Kjaradómur

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 17:00:05 (400)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð. Fyrst til að upplýsa þingmenn sem ekki um það vita að það mun hafa verið í tilefni af 50 ára afmæli Akraneskaupstaðar að hæstv. forseti Íslands kom þangað í heimsókn þann 3. júlí sl. Ég var staddur þar í veislu um kvöldið ásamt mörgum öðrum, ég held um 200 manns. Úr þeirri veislu þurfti forseti Íslands að víkja til að skrifa undir þessi bráðabirgðalög. Ekki fylgdist ég með því hverjir komu með textann til forsetans og get ekki upplýst það. Mér var sagt á fundinum að þess vegna hefði forseti þurft að bregða sér frá, það hefði verið til að undirrita þessi bráðabirgðalög.
    Hæstv. fjmrh. hefur sagt það ítrekað hér á fundinum að hann eigi fulltrúa í þessum svokallaða Kjaradómi og félmrn. hefur annan fulltrúa þar. Lái mér hver sem vill þó að ég trúi því ekki að fulltrúar tilnefndir af þessum ráðuneytum séu ekki í trúnaði við sín ráðuneyti og þar fyrir utan að fjmrn. fylgist ekki með því hvað er að gerast þegar verið er að fjalla um kaup og kjör starfsmanna ríkisins. Þess vegna endurtek ég að ég tel að fjmrn. hafi haft allar upplýsingar um það hvert málið stefndi og hafi þess vegna átt að taka á því fyrr.
    Ég kom frekar í ræðustólinn vegna þess að það er einkennilegt að hæstv. fjmrh. hefur ítrekað dregið það inn í umræðuna hvort ég hafi þær skoðanir að hugsanlega hafi mátt setja einhver lög almennt á launamarkaðinn. Ég nefndi þetta ekki í fyrstu ræðu minni. Hæstv. fjmrh. hefur a.m.k. í þrígang frá því að ég hélt mína ræðu endurtekið þetta. Ég svaraði því til að ég hefði talið að mátt hefði ræða þá hluti. Hvað hefði ekki mátt ræða þegar menn eru í þeim sporum að tala um annað eins klúður og það sem verið er að tala hér um? Ég tel að það hefði verið hægt að setja lög um breytingu á Kjaradómi eins og þau lög sem núna liggja fyrir og eru hér til umræðu. Það hefði ekki þurft að tala um breytingar eða einhverja almenna lagasetningu þess vegna. Ég tel það alls ekki vera. Hins vegar var það mjög mikilvægt að sem flestir aðilar, og helst allir aðilar í þjóðfélaginu, tækju þátt í þessari þjóðarsátt og að reynt væri að fá sem allra flesta að því samningaborði eftir að hún var orðin að staðreynd, að þeir sem á eftir kæmu til samninga fengjust til að una svipuðum kjörum og þar voru í boði. Það er auðvitað ekki verið að tala um leiðréttingar á neins konar launum. Það er verið að tala um eins konar vopnahlé í þessu launastríði okkar. Ég segi ekkert um það hvort það hafi verið skynsamlegt að setja lög um þessa hluti. Ég sagði hins vegar að það hefði mátt ræða það.