Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 16:34:12 (395)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eitt atriði sem kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns vil ég gera að umtalsefni. Hann segir að það megi jafna því saman að ríkisstjórninni 1990 hafi borið að setja lög á kjarasamning BHMR á tímabilinu frá 1. febr. og fram á sumar við það að núv. ríkisstjórn hafi borið að bregðast við áður en Kjaradómur kvað upp úrskurð sinn 26. júní. Þetta er auðvitað gerólíku saman að jafna. Samningar lágu fyrir 1. febr. 1990 sem stönguðust á. Ríkisstjórnin var aðili annars samningsins og eins og Félagsdómur sagði mjög skýrt frá sumarið 1990 þá átti þáv. ríkisstjórn að beita sér fyrir samkomulagi um málið og á því féll hún. Öðruvísi gegnir nú vegna þess að ekki var nokkur leið fyrir ríkisstjórnina að sjá fyrir hverjar niðurstöður dómsins urðu núna í sumar. Dómurinn hefur starfað frá 1986 án þess að taka þetta stóra skref sem stigið var með fyrri dómnum í sumar og eins og fyrr hefur komið fram í umræðunni þá hefði slík afstaða orðið til þess að ríkisstjórnin hefði orðið að setja fram lagafrv., annaðhvort á þinginu eða bráðabirgðalagafrv., um það að festa í sessi þann samning sem þá var gerður á milli BSRB og ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins með því að festa í sessi 1,7% launahækkun. Það var auðvitað alveg út í bláinn að ríkisstjórnin gæti staðið að slíku. Þetta vil ég að komi skýrt fram vegna þess að hér er öldungis ekki hægt að jafna saman tveimur aðstæðum.