Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 17:59:07 (411)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla að fara örfáum orðum um þetta frv. þrátt fyrir það að ég sitji í efh.- og viðskn. og hæstv. fjmrh. hafi bent mér á það með eilitlum þjósti í umræðum um síðasta mál, án þess að ég hafi tekið þar til máls, að ég þyrfti ekki að tjá mig um málið þar sem ég sæti í viðkomandi nefnd. En ég ætla nú samt að láta mig hafa það að ræða um þetta mál.
    Þá er það fyrst til að eyða misskilningi að ég tek undir það með síðasta ræðumanni að við spyrntum mjög hart við fótum í efh.- og viðskn. þegar bréf kom frá fjmrn. um að við færum að fjalla um málið áður en búið væri að vísa því til nefndar. Þótt það hafi verið samþykkt að taka þann sið upp í sumar við mjög sérstakar aðstæður, þá held ég að þetta sé starfsaðferð sem beri að forðast.
    Í öðru lagi vil ég taka það fram að hér er í raun um mjög stórt mál að ræða og mjög mikilvægt að það takist farsæl umfjöllun á Alþingi í vinnu við frv. Þetta frv. snertir kjör nánast allra æðstu embættismanna ríkisins, þar með taldir eru alþingismenn og ráðherrar, og er þar af leiðandi mjög viðkvæmt og öll umfjöllun verður undir smásjá. Þetta segi ég ekki vegna þess að það sé mín skoðun að menn eigi ekki að taka á þessum málum. Það er langt frá því. Málið er m.a. mikilvægt vegna þess að það hlýtur að skipta sköpum að launakjör æðstu embættismanna þjóðarinnar á hverjum tíma séu þess eðlis að þar ráðist eða bjóði sig fram hið hæfasta fólk. Eflaust skilja menn orð mín svo að þarna þurfi að verða viss leiðrétting og það er alveg rétt. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að verða viss leiðrétting á kjörum ákveðinna hópa, m.a. alþingismanna. Það er svo annað mál að ég sé ekki að nokkur rök séu fyrir því að aðlaga þau kjör að því sem gerist orðið á hinum almenna vinnumarkaði og þá fyrst og fremst fyrir það að kjör ýmissa hópa, sem menn hafa kannski á stundum viljað telja viðmiðunarhópa, virðast vera komin algerlega út úr kortinu. Það er athygli vert að á síðustu árum hafa launakjör ýmissa hæstlaunaðra hópa í þjóðfélaginu hækkað til muna umfram aðra.
    Það er alveg rétt sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna var boðið upp á að taka þátt í vinnu við undirbúning frv. sem hér er lagt fram. Því var hafnað fyrst og fremst vegna þeirrar málsmeðferðar sem varð í kringum bráðabirgðalagasetninguna í sumar. Þar tók ríkisstjórnin

á sig vissa ábyrgð og að mínu mati varð hún að axla hana áfram með því að koma með nýtt frv. inn í þingið. Þessi afstaða þingflokks Framsfl. breytir hins vegar engu um þá skoðun mína að það sé skylda þingmanna í öllum flokkum að taka höndum saman varðandi lausn þessa máls. Þetta er í raun og veru ekki eða á ekki að vera flokkspólitískt mál.
    Ég ætla að koma aðeins að einum þætti þessa máls sem hefur verið nokkuð í umræðu undanfarið. Það eru kjör presta. Ég tel að gremja og reiði presta eftir því hvernig farið hefur verið með þeirra kjaramál á síðustu missirum sé mjög skiljanleg. Það má öllum vera ljóst að prestastéttin kemur ekki fram opinberlega í svo ákveðinni umfjöllun um sín kjaramál fyrr en þeim finnst að verulega hafi verið á þeim brotið og svo held ég að sé í þessu máli. Við verðum að rifja það upp að prestar voru með samningsrétt eins og aðrir opinberir starfsmenn. Sú skipan hafði ekki reynst vel og þá fyrst og fremst vegna þess hversu erfitt það er fyrir prestana að taka þátt í harðri kjarabaráttu. Þeir höfðu þess vegna leitað eftir því að falla undir Kjaradóm. Það var nýbúið, varla þornað blekið á þeim lögum þegar sett voru lög á Kjaradóm í sumar. Þetta er skiljanlegt í ljósi þess að það vantaði mikið á að prestar, meðan þeir höfðu sjálfstæðan samningsrétt, hefðu náð fram ýmsum þeim kjaraleiðréttingum sem aðrir hópar opinberra starfsmanna höfðu náð og öllum í þeim stéttum þóttu sjálfsagðar. Sú leiðrétting hafði ekki farið fram. Þetta á m.a. við gagnvart óreglulegum vinnutíma, ferðapeningum og mjög mörgum þáttum öðrum. Til gamans má nefna það að prestarnir á Akureyri sem sinna Grímseyjarprestakalli fá, ef ég man rétt, 125 kr. fyrir ferðina þar út eftir, þ.e. einu sinni í mánði. Þeir fá samtals hálfa yfirvinnustund í mánuði fyrir að sinna annexíu. Það er ýmislegt af þessu tagi í kjörum presta sem stingur mjög í augu þegar maður sér það.
    Prestar fengu ekki leiðréttingu á sínum kjörum meðan þeir voru með frjálsan samningsrétt og höfðu bundið vonir við að þeir mundu fá leiðréttingu undir Kjaradómi sem og raunin varð á. Þar varð nokkur leiðrétting þó að langt sé frá að prestar hefðu getað talist til hálaunahópa ef hún hefði náð fram að ganga. Síðan var leiðréttingin tekin af með bráðabirgðalögum í sumar. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt að þeirra mál verði tekin sérstaklega fyrir. Inn í það hafa síðan á seinni stigum, eftir að frv. kom fram, blandast deilur um stöðu kirkjunnar, þjóðkirkju/ríkiskirkju, og m.a. hafa prestar haldið því fram að með því að vera settir undir kjaranefnd séu þeir komnir beint undir framkvæmdarvaldið og það sé þá enn ein staðfesting á því að hér sé ríkiskirkja. Ég ætla ekki að blanda mér í þessar deilur en ég bendi þó á í þessu sambandi að Kjaradómur er stjórnvald, ekki dómsvald og það ætti m.a. hv. 2. þm. Vestf. að vita. Kjaradómur er stjórnvald. Kjaranefndin er stjórnvald líka og fellur að mínu mati undir þann arm af þrískiptingu valdsins sem er framkvæmdarvaldið. Kannski er munurinn ekki eins mikill og prestarnir vildu vera láta varðandi þetta.
    Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að það er mjög eðlilegt í tengslum við þetta að menn taki mið af stöðu kirkjunnar, þeirri stöðu sem þjóðkirkjan vill og á að hafa. Þar er ýmislegt uppi, allt frá því að prestarnir fari undir Kjaradóm eins og æðstu embættismenn og til þess að menn túlki þjóðkirkjuhugtakið þannig að þjóðkirkjan fái bara launatillag úr ríkissjóði sem þjóðkirkjan ynni svo úr hvernig yrði farið með. Það mundi kannski öllu öðru fremur tryggja sjálfstæði þjóðkirkjunnar. Það er hins vegar flókið mál og mundi þýða miklar breytingar, m.a. á hlutverki biskupsstofu annars vegar og kirkjumálaráðuneytis hins vegar. Ég ætla ekki að hætta mér lengra út í þessar umræður, í það minnsta ekki meðan ég horfist beint í augu við prestvígðan mann sem eflaust þekkir þessi mál betur en ég.
    Meðal þess sem okkur hefur borist í hendur er greinargerð til Kjaradóms frá Prestafélagi Íslands frá því í ágústmánuði nýliðnum. Það er mjög vel unnin greinargerð þar sem rakið er lið fyrir lið eðli starfsins og þeirra kjara sem er eðlilegt að prestar nytu. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp úr þessari greinargerð þar sem stendur:
    ,,Við prestar óskum eftir að við mat á embættislaunum okkar verði tekið mið af eftirfarandi atriðum:
    1. Við erum í raun alltaf á bakvakt.
    2. Við berum mikla ábyrgð og á okkur hvíla víðtækar stjórnunarskyldur.
    3. Það fylgir eðli preststarfsins að vera vakandi siðferðisrödd í þjóðfélaginu.
    Til þess að geta sinnt þessari skyldu þurfa prestar að búa við fjárhagslegt sjálfstæði. Aðrar stéttir sem svipað gildir um hafa fengið þetta viðurkennt þegar launakjör þeirra hafa verið ákveðin.
    4. Prestar þurfa nokkrum sinnum á starfsævinni að leggjast undir dóm væntanlegra sóknarbarna sinna er þeir sækja um embætti.
    5. Kjör sóknarpresta mega ekki vera þannig að hæft fólk forðist að bjóða fram starfskrafta sína í þágu kirkjunnar.
    6. Við eigum ekki að þurfa að sækjast eftir launuðum aukastörfum sem ekki samrýmast embættisskyldum okkar, við eigum að geta sinnt störfum okkar óskiptir í þágu embættisins.
    7. Við verðum að geta staðið undir kröfu samfélagsins um að bera okkur vel. Í því felst m.a. að geta klætt sig í samræmi við virðingu embætta okkar og haldið heimili með sóma enda eru þau undir smásjá almennings og í sjálfu sér opinber með þeim útgjöldum sem því fylgir.``
    Þetta er vel unninn rökstuðningur en ég bendi þingheimi á það að skoða þennan rökstuðning og ef við skiptum út orðinu prestar og settum í stað nafn á annarri stétt sem er okkur vel kunnug hér sem í þingsölum starfa, hvort menn gætu þá ekki fundið þar eilitla hliðstæðu.

    En efnislega um frumvarpið, þá get ég ágætlega fallist á þetta frv. sem vinnuplagg fyrir efh.- og viðskn. til að ganga út frá. Ekki er þar með sagt að mér þyki það algjörlega gallalaust. Ég vil benda á 6. gr. þar sem segir:
    ,,Kjaradómur skal ákvarða föst laun fyrir venjulega dagvinnu og önnur laun sem starfinu fylgja og kveða á um önnur starfskjör.
    Kjaradómur skal við úrlausn mála taka tillit til venjubundins vinnuframlags og starfsskyldna umfram dagvinnu. Hann úrskurðar hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hvar beri að launa sérstaklega.
    Enn fremur skal Kjaradómur hafa hliðsjón af þeim hlunnindum og réttindum sem tengjast embætti og launum svo sem lífeyrisréttindum.``
    Það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvað er átt við með þessari grein. Er til að mynda hægt að hugsa sér að á þessari grein verði það byggt að farið verði innan Alþingis að launa nefndarformennsku sérstaklega eða launa menn sérstaklega eftir því hvernig menn meta vinnuframlagið?
    Ef það liggur þarna á bak við þá held ég að það sé mjög hættulegt fyrir lýðræðið og þróun mála á vinnustað okkar. Þar verður það að vera grundvallarregla að allir séu á sömu launum, hvaða embættum þeir gegna á vegum þingsins á hverjum tíma. Þessari spurningu vil ég varpa sérstaklega fram.
    Síðan er nokkuð hliðstæð grein um kjaranefndina og sú spurning hefur komið fram og ég ítreka hana: Hvernig hafa menn hugsað sér að kjaranefndin taki mat m.a. að hlunnindum sem fylgja viðkomandi starfi.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, en ítreka það sem ég sagði í upphafi að ég tel að það sé skylda Alþingis að taka á þessu máli og þar verði menn við þá vinnu að horfa fram hjá þeim mistökum sem hæstv. ríkisstjórn gerði í sumar við framkvæmd bráðabirgðalaganna og þess vegna legg ég áherslu á það að menn spyrði ekki þessi frv. saman í umfjöllun Alþingis, að menn taki sér góðan tíma til að vinna þessi mál og séu ekki endilega þar að horfa á þau tímamörk sem sett eru varðandi bráðabirgðalögin. Enda held ég að það sé það besta fyrir hæstv. ríkisstjórn að það líði í það minnsta nokkrar vikur á milli staðfestingar bráðabirgðalaganna og síðan nýrra laga um Kjaradóm og kjaranefnd.