Evrópskt efnahagssvæði
16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 13:39:00 (418)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þegar við hófum umræður um þennan mikla samning hér í þinginu þá reikna ég með að flestir hafi búist við að þeir hæstv. ráðherrar sem málið snertir sérstaklega mundu gera ítarlega grein fyrir þeim málaflokkum sem sérstaklega koma til álita. Því miður verður að segja þá sögu eins og er að þrátt fyrir langa og ítarlega umfjöllun hér á Alþingi, sem hæstv. ráðherrar hafa kvartað undan sérstaklega, þá hefur það gerst að mjög lítið hefur komið fram af hálfu þessara hæstv. ráðherra. Það er reyndar mjög merkilegt að hæstv. sjútvrh. hefur ekki kvatt sér hljóðs til þess að flytja efnislega ræðu í þessum umræðum og fjalla um málefni sjávarútvegsins og Evrópska efnahagssvæðið. Það er auðvitað líka mjög athyglisvert að hæstv. landbrh. hefur ekki kvatt sér hljóðs til þess að ræða það álitamál sem fjölmargir þingmenn og stór hluti þjóðarinnar hefur velt fyrir sér, hvað verður um jarðakaup útlendinga ef þessi samningur tekur gildi. Það vekur einnig athygli að hæstv. félmrh. hefur ekki kvatt sér hljóðs þrátt fyrir það að samruni íslenska vinnumarkaðarins við vinnumarkað Evrópubandalagsins sé eitt af höfuðeinkennum þessa samnings. Og því miður er það þannig að þögn þessara þriggja ráðherra, ráðherra sjávarútvegsmála, ráðherra landbúnaðar og ráðherra félagsmála, er auðvitað veruleg hindrun í því að 1. umr. hafi getað orðið efnisleg og málefnaleg á þeim grundvelli sem við mörg vonuðumst til.
    En því miður virðist sem þessir þrír hæstv. ráðherrar ætli að kjósa þögnina í 1. umr. á Alþingi um þetta stóra og veigamikla mál. Hvað boðar sú þögn? Boðar hún efasemdir? Boðar hún gagnrýni? Boðar hún hik á stuðningi? Boðar hún vandræðagang? Það vitum við ekki.
    Hæstv. utanrrh. hefði getað gripið til þess ráðs að svara í sinni ræðu þeim fjölmörgu spurningum sem beint hefur verið til þessara ráðherra sem ég hef hér nefnt. Sú aðferð gæti verið byggð á því viðhorfi að þar sem hæstv. utanrrh. fari með málið eigi hann aðallega að sitja fyrir svörum. En það gerði hæstv. utanrrh. ekki heldur. Hann flutti hér svarræðu fyrir helgina þar sem nánast ekki neitt var vikið að þeim fjölmörgu spurningum sem bornar hafa verið fram í þessum umræðum.
    Hæstv. forsrh. talaði hér einnig frekar stutt og fjallaði aðallega um það sem hefur komið fram í ræðum undir dagskrárliðnum breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins og lagði heldur ekki í það að fara í efnislega umfjöllun um málið.
    Ég hef látið taka saman lýsingu á þeim fjölmörgu efnisatriðum sem vikið hefur verið að í þessari umræðu af þeim mörgu hv. þm. sem hér hafa talað. Þetta er ágripskennt þannig að ekki er verið að lýsa því sem fram kom, heldur eingöngu getið um efnisatriðin, ein til tvær línur um hvert efnisatriði. Og þessi skrá er upp á fimm heilar síður. Hún felur það í sér að það eru tugir efnisatriða sem hér hafa komið til umfjöllunar og það er gífurlegur fjöldi fyrirspurna sem borinn hefur verið fram til hæstv. ráðherra sem ekki hefur verið svarað.
    Nú er það hins vegar alveg greinilegt að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að ljúka 1. umr. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði án þess að svara þessum spurningum. Það tel ég vera slæmt. Ég hefði þá kosið vænlegri meðferð og vandaðri að þeir ráðherrar sem ég hef hér sérstaklega nefnt hefðu við 1. umr. málsins gert grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi sjávarútveginn, varðandi jarðakaupin, varðandi vinnumarkaðinn, varðandi orkumálin, svo ég nefni það nú einnig, en það hefur ekki gerst. Þingið er þess vegna í reynd í jafnmikilli óvissu nú hálfum mánuði svo eftir að umræðan hefst um sjónarmið þessara hæstv. ráðherra eins og þingið var í maí þegar það fór heim.
    Ég ætla sérstaklega að nefna hér sjávarútveginn og jarðakaupin. Ég hef tekið eftir því að hæstv. utanrrh. hefur sagt opinberlega nokkrum sinnum að honum fyndist ekkert athugavert við það að Alþingi afgreiði EES-samninginn sem lög jafnvel þótt sjávarútvegssamningurinn milli Íslands og Evrópubandalagsins lægi ekki fyrir, það liggi ekkert á að ganga frá þeim samningi fyrir áramót. Ég vil hér strax mótmæla algjörlega þessum viðhorfum og hefði auðvitað kosið að hæstv. sjútvrh. hefði tjáð sig um þessa kenningu. Er það þannig að hæstv. sjútvrh. sé virkilega sammála því viðhorfi að hægt sé að greiða atkvæði endanlega um EES-samninginn hér á Alþingi án þess að Íslendingar hafi séð í endanlegri gerð fiskveiðisamning og sjávarútvegssamning Íslands og Evrópulagsins? Við því hefur ekkert svar fengist.
    Ég hef líka spurt hæstv. forsrh. í þessum umræðum: Er hæstv. forsrh. sammála því að EES-samningurinn komi til endanlegrar afgreiðslu hér á Alþingi án þess að sjávarútvegssamningurinn liggi fyrir? Mér vitanlega hefur hæstv. forsrh. ekki svarað því. Ég ætla í sjálfu sér ekki að knýja á um það svar hér og nú ef hann kýs að bíða með að gera upp hug sinn í þeim efnum. En hitt held ég að allir skynsamir menn hljóti að vera sammála um að það er ekki hægt að setja Alþingi í þá stöðu að greiða atkvæði um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði án þess að sjávarútvegssamningurinn og fiskveiðisamningurinn í endanlegri gerð liggi á borðum þingmanna. Ég vil í því sambandi vekja athygli þingsins á því að Evrópubandalagið hefur af sinni hálfu í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði og fylgiskjölum hans tekið alveg skýrt fram að Evrópubandalagið mun ekki formlega staðfesta samninginn um Evrópskt efnahagssvæði fyrr en fiskveiðisamningur og sjávarútvegssamningur sem Evrópubandalagið getur unað liggur á borðum Evrópubandalagsins. Er það virkilega þannig að það eigi að vera afstaða þjóðþings Íslendinga að það ætli að afgreiða samninginn um Evrópskt efnahagssvæði án þess að hafa sjávarútvegssamninginn á borðinu þegar Evrópubandalagið segir: Við ætlum ekki að afgreiða hann hjá okkur fyrr en sjávarútvegssamningurinn er kominn inn á borð til okkar? Eru menn ekkert hræddir við þann veikleika sem yrði í hagsmunastöðu íslensku þjóðarinnar í togstreitu Íslands við Evrópubandalagð um veiðar þeirra innan íslenskrar landhelgi ef svo yrði haldið á málum?
    Virðulegi forseti. Það hefur einnig komið fram hér á þessum fyrstu tveimur vikum að það er eindregin krafa okkar, flokkanna í stjórnarandstöðu, að það fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þennan samning. Ég vil vekja athygli á því að þrjú öflugustu stéttasamtökin í landinu hafa öll tekið undir þessa ósk. Alþýðusamband Íslands hefur ályktað um það að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur ályktað um það að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Stéttarsamband bænda hefur ályktað um það að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram. Satt að segja er það ótrúlega breiður stuðningur sem sú krafa hefur, ( ÓÞÞ: Ekki ótrúlega. Eðlilega breiður.) ég bið þingmanninn að bíða eftir því að ég ljúki setningu minni --- ótrúlega breiður stuðningur við þessa kröfu sem m.a. birtist í því að annað stærsta dagblað landsins, DV, sem almennt hefur nú ekki tekið undir sjónarmið okkar margra hér á Alþingi, hefur hvað eftir annað í leiðurum, bæði þeim sem skrifaðir eru af Ellert B. Schram og þeim sem skrifaðir eru af Jónasi Kristjánssyni, tekið undir þessa kröfu. Og það er líka athyglisvert að ég hef hvergi fundið utan þings neitt dæmi þess að samtök eða öflugur aðili í okkar þjóðfélagi hafi mælt gegn kröfunni um þjóðaratkvæði. Það væri a.m.k. fróðlegt ef þeir hér á Alþingi sem eru tregir til að samþykkja þá tillögu geta fundið því stað að einhver heildarsamtök launafólks eða atvinnulífs hér í landinu, eða aðrir öflugir aðilar í okkar þjóðfélagi, hafi formlega andmælt því sjónarmiði að þjóðaratkvæðagreiðsla eigi að fara fram.
    Ég vil þess vegna nú þegar líður að lokum 1. umr. um þennan samning eindregið beina þeirri ósk til hæstv. ríkisstjórnar að hún hugleiði það á næstu vikum hvort það er ekki skynsamleg og farsæl leið í meðferð þessa máls að fallast á að t.d. í seinni part nóvembermánaðar eða byrjun desembermánaðar fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þennan samning. Það er margt sem mælir með því. Málið er deilumál hér á Alþingi, málið er deilumál meðal þjóðarinnar, málinu tengjast fjölmörg önnur frumvörp sem gætu orðið erfið í afgreiðslu ef ekki næst samkomulag um það hvernig dómurinn í málinu sé látinn falla. Þjónar það ekki líka hagsmunum ríkisstjórnarinnar að fá úr því skorið með ótvíræðum hætti að vilji þjóðarinnar sé á bak við tillögugerð ríkisstjórnarinnar þannig að öll önnur afgreiðsla málsins verði greiðari?
    Ég vona að hæstv. ríkisstjórn noti þinghléið og fyrri hluta októbermánaðar til að hugleiða þetta á ný, því mér finnst margt mæla með því frá sjónarhóli ríkisstjórnarinnar sjálfrar og vilja hennar til að koma málinu í heild sinni í formlega höfn fyrir áramót að fallast á slíka ósk. Hún þarf ekki að trufla þingstörfin í vetur. Ég reikna með því að stjórnarandstöðuflokkarnir væru tilbúnir að fallast á áframhaldandi störf í þinginu í októbermánuði og nóvembermánuði þótt þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um EES-samninginn og við ættum á grundvelli sameiginlegs vilja að geta kortlagt þá atburðarás og störfin hér í þinginu með farsælum hætti.
    Ég óttast satt að segja það mjög ef ríkisstjórnin ætlar að fylgja þeirri leið að segja nei við öllum tillögum eða tilmælum af þessu tagi. Því var hafnað að meta stjórnarskrárþáttinn á þann veg sem við lögðum til. Því hefur verið hafnað í umræðunni að breyta stjórnarskránni og ef einnig á að hafna tillögunni og óskinni um þjóðaratkvæðagreiðslu þrátt fyrir þann stuðning sem hún hefur þá óttast ég að málið allt verði miklu erfiðara.
    Virðulegi forseti. Ég vil einnig hér við lok 1. umr. ítreka það sem ég vék nokkuð að í minni fyrri ræðu að tillaga sú sem Alþb. hefur fært fram í þessu máli er að formlega verði óskað eftir því að viðræður um tvíhliða samning Íslands og Evrópubandalagsins hefjist nú þegar. Ég hef ekki heyrt sannfærandi rök fyrir því að hafna þessari ósk. Hún hefur einnig komið fram m.a. frá formanni Framsfl. Það liggur líka ljóst fyrir nú að upp úr næstu áramótum hefjast viðræður hinna EFTA-landanna um aðild að Evrópubandalaginu. Því var lýst á sameiginlegum fundi utanrmn. Alþingis með sérstakri þingmannanefnd frá þingi Evrópubandalagsins, sem hér var fyrir nokkrum dögum síðan, að stefnt væri að því að ljúka samningaviðræðum hinna EFTA-ríkjanna og Evrópubandalagsins á einu ári þannig að þeim viðræðum yrði lokið um áramótin 1993--1994. Það ætti þess vegna að vera kleift að dómi þessara þingmanna Evrópuþingsins, sem hingað komu til viðræðna, að hin EFTA-löndin gengju í Evrópubandalagið árið 1995, í síðasta lagi 1996--1997. Þar með er auðvitað alveg ljóst að Evrópska efnahagssvæðið væri varla komið úr startholunum þegar það væri liðið undir lok.
    Við höfum lýst því í umræðunum hverjir eigi að vera höfuðþættir slíks tvíhliða samnings. Hann á að fela í sér að greiða fyrir viðskiptum á sviði vöru, þjónustu, fjármagns og vinnumarkaðar. Í sýnishorni af slíkum samningi, sem ég hef látið sérfræðinga gera, kemur fram hvernig hægt er að taka þá þætti úr samningnum um Evrópskt efnahagssvæði sem hagkvæmastir eru og auðveldastir viðureignar fyrir okkur Íslendinga og breyta þeim í slík varanleg tvíhliða samskipti Íslands og Evrópubandalagsins.
    Ég tel nauðsynlegt að í meðferð utanrmn. um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði verði möguleikinn á gerð slíks tvíhliða samnings tekinn rækilega til meðferðar og einnig hverjir eigi að vera þættir hans. Fyrst hæstv. ríkisstjórn hefur ekki haft frumkvæði að því að ræða við forsvarsmenn Evrópubandalagsins um slíkan tvíhliða samning þótt bandalagið sé búið að ákveða að hefja viðræður við hin EFTA-ríkin um aðild þá finnst mér fyllilega koma til greina að utanrmn. sjálf hafi frumkvæði að því á næstu vikum að ræða við forustumenn Evrópubandalagsins um slíkan möguleika. Það eru fordæmi fyrir því að utanrmn. Alþingis eigi slíkar stefnumótandi viðræður við forustumenn og æðstu menn Evrópubandalagsins í Brussel og fyrst framkvæmdarvaldið hefur ekki viljað hafa frumkvæði í því máli þá er eðlilegt að mörgu leyti að löggjafarvaldið geri það.
    Virðulegi forseti. Í þeirri svarræðu, sem hæstv. utanrrh. flutti, drap hann ekki á mjög mörg efnisatriði úr þessum umræðum. Ég saknaði þess þó mjög að hann reyndi ekki að færa frekari rök að því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði mundi vera veigamikið framlag til þess að greiða úr þeim mikla vanda sem er í atvinnumálum okkar Íslendinga.
    Í umræðunum hefur af hálfu tveggja þingmanna, hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur og hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, verið rökstutt mjög rækilega að litlar líkur eru á því að þær tollaniðurfellingar sem tengjast sjávarútvegssamningnum muni leiða til aukinnar atvinnu í fiskiðnaði á Íslandi. Það má vel vera að tollalækkanirnar færi fyrirtækjunum meiri hagnað þó að deilt sé um hvað það kunni að vera mikið en rökin fyrir því að þær færi launafólki fleiri atvinnutækifæri eru hins vegar ekki sterk. Sama gildir um ýmis önnur svið, byggingarstarfsemi, svið framkvæmda og svið verslunar. Þvert á móti er það eina sem við höfum heyrt á sviði verslunar að tvær öflugar verslanir, Hagkaup og Bónus, hafi sameinast og ætli að segja upp starfsfólki, fækka hjá sér. Rökin eru vörn gegn vaxandi samkeppni vegna EES.
    Það er því þannig, hæstv. utanrrh., að það skortir skýr dæmi, nákvæm og skýr dæmi um það með hvaða hætti EES-samningurinn skapi hér fleiri atvinnutækifæri og styrki efnahagslífið og vinnumarkaðinn.
    Ég vona að hæstv. utanrrh. forláti þó ég segi að mér fannst hann stundum í þessari ræðu sinni í bjartsýninni og fullyrðingunum um að EES mundi leysa þennan vanda minna á mennina sem trúðu því fyrir hálfri öld að byltingin mundi leysa allan vanda. Byltingin væri eitthvað patent sem mundi sjálfkrafa færa launafólkinu hagsæld og betra líf. Það er nú því miður þannig að menn taka stundum trú á svona patent en veruleikinn er bara miklu flóknari og miskunnarlausari. Eitt svona patent var t.d. kenningin um álverið. Hvað ætli hæstv. iðnrh. hafi flutt á síðustu þremur árum margar ræður í þessum stól og úti í þjóðfélaginu um það að erfiðleikar sem þá blöstu við mundu leysast vegna samnings um nýtt álver? Þegar t.d. fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands sögðu fyrir ári síðan að þeir væru hættir að trúa því að nýtt álver mundi rísa á næstu árum, Þórarinn V. Þórarinsson og Einar Oddur settu fram þá skoðun, þá skammaði hæstv. iðnrh. þá sérstaklega fyrir að láta slíkar efasemdir í ljós. En hvað er komið á daginn? Það er komið á daginn að við sem vöruðum við patenthyggjunni í álmálinu, bæði sá sem hér stendur, fyrrv. hæstv. forsrh., forustumenn Vinnuveitendasambandsins, höfðum því miður á réttu að standa. En verktakarnir, sem trúðu á patentkenninguna, fólkið á Suðurnesjum, sem trúði á patentkenninguna, verða núna að horfast í augu við 10% atvinnuleysi á Suðurnesjum og í Morgunblaðinu í dag segja forustumenn þeirra tveggja fyrirtækja, sem við höfum verið að ræða við, að í dag séu enn minni líkur en fyrir hálfu ári á því að álver verði reist á Íslandi í næstu framtíð. Voru þær þó ekki miklar þá.
    Mér finnst margt líkt með málflutningnum um að EES eigi að leysa vandann sem við Íslendingar eigum við að glíma. Ég tel hættulegt að halda því að þjóðinni að með því að samþykkja þennan samning muni vandamálin að einhverju verulegu leyti leysast. Að samningurinn sé einhver slíkur lykill að lausn vandans fyrir fólkið í fiskvinnslunni, fyrir sjómenn, fyrir viðskiptalífið, að bara ef þingmenn segi já hér á Alþingi þá muni veruleikinn breytast á nýju ári. Hvað sem líður afstöðu okkar til þessa samnings, menn geta verið með honum, menn geta verið á móti honum, það er allt annar hlutur. En ég tel það fullkomna blindu að halda það virkilega að þeir miklu erfiðleikar, sem við eigum við að etja í sjávarútvegi og efnahagslífi á Íslandi, muni að einhverju leyti verða minni á árinu 1993 eða 1994 vegna þessa samnings. Og það skortir á að þeir sem segja þjóðinni það nefni dæmi úr veruleikanum til að sanna mál sitt. Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir rökstuddi mál sitt hins vegar með því að nefna Baader-vélarnar alveg skýrt. Sagði eins og er, það er hægt að láta fjórar til fimm Baader-vélar annast þá breytingu á fiskinum sem henta vegna tollalækkana. ( ÁRÁ: Það væri hægt að . . .   nota Baader-vélar.) Nei, hv. þm., sem líka hefur skrifað í blöð á Suðurnesjum um að EES-samningurinn muni leysa vanda atvinnulífsins á Suðurnesjum að hluta til, hefur tekið þátt í því að halda nýrri blekkingu að launafólkinu á Suðurnesjum og hefur þess vegna gengið í spor hæstv. iðnrh. sem á fyrri árum blekkti launafólkið á Suðurnesjum og sagði: Ég mun færa yður álver og vandi yðar verður leystur. Hv. þm. Árni Ragnar Árnason hefur í umfjöllun á Suðurnesjum á undanförnum mánuðum verið að segja: EES mun leysa vandann að hluta til hér á Suðurnesjum.
    En það vantar bara dæmin. Hvar eru fyrirtækin? Viljið þið ekki nefna þau? Viljið þið ekki nefna fyrirtækin sem munu auka umsvif sín hér á landi vegna EES-samningsins? Það hefur ekki eitt slíkt dæmi verið nefnt. Það hefur verið ýjað að því að einhver lítil fiskvinnslufyrirtæki munu kannski gera samninga við hótel og annað af því tagi, en jafnvel þótt einhverjir slíkir yrðu gerðir þá skipta þeir ekki sköpum. Hvar eru fyrirtækin sem ætla sér vegna þessa EES-samnings að leggja út í nýjar fjárfestingar, nýja sókn í atvinnulífinu til að skapa ný atvinnutækifæri og aukinn hagvöxt vegna þessa samnings? Viljið þið ekki nefna þau, hv. þm., sem hafa verið að halda því að þjóðinni að veruleikinn mun verða á þann veg?

    Ég held að það megi að mörgu leyti líkja þessum EES-samningi við blöðru. Kannski verður eitthvert loft í henni en kannski ekki. Kannski fellur hún saman eins og blaðra sem hefur ekkert loft en kannski verður hægt að blása einhverju lofti í hana. En það er enginn hér í salnum sem getur veitt slíka tryggingu. (Gripið fram í.) Hv. þm. greip hér fram í og sagði að það væri eitthvert loft í henni frá fyrri stjórn og ég heyri á þessari athugasemd að hv. þm. Sturla Böðvarsson er að reyna að fikra sig yfir í þann kór stjórnarþingmanna sem leggja ekki í málefnalegar umræður við okkur um þennan EES-samning heldur eru bara í fortíðinni.
    Við skulum ganga út frá því, hv. þm., að það væri jafnvel allt rétt sem t.d. hv. þm. Björn Bjarnason hefur sagt um fortíðina í þessu máli en jafnvel þótt það væri rétt, breytir það einhverju um þá afstöðu sem menn þurfa að taka nú, hv. þm.? Er hægt að sækja sér einhver rök í fortíðarumræðuna þegar menn taka afstöðu til þessa samnings? Það held ég ekki. Slíkar röksemdir afhjúpa það eingöngu að viðkomandi þingmaður treystir sér ekki að byggja málflutning sinn eingöngu á kostum EES-samningsins. Það er auðvitað athyglisvert að satt að segja er hæstv. utanrrh. sá eini hér í salnum sem hefur treyst sér til þess að byggja málflutning sinn fyrst og fremst á meintum kostum þessa samnings. Talsmenn Sjálfstfl., bæði hæstv. forsrh. og hv. þm. Björn Bjarnason, hafa ekki treyst sér til þess. Þeir hafa fyrst og fremst sótt vopn sín í eitthvert fortíðarskak, frekar leiðinlegt fortíðarskak, sem er svo sem hægt að taka þátt í en er óskaplega ófrjótt og alls ekki sæmandi í svona mikilvægu máli, enda höfum við stjórnarandstæðingar ekki gert það. Við höfum yfirleitt látið það sem vind um eyrun þjóta og haldið áfram að fjalla málefnalega um þættina í samningnum, málefnalega um jarðakaupin, málefnalega um sjávarútveginn, málefnalega um vinnumarkaðinn, málefnalega um fjárfestingarnar, málefnalega um stofnanauppbygginguna, málefnalega um stjórnarskrárþáttinn. Við höfum ekki fengið nein svör við þessum greinargerðum okkar, efasemdum og röksemdafærslum.
    Hæstv. utanrrh. fullyrti að þessi samningur mundi opna mörg ný tækifæri í sjávarútvegi. Ég vil enn á ný spyrja hæstv. utanrrh. --- og hefði reyndar kosið að hæstv. sjútvrh. kæmi einnig inn í umræðuna vegna þess að þögn hans í þessu máli er auðvitað mjög merkileg. Hún er mjög merkileg --- að hæstv. utanrrh. sýndi fram á það með raunhæfum dæmum í ljósi þeirrar umræðu sem á sér stað í þjóðfélaginu um frystitogarana og það sem sagt hefur verið hér af kunnáttumönnum í sjávarútvegi: Hvar eru þessi tækifæri nákvæmlega? Hver eru svör hæstv. utanrrh. við ræðum hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur og Jóhanns Ársælssonar annað en bara almennar fullyrðingar um að tækifæri verði meiri o.s.frv.? Það er enn á ný óskað eftir slíku.
    Hæstv. utanrrh. vék að orkumálunum og það var satt að segja það eina sem var dálítið efnislegt hjá hæstv. utanrrh. En það var athyglisvert að hann sagði bara hálfa söguna og maður velti því fyrir sér hvers vegna segir hann alltaf bara hálfa söguna í orkumálunum. Hann sagði þá sögu sem er út af fyrir sig alveg rétt hjá honum að í þessum samningi er hægt að setja lög á Alþingi sem í fyrsta lagi færa eignina á vatnsréttindunum og heitu lindunum til þjóðarinnar. Það er hægt. Það er alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. Það er stefna sem minn flokkur hefur fylgt lengi, við höfum flutt um það frv. á Alþingi. Eitt slíkt liggur á borðum þingmanna og við styðjum það. En ég spyr hins vegar og er nú leitt að hæstv. forsrh. skuli ekki vera í salnum: Styður Sjálfstfl. slíkt frv. um ríkiseign í stað einkaeignar? Því það sem hæstv. utanrrh. sagði hér með réttu er að til þess að koma í veg fyrir erlenda yfirtöku á þessum auðlindum orkunnar þarf með löggjöf á Alþingi að gera þær auðlindir að ríkiseign, flytja þær úr einkaeign yfir í ríkiseign. Við styðjum það í Alþb. vegna þess að við teljum að það sé þjóðin sem eigi þessar auðlindir en Sjálfstfl. og reyndar að hluta til Framsfl. hafa ávallt staðið gegn slíkri lagasetningu. Þess vegna spyr ég nú talsmenn Sjálfstfl.: Eru þeir sammála hæstv. utanrrh. um að setja slík lög? Það hefur ekki komið fram hér í umræðunni. Ef þau verða sett fullyrði ég að það yrði stórfelldasta þjóðnýting sem framkvæmd hefði verið á Íslandi í verðmætum og umfangi talið. Auðvitað væru það mikil tíðindi ef Sjálfstfl. færi að standa að því á Alþingi að framkvæma umfangsmestu þjóðnýtingu sem hér hefur verið gerð með lögum til þess að búa til girðingar vegna EES-samnings, að kjósendum Sjálfstfl. verði sagt að vegna EES-samningsins verðum við að styrkja eignarstöðu ríkisins á Íslandi, opinbera geirans, og taka frá einstaklingunum stóran hluta af þeim eignum sem þeir hafa haft í dag. Þetta er allt saman rétt hjá hæstv. utanrrh. Þetta er hægt en það hefur bara ekki komið fram í umræðunni að Sjálfstfl. styðji þetta. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. utanrrh.: Hefur honum gengið betur að fá Sjálfstfl. í núverandi ríkisstjórn til að styðja þetta en honum gekk að fá Framsfl. í síðustu ríkisstjórn?
    Ég sagði hins vegar áðan að hæstv. utanrrh. hefði bara sagt hálfa söguna vegna þess að hann nemur staðar þegar kemur að orkufyrirtækjunum. Auðvitað er það ekki nóg að eiga bara auðlindirnar ef nýtingin á þeim færist í hendur erlendra aðila. Þá er það að vísu rétt hjá hæstv. utanrrh. að meðan orkufyrirtækin eru í opinberri eign, eigu ríkis og sveitarfélaga, þá breytist ekkert. En um leið og þeim yrði breytt í hlutafélög, sem er t.d. stefna núv. iðnrh. og stefna Sjálfstfl., og þau hlutabréf yrðu seld gæti hver sem er á Evrópska efnahagssvæðinu, hvort sem hann væri Þjóðverji, Ítali, Breti, einkaaðili eða fyrirtæki, banki eða tryggingafélag, lífeyrissjóður eða hvað annað keypt íslensku orkufyrirtækin. Ef maður leggur einkavæðinguna við EESsamninginn er ekkert sem hindrar það að Landsvirkjun, Rafmagnsveita Reykjavíkur, Hitaveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða verði komin í erlenda eign eftir einhvern tíma. Þetta er ekki hræðsluáróður af minni hálfu. Þetta er einfaldlega staðreyndalýsing á því hvað felst í því þegar einkavæðingin er lögð

við EES-samninginn. Þess vegna er eðlilegt að við spyrjum: Er Sjálfstfl. til samkomulags um það hér á Alþingi að hverfa afdráttarlaust frá þessum einkavæðingaráformum svo það sé a.m.k. öruggt að orkufyrirtækin lendi ekki í höndum útlendinganna? Við því hafa engin svör fengist.
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að ég ræddi við erlendan blaðamann í gær um þessar umræður hér. Honum fannst það dálítið merkilegt að sá flokkur sem stýrði ríkisstjórninni héti ekki Íhaldsflokkur eða ,,konservatívur`` flokkur eins og þeir heita nú flestir erlendis heldur Sjálfstæðisflokkur og sækti nafngift sína í þá sögu og hefð sem íslenska sjálfstæðisbaráttan hefur mótað. Þess vegna spyr maður nú eðlilega: Er það virkilega svo að það enginn í þingmannasveit Sjálfstfl. vilji enn þá bera það gamla merki? ( EgJ: Allir.) Allir, segir hv. þm. Egill Jónsson. Það skulum við vona, hv. þm. ( Gripið fram í: Hann vill bera gamla merkið.) Ég ætla ekki að leiða neinum getum að því hvaða merki hv. þm. Egill Jónsson kýs að bera inn í framtíðina og inn í söguna því auðvitað mun sagan skoða þetta vel.
    Virðulegi forseti. Ég lýsti því hér í upphafi minnar ræðu að það hefði verið æskilegra að þeir ráðherrar, sem við höfum vikið að, hefðu tekið þátt í umræðunni en það hefur því miður ekki gerst. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við þingmenn Alþb. munum í umfjöllun um þetta mál á Alþingi knýja á um ítarlega umfjöllun um tvíhliða samning, möguleika hans, kosti og líka galla, hæstv. utanrrh., því við gerum okkur grein fyrir því að á okkar tillögum eru bæði kostir og gallar þótt hæstv. ráðherrar hafi ekki manndóm í sér til þess að viðurkenna að af þeirra hálfu hefur málið kosti en líka galla.
    Að lokum vil ég segja þetta: Fyrir ári síðan einkenndist umræðan í okkar heimsálfu af mikilli bjartsýni. Það var sérstakur tónn í orðinu Evrópa, tónn bjartsýni, tónn vona, tónn vissu um það að Evrópa væri á réttri braut, bæði fyrir sjálfa sig og fyrir veröldina alla. Evrópu mundi takast að búa til kraftmikla vél í hagþróun heimsins. Evrópu mundi takast að leysa vandamál öryggis og friðar, lýðræðis og mannréttinda. Menn spurðu eðlilega hér á landi eins og annars staðar: Ætlum við, Evrópubúarnir, ekki að vera með í þessari þróun? Þessi mikla draumsýn er nánast glötuð í dag. Það er enginn sem talar svona lengur því að Evrópa dagsins í dag er allt önnur. Hún er Evrópa hinna stóru vandamála. Hún er Evrópa vaxandi atvinnuleysis. Hún er Evrópa borgarastyrjalda og manndrápa, mannréttindabrota og ógnarstjórna. Hún er Evrópa þar sem við stöndum ráðþrota yfir styrjöldum, morðum á konum og börnum í næsta nágrenni við höfuðborgir Evrópu og enginn veit í dag hvað verður á nýju ári í þeim efnum. Forusturíki þessarar Evrópu glímir nú við draugana frá sinni eigin fortíð, mótmæli ungs fólks sem sjá sína einu von að efna til óeirða undir merkjum þeirrar ógnarhreyfingar sem steypti Evrópu í heimsstyrjöld fyrir um hálfri öld síðan. Þannig hefur landslagið í Evrópu breyst á einu ári.
    Evrópulestin. Við voru spurð að því hér hvort við ætluðum ekki að vera með í Evrópulestinni. Þá var myndin af hraðlestinni sem verið var að byggja í Evrópu á nýjum brautarteinum, sem með ógnarhraða tengdi saman borgirnar í eina heild. Í dag er mynd Evrópulestarinnar skuggamyndin úr styrjöldinni þegar fólk var flutt í ánauð og dauðann með lestum ógnarstjórnarinnar sem ríkti í Þýskalandi. Er þetta ekki tilefni fyrir okkur öll til að flýta okkur hægt með málefni okkar litlu þjóðar, vera ekki of viss, ekki of örugg, vera tilbúin til að bíða, huga að okkar og hyggja að því hvernig veröldin lítur út eftir eitt ár, tvö eða þrjú? Ég held að það væri skynsamlegt fyrir okkur öll, sem berum fjöregg þessarar þjóðar á löggjafarsamkomuna um þessar mundir, að hugsa í alvöru hvort ekki er skynsamlegri leið fyrir íslenska þjóð að bíða álengdar í smástund þar til það skýrist betur hvernig Evrópa það er sem við eigum að tengjast með þessum samningi. Hvernig verða valdahlutföllin í henni? Hverjir ráða þar för? Hvernig verður þjóðfélagsástandið? Verður það ástand atvinnuleysis og upplausnar, óeirða, mannréttindabrota, styrjalda eða verður það heimur framfara, friðar, öryggis og lýðræðis?
    Fjarlægðin hefur skapað Íslandi kosti á þessari öld. Við sluppum að mestu við harmleiki Evrópu á þessari öld vegna fjarlægðarinnar. Er ekki tími til að hugsa aðeins um það núna þegar á hverjum degi berast nýjar óvissu- og ógnarfréttir frá meginlandi Evrópu að kostir fjarlægðarinnar geti verið það sem nýtist okkur best á næstu árum í stað þess að flýta okkur um of upp í þá lest sem enginn veit í dag hvert stefnir?