Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 17:20:26 (409)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum um sama efni. Það er frv. til laga um Kjaradóm og kjaranefnd sem er 46. mál þingsins á þskj. 47 og frv. til laga um breyting á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, með síðari breytingum. Ég geri tillögu um að þessi mál fari til efh.- og viðskn. þingsins að umræðu lokinni.
    Eina breytingin sem kemur fram í síðara frv. er sú að í stað orðsins ,,Kjaradómur`` kemur ,,Kjaradómur og kjaranefnd``. Það er eina breytingin sem kemur fram í því frv. Vík ég þá að fyrra frv.
    Ríkisstjórn Íslands ákvað eftir að fyrri úrskurður Kjaradóms í sumar lá fyrir að skipa nefnd til að endurskoða lög um Kjaradóm. Sú endurskoðun hófst ekki fyrr en eftir að bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar höfðu verið gefin út. Óskað var eftir því að í nefndinni sætu fulltrúar allra þingflokka en niðurstaðan varð sú að einungis fulltrúar stjórnarflokkanna áttu sæti í nefndinni og sátu í henni ásamt Indriða H. Þorlákssyni, skrifstofustjóra fjmrn., og formanni nefndarinnar en hann var skipaður Helgi V. Jónsson hæstaréttarlögmaður. Fulltrúar stjórnarflokkanna voru þeir Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur, sem var fulltrúi Sjálfstfl., og Hólmgeir Jónsson framkvæmdastjóri, sem var fulltrúi Alþfl.
    Frv. var kynnt þingflokkum, þar á meðal þingflokkum stjórnarandstöðuflokkanna, áður en það var lagt fram. Í því felst þó ekki að þingflokkar stjórnarandstöðunnar hafi lýst yfir stuðningi við frv. heldur var hugmyndin sú að kynna efni frv. og freista þess þannig að það gæti flýtt fyrir umræðu því að ég tel afar brýnt að málið komist til nefndar sem allra fyrst og fái þar umfjöllun og geti orðið að lögum með þeim breytingum sem fram koma í nefndinni eða í þinginu. Ég tel að það sé mikilvægt að frv. fái umfjöllun í nefndinni ásamt staðfestingarfrv. um bráðabirgðalögin. Mín tillaga er sú að þetta frv. verði samþykkt á yfirstandandi þingi eða áður en svokallaður sex vikna frestur rennur út. Eins og öllum hv. þm. er kunnugt vakna upp gömlu lögin um Kjaradóm ef Alþingi hefur ekki afgreitt staðfestingarlögin áður en sex vikur líða frá setningu Alþingis sem var 17. ágúst sl. Á þetta legg ég áherslu, virðulegi forseti, vegna þess að þetta hefur þýðingu fyrir þann hraða sem málið þarf að fá í þinginu. Ég vil einnig að það komi fram strax í upphafi að fjmrn. hefur skrifað hv. efh.- og viðskn. og óskað eftir því að málin verði til umræðu burt séð frá því hvort 1. umr. er lokið. Að því er ég best veit hafa þingflokkarnir eða fulltrúar þeirra í nefndinni tekið þeirri málaleitan vel. Það breytir ekki hinu að afar brýnt er að málin komist til nefndar.
    Í athugasemdum með frv. koma fram ýmsar upplýsingar. M.a. er sagt frá því hverjar séu helstu breytingar sem frv. felur í sér og þær eru, eins og þar segir, með leyfi forseta:
  ,,1. Verulega er fækkað þeim embættum, sem Kjaradómur ákveður launakjör fyrir, en öðrum aðila, kjaranefnd, ætlað að ákveða starfskjör forstöðumanna stofnana og fyrirtækja ríkisins og embættismanna, sem áður voru ýmist ákveðin af Kjaradómi eða fjármálaráðherra.
    2. Skipun Kjaradóms er breytt með tilliti til breyttra verkefna og kveðið á um skipun kjaranefndar.
    3. Kjaradómur og kjaranefnd ákveði þau laun sem greiða ber fyrir öll venjubundin störf sem embætti fylgja en greini þau í laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun. Gerir frumvarpið ráð fyrir að í þessu efni hafi kjaranefnd nokkurt svigrúm til að setja reglur um greiðslur fyrir tilfallandi störf umfram venjubundnar starfsskyldur. Enn fremur er undirstrikað að taka skuli tillit til hlunninda og réttinda sem starfinu fylgja.
    4. Þeirri viðmiðun sem Kjaradómi er sett er breytt á þann veg að í stað afkomuhorfa þjóðarbúsins skuli hann taka tillit til almennrar launaþróunar á vinnumarkaði. Kjaranefnd skal hafa kjarasamninga ríkisins og niðurstöður Kjaradóms til viðmiðunar í störfum sínum.
    5. Kjaradómur og kjaranefnd meti a.m.k. einu sinni á ári hvort tilefni sé til endurskoðunar á fyrri ákvörðunum.
    Þess skal getið, virðulegur forseti, að frv. það sem hér er til umræðu er óbreytt frv. eins og nefndin skilaði því til fjmrh. að öðru leyti en því að gerðar eru tvær breytingar. Í fyrsta lagi er um að ræða þá breytingu að forseti Alþingis tilnefnir einn mann í kjaranefnd en ekki forsætisnefnd vegna þess að talið var rétt að forseti fari með þetta vald en ekki forsætisnefndin. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir að forseti beri þá ákvörðun sína undir forsætisnefndina.
    Í öðru lagi kom fram ábending um það þegar málið var til skoðunar í þingflokkum, reyndar frá stjórnarandstöðuflokki, að eðlilegt væri að gefa þeim sem heyra nú undir kjaranefnd, verði frv. samþykkt, kost á því að semja um starfskjör þannig að þeir ættu það val hvort þeir féllu undir nefndina eða hvort þeir

tækju laun samkvæmt kjarasamningum. Þess skal getið að eins og lagafrv. stendur nú á þetta ekki við um presta en hugmyndin var eigi að síður sú að Prestafélagið gæti auðvitað átt val og þyrfti ekki að bera það undir Alþingi hvort það vildi heldur semja um kaup og kjör fremur en að eiga við kjaranefnd um þau efni.
    Ef ég hleyp, virðulegur forseti, á nokkrum aðalatriðunum sem ég tel vera í frv. vil ég geta þess að í 1. gr. frv. er rætt um skipan Kjaradóms. Þar er sú breyting gerð að í stað þess að Hæstiréttur skipi þrjá menn, einn komi frá fjmrh. og annar frá félmrh., er nú gert ráð fyrir að Hæstiréttur skipi tvo. Tveir séu kosnir af Alþingi og fjmrh. skipi einn dómenda. Með þeim hætti myndast ekki meiri hluti. Nefndinni þótti óeðlilegt að Hæstiréttur skipaði meiri hluta dómenda, ekki síst í ljósi þess að hæstaréttardómurum eru ákveðin kjör af þeim sömu mönnum.
    Í 2. gr. er sagt frá því í hverju valdsvið Kjaradóms er falið og kemur þar fram að Kjaradómur skuli ákveða laun forseta Íslands, þingfararkaup og önnur starfskjör alþingismanna en einnig launakjör ráðherra, hæstaréttardómara og héraðsdómara. Eins og ég hef áður sagt er hér um verulega þrengingu að ræða og ekki gert ráð fyrir því að þessir aðilar geti fjallað um sín mál á vettvangi Kjaradóms heldur er hugsunin sú að Kjaradómur ákveði laun þessara aðila án samráðs við viðkomandi embættismenn sem upp eru taldir í 2. gr.
    Þótt taka skuli tillit til þess annars vegar hvað sé venjuleg dagvinna og hins vegar önnur laun sem starfinu fylgja geri ég ekki ráð fyrir því að gerður verði verulegur munur á þeim sem starfa t.d. á Alþingi eða ráðherrum að öðru leyti en því, eins og gert er nú, að forsætisráðherra hefur hærri laun og forseti þingsins önnur kjör en óbreyttir alþingismenn, einnig forseti Hæstaréttar. Það er ekki hugmyndin að tekið sé sérstakt tillit til þess að starf ráðherra til að mynda kunni að vera mismikið eftir ráðuneytum enda ráðuneytin misstór. Öðru máli kann hins vegar að gegna þegar kemur að embættismönnunum sem ég vík síðar að. Þar er hugmyndin að hægt sé að taka tillit til slíkra atriða.
    Í 5. gr. er lýst þeim efnisatriðum sem dómar eða ákvarðanir Kjaradóms hvíla á og ég vek athygli á því að ekki er ætlast til þess að tekið sé tillit til afkomuhorfa í þjóðarbúinu eins og var reyndar í gömlu lögunum, sem mig minnir að séu frá 1973, og er jafnframt í núgildandi lögum, þ.e. kom inn í lög með bráðabirgðalagaákvæði. Það er talið að með því að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði nægi slíkt, ekki síst í ljósi þess að dómurinn skal a.m.k. árlega koma saman og fjalla um launakjör viðkomandi embættismanna.
    Í 6. gr. er gerð veruleg breyting sem ég vek athygli á en það er að gera mun annars vegar á föstum launum fyrir venjulega dagvinnu og síðan önnur laun. Það sjónarmið sem kemur fram í þessari grein á rætur að rekja til kjaradómsúrskurðanna en Kjaradómur hefur skýrt tekið fram að hann hafi hingað til verið að ákvarða heildarlaun en jafnframt sagt að til heildarlauna teljist önnur laun en þau sem unnin eru í venjulegri dagvinnu og þar með gefið í skyn að heildarlaunin séu umfram dagvinnulaunin. Þetta er mjög mikilvægt atriði vegna þess að hjá hinu opinbera hagar þannig til að almennir ríkisstarfsmenn njóta ekki eftirlaunaréttar nema einungis á grundvelli daglauna sinna en ekki yfirvinnu og aukaþóknana. Til þess að skapa ekki bil á milli þeirra, sem Kjaradómur fjallar um og reyndar kjaranefndin líka, þarf að gera mun á því hvað séu föst laun fyrir venjulega dagvinnu og hins vegar önnur laun sem starfinu fylgja.
    Ég get sagt það að eftir að hafa skoðað til að mynda fyrri ákvörðun Kjaradóms frá 26. júní er alveg ljóst að sú hækkun heildarlauna sem þar kom fram hefði haft gífurleg áhrif á eftirlaunaréttinn og ef ég man rétt held ég að hækkun eftirlauna þeirra sem Kjaradómur fjallaði um þá hafi verið u.þ.b. sama upphæð og meðaltal eftirlauna opinberra starfsmanna er, eða eitthvað um 42.000--43.000 kr. Með því að skilja á milli dagvinnu og annarra launa skapast hins vegar ekki þetta bil á milli þeirra sem kjaranefnd og Kjaradómur fjalla um og hinna sem taka laun samkvæmt kjarasamningum og ég tel að þetta sé mikilvægt atriði út frá þessum sjónarhóli þó ég vissulega skilji þau rök sem reyndar hafa komið fram á hinu háa Alþingi að hér sé verið að taka tillit til þeirrar aðferðar sem notuð er í dag við ákvörðun um laun og kjör og það er vissulega hægt að færa rök fyrir því að slík aðferð leiði til mismunar á milli launa, til að mynda karla og kvenna eins og svo margoft hefur komið fram í umræðunni. Ég vil þó taka fram að þetta er að sjálfsögðu ekki sett inn í lagafrumvarpið til að undirstrika að svo eigi að vera heldur einungis til að benda á að það þarf að vera samræmi milli eftirlaunanna fyrst og fremst og þess vegna er afar slæmt ef Kjaradómur ákveður heildarlaun sem mynda grunn fyrir eftirlaunaréttinn.
    Í 7. gr. er fjallað um kjaranefndina og eins og margoft hefur komið fram í fréttum og á opinberum vettvangi þá er gert ráð fyrir því að kjaranefndin sé úrskurðaraðili sem er á vegum framkvæmdarvaldsins og starfar á ábyrgð fjmrh. þótt ekki sé hugmyndin sú að fjmrh. sé sjálfur að vasast í þessum ákvörðunum.
    Kjaranefndin er fámennari en Kjaradómur. Henni er ætlað að taka ákvarðanir á grundvelli kjaradómsúrskurðanna annars vegar og kjarasamninga hins vegar. Það má gera ráð fyrir að starf kjaranefndarinnar verði æði mikið. Henni er jafnframt ætlað að taka afstöðu til einstakra persóna og þannig má gera ráð fyrir því að menn með sama starfsheiti geti haft misjöfn laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar eins og ég lýsti áður.
    Þá er gert ráð fyrir því að fleiri en þeir sem taldir eru upp í 8. gr. geti fallið undir úrskurði kjaranefndar og þá er fyrst og fremst verið að ræða um þá menn sem hingað til hafa verið kallaðir ráðherraraðaðir, en það er fjöldi embættismanna sem í raun hafa ekki verkfallsrétt, kannski takmarkaðan samningsrétt, en hafa kosið að láta ráðherra ákveða laun sín í stað þess að þurfa að sætta sig við niðurstöðu sem koma út úr kjarasamningum. Hér er oft um að ræða hópa sem má líta fremur á sem fulltrúa ríkisvaldsins en að þeir séu einstaklingar úr röðum viðkomandi stéttarfélaga. Þetta eru til að mynda yfirmenn á stofnunum sem verður að ætla að eigi að koma fram gagnvart starfsmönnum sínum sem fulltrúar ríkisvaldsins, viðkomandi ráðuneyta og fjmrn.
    Sá er munurinn á kjaranefnd og Kjaradómi að í kjaranefnd geta einstaklingar og stéttir lagt fram sín sjónarmið og jafnframt ráðuneyti og stofnanir, þannig að það má segja að nokkurs konar málflutningur geti átt sér stað í kjaranefndinni en það er ekki í Kjaradómnum.
    Í 12. gr. er tekið fram að eigi sjaldnar er árlega skuli Kjaradómur og kjaranefnd meta hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum sem þeir ákveða.
    Þetta eru, virðulegi forseti, helstu nýmælin sem koma fram í þessu frv. Í greinargerð eru upplýsingar bæði úr forsendum kjaradóma, einnig um launakjör ríkisstarfsmanna annars staðar á Norðurlöndum.
    Ég vil láta það koma fram að þeir sem sömdu lagafrv. telja að undir Kjaradóm sé æskilegt að þeir falli einungis sem framkvæmdarvaldið eigi ekki að fjalla um. Þar er um að ræða þá sem ég taldi upp áður, en kjaranefndin fjalli hins vegar um embættismenn og aðra þá sem að jafnaði eru skipaðir til starfa af handhöfum framkvæmdarvaldsins og eru ábyrgir gagnvart þeim. Þessi skipting byggir á þessum rökum og þessum forsendum. Í umræðunni sem hefur átt sér stað að undanförnu hafa þó komið fram hugmyndir um breytingar og ég vil taka það fram að ég tel að það eigi að leita sem víðtækasts samstarfs og samráðs um þetta frv. innan þingsins og er tilbúinn til þess að fallast á breytingar að sjálfsögðu sem upp geta komið í meðferð nefndarinnar.
    Ég get þó ekki látið hjá líða að benda á að mér finnst eðlilegt að það sé skoðað sérstaklega að biskup Íslands falli undir Kjaradóm, ekki síst vegna þess að hann er ekki skipaður af framkvæmdarvaldinu heldur er hann kosinn af prestum og þess vegna nýtur hann nokkurrar sérstöðu. Þá vil ég einnig benda á að sú tillaga hefur komið fram að þegar fjallað er um kjaramál presta þá kunni að vera eðlilegt að annar af fulltrúum fjmrn. víki en í stað komi fulltrúi kirkjunnar, til að mynda fulltrúi tilnefndur af kirkjuráði. Þessa hugmynd tel ég að við þurfum að skoða því í raun og veru hafa prestar nokkra sérstöðu því þar er um að ræða heila stétt sem fellur undir lögin, en að öðru leyti fjalla lögin um laun og kjör einstaklinga.
    Þá vil ég, eins og ég hef áður sagt, láta það koma fram að það var ekki hugmyndin að prestar yrðu innlyksa í þessum lögum ef þeir sjálfir teldu sínum málum betur varið utan laganna og með kjarasamningum.
    Virðulegi forseti. Ég hef rakið stærstu atriðin sem koma fram í þessu frv. Ég vonast til þess að frv. eigi greiðan aðgang til nefndarinnar. Ég hef að sjálfsögðu fullan og ríkan skilning á því að nefndin vilji skoða frv. vel og vil ég láta það koma fram að fulltrúar fjmrn. eru að sjálfsögðu tilbúnir til að leggja nefndinni lið með öllum þeim tiltæku upplýsingum sem finnast í fjmrn.
    Að svo mæltu geri ég tillögu um það að frumvörpin verði send til efh.- og viðskn.