Kjaradómur og kjaranefnd

15. fundur
Þriðjudaginn 08. september 1992, kl. 19:09:40 (415)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Það er von mín að mér takist að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint með þeim hætti að hægt sé að ljúka umræðunni. Mér er hins vegar kunnugt um að ég get ekki svarað öllu. Þá vænti ég þess að hv. þm. taki umræðuna upp í viðkomandi nefnd, enda gefst þar gott tækifæri til þess að fjalla um málið auk þess sem 2. og 3. umr. málsins eru eftir. Það eru aðeins örfá atriði sem ég kýs að nefna.
    Í fyrsta lagi var minnst hér á kjör presta. Ég held að það skipti afar miklu máli að játa það, og það hafa þingmenn gert, að prestar hafa í raun og veru farið nokkuð illa út úr sínum málum. Það byrjaði ekki með bráðabirgðalögunum í sumar því að prestar lentu í bráðabirgðalögunum 1990 þannig að þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir lenda í því að bráðabirgðalög eru sett sem breyta hugsanlega kjörum þeirra. En ég vil hins vegar greina frá því að þegar talað er um heildarlaun og yfirvinnu þá eru kannski forsendur Kjaradómsins um presta mjög gott dæmi um þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Í forsendunum 26. júní segir til að mynda, með leyfi forseta:
    ,,Vinnutími presta er mjög óreglulegur og stór hluti hans utan hefðbundins vinnutíma.`` Þá er í öðru lagi minnst á aukaverk presta og að þeir séu reyndar ætíð á bakvakt og svo segir orðrétt: ,,Álagsgreiðslur vegna afbrigðilegs vinnutíma og yfirvinnugreiðslur vegna bindingar hafa verið felldar inn í föst mánaðarlaun.`` Þetta var þegar fjallað var um fyrri dóminn.
    Ég nefni þetta til að benda á hve viðkvæmt og erfitt þetta mál er því að þarna er þetta viðurkennt og þetta eru reyndar sömu atriði og komu fram í því riti sem prestar sendu Kjaradómi í ágúst en þetta er viðkvæmt vegna þess að þarna mynda heildarlaunin grunn fyrir eftirlaunaréttinn. Ég ætla ekki að nefna neinn sambærilegan hóp en tökum hugsanlega kennara. Þeir fá aldrei nema dagvinnuna viðurkennda sem eftirlaunagrunn og þetta sýnir í hvaða vanda Kjaradómur og kjaradómsúrskurðirnar setja okkur í raun og veru í. Það er á svona málum sem var ákveðið að taka og maður sá strax eftir 26. júní að varð að taka og þetta frv. er auðvitað tilraun til þess að takast á við þetta tiltekna vandamál.
    Það var ekki ætlunin, ef ég hef skilið spurninguna rétt, að gera mun á alþingismönnum innbyrðis. Ég held að engum detti í hug að Kjaradómur eigi að gera slíkt en kjaranefndin hins vegar þarf hugsanlega að gera upp á milli launa, t.d. ráðuneytisstjóra innbyrðis.
    Ég er sammála hv. þm. Kristni Gunnarssyni sem spurði um það hvort hér væri ekki um framkvæmdarvaldið að tefla þegar Kjaradómur ætti í hlut. Ég tel það vera svo. Þetta er lögbundinn gerðardómur. Þetta er ekki dómstóll í skilningi lögfræðinnar. Þetta er hluti af framkvæmdarvaldinu og allar niðurstöður Kjaradóms og kjaranefndar geta þess vegna gengið til dómstóla og þar er hægt að fá úrlausn. Þetta held ég að allir séu sammála um.
    Vegna þess að minnst var á sérstöðu presta vil ég þó láta þess getið að kirkjumálaráðherra skipar presta. Þeir eru kjörnir, það er rétt, en kirkjumálaráðherra skipar presta eigi að síður og það er ein af skýringunum á því hvers vegna þeir eru inni í kjaranefndinni að það má álíta að þeir séu skipaðir þó að það sé auðvitað öðruvísi hvernig ráðning þeirra fer fram en með aðra starfsmenn, ég ætla ekki að segja opinbera starfsmenn því að ég ætla ekki að hætta mér inn í þær guðfræðilegar deilur sem um þetta hafa skapast. Ég get ekki bent á neina sambærilega hópa hvorki fyrir presta né alþingismenn en ákvæðið um sambærilega hópa var í lögunum áður þannig að þetta er ekkert nýtt í lögunum sem verið er að tala um í því

sambandi þegar um er að ræða samanburðarhópa.
    Hv. þm. Guðrún Helgadóttir minntist á verkfallsréttinn. Því er til að svara varðandi þessa lista að þeir eru birtir eins og lög gera ráð fyrir. Reyndar hefur stundum orðið deila um þessa lista og síðast lenti slík deila í Félagsdómi. Umboðsmaður og ríkissaksóknari taka samkvæmt lögum laun eins og hæstaréttardómarar og við töldum ekki ástæðu til að breyta því. Hins vegar háttar þannig til um ríkissáttasemjara og ríkisendurskoðanda að í lögum um þá segir að það skuli fara með launamál þeirra með sama hætti og um aðra sem eru í Kjaradómi en ekki er um beina viðmiðun að ræða. Lögum um þá á hins vegar að breyta og það fellur í hlut annarra ráðherra að gera það því að ríkisendurskoðandi heyrir undir Alþingi og það er forsætisráðherra sem fer með það mál af hálfu framkvæmdarvaldsins en um ríkissáttasemjara er getið í lögum sem heyra undir félmrn.
    Ég vil taka það fram vegna orða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar að ákvörðunin um að setja eða útbúa nýtt lagafrv. er eldri en bráðabirgðalögin. Það var ákveðið strax 30. júní frekar en 1. júlí að efna til slíkrar vinnu og bráðabirgðalögin breyttu engu um áform ríkisstjórnarinnar í þeim efnum því að slíkir gallar eru á fyrirkomulaginu eins og það nú er og eins og það var áður en bráðabirgðalögin voru sett.
    Ég vil einnig að það komi skýrt fram í mínu máli að það var ekki ætlun mín né þeirra sem störfuðu í nefndinni að fara illa með presta og láta þessa löggjöf bitna á þeim nema síður væri og ég tel einmitt að sú breyting, sem hér er að eiga sér stað, gæti hjálpað þeim til að ná fram rétti sínum sem mér skilst að hv. alþm. hafi flestir hverjir mikinn áhuga á.
    Varðandi kjaranefndina þá er hún eins og ég hef áður sagt nefnd sem er sett samkvæmt frv. af ráðherra rétt eins og aðrar slíkar nefndir sem þurfa að greiða úr ágreiningi eða úrskurðum samkvæmt lögum. Ég hef áður minnst á yfirskattanefnd í því sambandi en fjmrh. skipar alla yfirskattanefndarmenn.
    Þegar talað er um atriði sem þarf að huga að um launakjör og af því að minnst var á launakjör og starfskjör þá hef ég enga aðra skýringu á hver munurinn á þessum tveimur hugtökum sé nema starfskjör sýnist mér vera víðtækra hugtak en launakjör. Þessi ákvæði voru áður í lögum og er auðvitað sjálfsagt að nefndin skoði þessi hugtök. En þegar þarf að ræða um einstök atriði sem hafa áhrif á laun þá vil ég t.d. nefna eitt og það er Ríkisendurskoðun og stjórn hennar sem er í höndum forseta. Það þarf auðvitað að vera ljóst hvort það telst vera hluti af launum eða hvort það eru tekjur sem forsetar hafa auk launa. Þetta þarf auðvitað að koma fram og Kjaradómur þarf að átta sig á slíkum atriðum. Það sama á við um ýmsa þá sem heyra undir kjaranefndir, t.d. ráðuneytisstjóra og aðra slíka, ef það stendur í lögum að þeir skuli vera í stjórnum ákveðinna tiltekinna stofnana. Tökum t.d. Almannavarnir ríkisins. Það er tiltekið að ákveðnir embættismenn, lögreglustjórinn, ef ég man rétt, og fleiri slíkir skuli vera í stjórn Almannavarna þá þarf auðvitað að vera ljóst: Eiga þeir að vera í stjórninni vegna þess að þeir eru í þessu embætti og það tilheyri embættisskyldunni og falli undir þá vinnuskyldu sem kjaranefnd nær til eða er þetta vinna sem, eins og einhver sagði, er unnin á kvöldin og kemur engum öðrum við? Það eru svona atriði sem þarf auðvitað að líta á og gera þetta mál nokkuð flókið. Ég tel það rétta ábendingu sem kom fram um að það þarf að skoða hvort það eigi ekki að vera tímabundin skipun á þessu og tel sjálfsagt að nefndin líti á slíkt atriði.
    Varðandi forseta Íslands skal ég hafa fáein orð. Hingað til hefur það verið talið nægja að ákveða laun forseta Íslands með þeim hætti sem gert hefur verið og við könnumst við en ég ætla ekki að deila um það. Það kann að vera að réttara hefði verið á grundvelli stjórnarskrárákvæðisins að ákveða það með lögum og breyta þá lögum hverju sinni. Um það get ég ekkert sagt að svo stöddu en þetta er auðvitað sjónarmið sem upp hlýtur að koma og mér finnst eðlilegt að nefndin fjalli um.
    Virðulegi forseti. Ég veit að þetta svarar ekki öllum fyrirspurnum sem til mín var beint en ég vona að þetta stuðli að því að málið komist til nefndar á þeim skamma tíma sem við höfum nú í kvöld.