframt var talsmaður Sjálfstfl. við þessa stjórnarskrárbreytingu.
    Það kom einnig fram við síðari umræðu málsins á þinginu eftir kosningar að einn af talsmönnum Sjálfstfl. tók það skýrt fram að verið væri að gera breytingar og þrengja rétt ríkisstjórnarinnar til að gefa út bráðabirgðalög. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það sem ég rakti lið fyrir lið minni ræðu, tilvitnanir í ræður manna um þetta mál en niðurstaðan er alveg ljós: Þó að rétturinn til að gefa út bráðabirgðalög sé enn fyrir hendi, þá er það ótvíræður vilji alþingismanna að hann væri ekki notaður nema við afbrigðilegar kringumstæður.
    Það kom enn fremur fram í afstöðu forustumanna Sjálfstfl. á þeim tíma sem menn fjölluðu um bráðabirgðalög á BHMR að þeir töldu að þáverandi stjórn hefði gengð of langt í því að nota bráðabirgðalagaréttinn og hefði meira að segja gengið of langt þannig að þeir væru á tæpu vaði hvað varðaði stjórnarskrána og m.a. lýsti bæði fyrrv. og núv. formaður Sjálfstfl. því yfir í þeirri umræðu að sú löggjöf stæðist ekki stjórnarskrána. Hæstv. núv. fjmrh. andmælti ekki þessari skoðun heldur fremur ítrekaði hana í þingræðu 11. des. 1990 sem ég hef vitnað til. Það er því málum blandið hjá hæstv. ráðherra að einblína í málsvörn sinni einungis á eina greinargerð í upphaflegu frv. Menn verða að taka með í lögskýringum það sem fram kemur í umræðum af hálfu framsögumanna og annarra þingmanna um málið. Og sérstök ástæða er til að taka inn í þennan skilning eða túlkun á því hvað menn voru að meina yfirlýsingar forustumanna Sjálfstfl. því að það er jú sá flokkur sem í dag er í ríkisstjórn og ráðherra úr hans röðum sem fer með þetta vald.
    Það er meira að segja upplýst í grein eftir fyrrv. formann Sjálfstfl. laugardaginn 15. des. 1990 að hann sé fylgjandi því að fella bráðabirgðalagaheimildina algerlega niður. Og hann upplýsir í greininni líka að formaður Alþfl. sé sömu skoðunar þannig að báðir oddvitar núv. ríkisstjórnar hafa lýst því yfir opinberlega að þeir væru á móti því að nota bráðabirgðalagaheimildina og það bæri að fella hana niður. Mér finnst því rökin sem hæstv. fjmrh. færir fram mjög fátækleg og skýringar hans á því hvernig Sjálfstfl. getur tekið kollhnís í þessu máli eru þær að það hafi ekki verið sett inn í nýju þingskapalögin ákvæði sem tryggðu að ný lög á Alþingi yrðu afgreidd á mjög skömmum tíma eða einum degi. Þessar yfirlýsingar voru ekki settar fram af hálfu Sjálfstfl. á þeim tíma sem þessi stjórnarskrárumræða fór fram hvorki nú sl. vetur né við afgreiðslu bráðabirgðalaga BHMR. Það voru engin slík skilyrði sett fram af hálfu Sjálfstfl. að það væri forsenda fyrir því að fallast á það að bráðabirgðalagaheimildin væri algjörlega afnumin að menn gætu afgreitt lagafrv. á einum degi þannig að hér er um að ræða nýtt skilyrði sem menn setja upp eingöngu til að verja veikan málstað. Menn geta farið í gegnum þingskapalagafrv. eins og það var sett fram og séð að það urðu ekki umræður um þetta atriði hér á Alþingi.
    Önnur vörn hæstv. ráðherra á breytilegri afstöðu Sjálfstfl. er sú að árið 1990 hafi verið ósiðlegt að setja bráðabirgðalög af því að menn máttu sjá fyrir niðurstöðuna og höfðu ráðrúm til að bregðast við með lagasetningu í tíma. Lögin um Kjaradóm eru ekkert ný. Þau eru frá árinu 1986 og þar eru skrifaðar inn í þau lög þær forsendur sem dómurinn á að starfa eftir. Sjálfstfl. átti þátt í því og var í ríkisstjórn þegar þau lög voru sett, þannig að ég sé ekki annað en að núv. ríkisstjórn hafi líka haft allan þann tíma sem hún þurfti til að breyta lögum um Kjaradóm áður en úrskurður féll í sumar.
    Það er ekkert launungarmál að þingmenn höfðu spurnir af því að það verið væri vinna að því að undirbúa nýjan dóm með þó nokkrum fyrirvara áður en hann kom. Og ef hæstv. ríkisstjórn hefði litið á málið, athugað á hvaða forsendum dómurinn ætti að falla, þá hefði hún á síðasta þingi vel getað breytt forskriftinni til að tryggja að útkoman væri á þann veg sem hún taldi viðunandi þannig að ég tel að sömu rök

eigi við um núverandi stöðu málsins.
    Meginniðurstaðan úr þessum umræðum, bæði þingskapaumræðum og umræðunum um þetta frv., er sú að flokkurinn sem úthrópaði aðra flokka, sérstaklega Framsfl. og Alþb. sem væri stýrt af spilltum stjórnmálamönnum, Sjálfstfl., boðaði að hann ætlaði að taka að sér að siðbæta stjórnarfarið hér á landi. Siðbót flokksins felst í því að gefa út bráðabirgðalög á hæpnum forsendum og víkja frá viðtekinni venju um að kanna hvort þingmeirihluti er fyrir hendi áður en hann gefur út lögin. Það er siðbótin. Að gá ekki að því hvort menn hafi meiri hluta fyrir þeim bráðabirgðalögum sem þeir ætla að setja. Það kalla menn siðbót í íslensku stjórnarfari. Ég bendi á að með sömu rökum getur núv. ríkisstjórn haldið áfram og hæstv. fjmrh. staðið einn að útgáfu bráðabirgðalaga því það er ekki ríkisstjórn sem gefur út bráðabirgðalög heldur viðkomandi ráðherra. Auðvitað er venja að ráðherra ber upp í ríkisstjórn hvort fylgi sé við því að gefa út bráðabirgðalög en það er engin skylda. Það er engin skylda fremur en það er skylda samkvæmt orðum hæstv. fjmrh. að kanna hvort þingmeirihluti er fyrir því að gefa út bráðabirgðalög. Menn geta því haldið áfram siðbót sinni og endað í því að einstakir ráðherrar geta á hverju sumri gefið út þau lög sem þeim dettur í hug án þess svo mikið sem kanna það hvort nokkur stuðningur er við þau. Hér er um að ræða afturför í þessum málum en ekki framför. Staðreyndin er einfaldlega sú að hæstv. ríkisstjórn brast kjark til þess að taka málið fyrir á Alþingi. Líklega hefur hún ekki verið viss um að hafa þingmeirihluta fyrir málinu og talið réttara að gefa út lögin og láta þingmenn stjórnarliðsins standa frammi fyrir því að greiða atkvæði ekki bara um bráðabirgðalögin heldur um ríkisstjórnina. Það væri þá sú leið sem þyrfti að fara til að tryggja lögunum meirihlutastuðning á Alþingi. Það kæmi mér ekki mjög á óvart miðað við afstöðu þingflokks Sjálfstfl. til bráðabirgðalaga árið 1990 því að sá þingflokkur hlýtur að vera andsnúinn því að beita þessu ákvæði nú eins og þá.
    Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þennan þátt málsins, virðulegi forseti. Ég held að við komumst ekki lengra í þessari umræðu en hins vegar er fjarri lagi að málið sé útrætt á Alþingi.