Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 14:21:20 (419)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Það er nú komið að lokum þessarar 1. umr. um frv. til laga um Evrópskt efnahagssvæði. Ég ætla að gera hvað ég get til að lengja ekki þá umræðu frekar en orðið er enda kannski að ýmsu leyti erfitt að halda samfellu í umræðu sem stendur yfir í marga daga og langt á milli þess sem maður kemur í pontu. Það getur því verið erfitt að halda samhengi í hlutunum.
    Mig langar aðeins til að fara nokkrum orðum um það sem fram hefur komið í máli manna, ekki síst utanrrh. og forsrh., vegna þess að ég held að við hljótum að þurfa að rökræða þessi mál og við þurfum að svara rökum hvers annars --- mætast hér með rök og gagnrök. Þess vegna ætla ég ekki að skorast undan að mæta ýmsu af því sem fram kom í ræðu hæstv. utanrrh. og forsrh. þó að ég verði reyndar að segja að þær ræður voru ansi rýrar í roðinu, ekki síst hefði ég búist við því að í ræðu forsrh. sem talaði hér fyrsta sinni --- það var hans fyrsta ræða og fyrsta innlegg í 1. umr. --- væri eitthvert kjöt á beinunum en því miður var því ekki að heilsa.
    Það kom fram hjá báðum þessum ráðherrum ákveðið óþol, ákveðinn pirringur yfir því að hér væri enn verið að spyrja spurninga varðandi þennan samning. Utanrrh. sagði að umræðan hefði farið fram í þrjú

ár og það væri enn verið að spyrja sömu spurninganna og spurt var í upphafi. Forsrh. tók í sama streng og sagði að það væri undarlegt að þeir sem mest kvörtuðu undan því að ótal spurningum væri enn ósvarað tilheyrðu þeim flokkum sem væru búnir að gera málið upp við sig. Hann sagði: Hvernig gátu þeir gert málið upp við sig ef svona mörgum spurningum var ósvarað?
    Ég var ein af þeim sem báru hér upp spurningar. Þær voru ekki ýkja margar. Þær hafa líklga verið fjórar en þær vörðuðu ákveðin grundvallaratriði í þessum samningi, atriði sem skipta verulegu máli þegar að því kemur að fólk þarf að gera málið upp við sig. Ég verð að segja að ég fékk held ég ekki einni einustu þeirra svarað, hvorki í ræðu hæstv. utanrrh. né forsrh. En af hverju erum við að spyrja spurninga? Ástæðan er einfaldlega sú að Alþingi er málþing. Þess vegna kemur maður og ber upp spurningar opinberlega. Þetta eru ekki persónulegar spurningar sem hægt er að gefa við persónuleg svör í hliðarherbergjum eða inni á nefndarfundum. Ég hafði haldið, og það var mín skoðun þegar ég settist hér inn á Alþingi, að hér ætti að tala um pólitík. Reyndar er ansi lítið gert af því stundum en ég hélt að það ætti að tala hér um pólitík og hér ættu menn að spyrja spurninga og ráðherrar ættu þá öðrum fremur að hafa þá skyldu með höndum að gefa svör. Hér ættu menn að mætast með rök og gagnrök. Það virðist ekki vera skoðun forsrh., við höfum sömu þingreynslu, ég og forsrh., að þannig eigi hlutirnir að ganga fyrir sig heldur eigi að ræða um málin á lokuðum fundum og í hliðarsölum.
    Mér finnst þetta vera málflutningur manns sem hefur gefist upp eftir eins árs setu á Alþingi. Hefur maðurinn gefist upp við að færa fram rök sín og reyna að sannfæra þá sem hér sitja? Hann hefur ekki trú á sínum eigin málflutningi. Hann hefur ekki trú á áhrifamætti síns eigin málflutnings. Ég get lýst því yfir hér að ég áskil mér fullan rétt í þessu máli sem öðrum að láta sannfærast um að andmælendur mínir hafi rétt fyrir sér. Ég er hér komin til þess að hlusta á rök og gagnrök, til að vega þau og meta og jafnvel skipta um skoðun í málum ef því er að heilsa. Þess vegna vil ég ekki bara að menn varpi því hér fram að það eigi að ræða hlutina á lokuðum fundum í lokuðum hliðarsölum. Hér eigum við að tala, við eigum að færa fram mál okkar, við eigum að hlusta og við eigum að vega og meta málin. Þegar forsrh. hefur ekkert hér fram að færa annað en pirring og geðvonsku er það bara til marks um það að hann trúir ekki á sinn eigin málstað. Hann trúir því ekki að hann geti sannfært nokkurn mann um það sem hann hefur fram að færa.
    Utanrrh. vék í sínu erindi að erfiðu efnahagsástandi og sagði að við værum komin að endimörkum vaxtar, a.m.k. hvað varðaði auðlindir sjávar. Hér væri stöðnun og aukið atvinnuleysi og við þessar aðstæður yrðum við að ganga inn á hið Evrópska efnahagssvæði. Það er út af fyrir sig rétt að hér er erfitt efnahagsástand þó að það hafi nú stundum verið málað allt of dökkum litum. Við höfum ekki á undanförnum árum skotið þeim stoðum undir íslenskt efnahagslíf sem nauðsynlegt er. Við höfum heldur ekki gefið gaum að því að margt smátt gerir eitt stórt. Það skal allt vera svo stórt á Íslandi. Menn vilja fá hlutina fljótt og helst fyrir lítið. Það er þessi gullgrafaramórall sem oft og tíðum hefur verið talað um og ég held að forsrh. hafi, þótt hann hafi kannski ekki nefnt það gullgrafaramóral, verið að tala um ýmis fjárfestingarævintýri þessarar þjóðar: í virkjunum, í fiskeldi, í loðdýrarækt og svo mætti lengi telja. Mér virðist sem þeir menn sem mest prísa þennan samning um hið Evrópska efnahagssvæði séu eina ferðina enn að gera tilraun til að virkja þennan gullgrafaramóral sér í hag. Þeir gera út á þennan gullgrafaramóral. Þeir segja þjóðinni að þarna sé lausnin, í því sé lausnin fólgin að ganga inn á hið Evrópska efnahagssvæði. Ég heyrði það þegar farið var að lesa hér úr ansi fróðlegum greinum og ræðum sem núv. utanrrh. og þáv. þm., Jón Baldvin Hannibalsson, flutti og skrifaði um EFTA-umræðuna að hann hefur verið miklu raunsærri á þeim tíma og sannspárri en ég held að hann sé í dag. Hann skrifaði einhvers staðar að EFTA-samningurinn væri ekkert lausnarorð eins og ríkisstjórnin vildi vera láta. Það sama er hægt að segja núna um EES-samninginn. Hann er ekkert lausnarorð eins og þessi ríkisstjórn vill vera láta.
    Samningurinn sem slíkur færir okkur engin ný atvinnutækifæri. Aðalatriðið er hvernig við spilum úr, hvort sem við stöndum utan eða innan hins Evrópska efnahagssvæðis, okkar málum við tilteknar gefnar aðstæður. Í þeim ríkjum sem verða á hinu Evrópska efnahagssvæði eru ákveðin kreppueinkenni. Það eru kreppueinkenni alls staðar í Evrópu um þessar mundir. Atvinnuleysi hefur færst í aukana sl. þrjú þar og það sem er að gerast núna hér í kringum okkur er að það er verið að hækka vexti í öllum nágrannalöndum okkar. Það er verið að reyna að ná niður verðbólgunni, m.a. með hækkandi vöxtum. Þetta dregur úr fjárfestingu og þegar dregur úr fjárfestingu þá dregur líka úr sköpun nýrra atvinnutækifæra og aukið atvinnuleysi virðist vera fyrirsjáanlegt, t.d. á næsta ári. Í Danmörku er talað um að það muni tapast 15 þús. störf á næsta ári. Það er alveg ljóst að við sækjum ekkert gull í þessar greipar. Það er hins vegar gild spurning, sem við hljótum að velta fyrir okkur hér, hvort við eigum samt sem áður að binda okkar bagga sömu hnútum og þessi ríki, hvort við eigum að deila örlögum okkar með þeim, hvort okkur farnist þannig best. Það er auðvitað alveg gild spurning sem við verðum að velta fyrir okkur þó að við getum haft ýmislegt að athuga við hið Evrópska efnahagssvæði og við ástandið í Evrópubandalaginu.
    Það er vissulega rétt sem hæstv. utnanrrh. hefur sagt að það dugar ekki að byggja upp múra í kringum sig. Það dugar ekki fyrir litla þjóð eins og Íslendinga. Það dugar heldur ekki þegar til lengri tíma er litið fyrir Efnahagsbandalagið. En því miður er staðan sú að Efnahagsbandalagið hefur verið að byggja utan sig múra. Þau rök eiga auðvitað rétt á sér að það geti verið betra fyrir litla þjóð að vera innan þeirra múra en utan út frá samtryggingarsjónarmiði og engu öðru. Þeir múrar sem Efnahagsbandalagið hefur verið að byggja utan um sig hafa náttúrlega komið hlutum þannig fyrir að þeir versla fyrst og fremst innbyrðis, eru að reyna að hafa verslun og viðskipti innan múranna en ekki við aðila utan þeirra, er það sem kallað er aukið frelsi í viðskiptum. Þetta svokallaða aukna frelsi í alþjóðlegum viðskiptum sem menn tala mikið um nú um tíðir hefur t.d. ekki náð til þróunarlandanna. Þetta hefur ekki bætt stöðu þróunarlandanna vegna þess að það eru hin þróuðu ríki sem auka viðskiptin hvert við annað. Þau auka viðskipti hvert við annað innan múranna og það kann vel að vera að þar sé betra að vera, það kann vel að vera. Það geta verið rök. En þetta eru í rauninni þau einu gildu rök sem ég finn í þessari umræðu en mér finnst þau ekki hafa verið borin hér fram af þeim sem mest prísa þennan samning.
    Það hefur verið spurt hér um bújarðir, hvaða möguleikar verði á því að setja, eins og það hefur verið kallað, girðingar í íslensk lög til þess að tryggja það að bújarðir haldist í eigu Íslendinga og koma í veg fyrir að útlendingar geti með mjög frjálsum hætti eignast hér land. Þetta er mikið áhyggjuefni fyrir margt fólk. Eins og ég held að ég hafi sagt í minni fyrri ræðu er þetta mjög sterkur þráður í þjóðarsálinni vegna þess að land og eignarhald á landi er til marks um sjálfstæði einstaklingsins og til marks um sjálfstæði þjóða. Utanrrh. hefur hvað eftir annað sagt að það séu færar leiðir til að setja upp girðingar og að við höfum aðlögunartíma til að vinna verkið. Hann hefur líka ítrekað að þetta sé ekki ný umræða og finnst hún líklega óþörf. Hún er auðvitað ekki ný en ástæðan fyrir því að þessar spurningar eru bornar hér upp aftur og aftur eru þær að svörin eru svo óljós. Við erum aldrei neinu nær eftir þau svör sem við fáum. Menn segja: Það er hægt að setja upp girðingar. Samt sem áður virðist á nefndaráliti sem lögfræðingar vinna fyrir ráðuneyti að það sé erfitt að setja girðingar nema takmarka verulega rétt Íslendinga í eigin landi. Svörin hafa því ekki fengist, virðulegu ráðherrar, og er tímabært að þau séu gefin með skýrari hætti en hingað til hefur verið gert.
    Utanrrh. hélt því fram í sinni ræðu að því hefði verið haldið fram af ræðumönnum að stjórnarliðarnir og ráðherrarnir væru að reyna að véla fólk til fylgis við Efnahagsbandalagið með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Hann sagði að fyrir þessu væru engin rök. Það væri búið að leysa öll okkar helstu hagsmunamál og brýnustu vandamál inni á Evrópska efnahagssvæðinu og að við höfum markað þá sérstöðu að vera utan Efnahagsbandalagsins og láta þar við sitja. Ég held að það hafi enginn talað um að véla þjóðina inn í Efnahagsbandalagið. Það er bara ákveðið orsakasamhengi sem sést, sem er mjög skýrt og við þurfum ekki annað en að líta til baka í söguna þá sjáum við að það er ákveðið orsakasamhengi í gangi. Það er ekkert lögmál. Það er orsakasamhengi. Við skulum taka dæmi. Halda menn að varnarsamningurinn 1951 hefði verið gerður ef Íslendingar hefðu ekki verið orðnir aðilar að NATO 1949? Halda menn að Íslendingar hefðu orðið aðilar að NATO ef ekki hefði verið búið að gera Keflavíkursamninginn 1946? Þannig er orsakasamhengið. Þetta leiðir af líkum og það sama er í þessu máli að það eykur mjög líkurnar á því að aðild að Efnahagsbandalaginu komi fyllilega til álita ef gengið er inn á hið Evrópska efnahagssvæði. Það er í rauninni að mörgu leyti mjög ófullnægjandi að vera á hinum innri markaði Efnahagsbandalagsins án þess að hafa áhrif á fylgifiska og fylgikvilla þessa innri markaðar. Og það er auðvitað þess vegna sem aðildarríki EFTA stefna öll nú inn í Efnahagsbandalagið.
    Því var haldið mjög á lofti af forsrh. að stjórnarandstæðingar reyndu að gera tvo af fjórum nefndarmönnum, sem unnu lögfræðilegt álit um stjórnarskrármálið fyrir utanrrh., tortryggilega og héldu því hér fram að það varpaði rýrð á álit þeirra að þeir hefðu áður unnið fyrir utanrrh. Nú er málið það að þeir hafa ekki bara unnið við eitthvað fyrir utanrrh. Þeir unnu við að búa út þetta frv. um hið Evrópska efnahagssvæði fyrir utanrrh. Það kom fram í utanrmn. að þeir hefðu komið nálægt því að finna leið til þess að lögtaka þennan samning og staðið að því að semja frv. um fullgildinguna og lögtökuna. Þeir unnu ekki bara að einhverju verki fyrir utanrrh. heldur nákvæmlega þessu verki sem þeir eiga síðan að koma að sem hlutlægir fræðimenn og leggja mat á. Þetta gerir þá vanhæfa til að fella dóm í málinu en það gerir þá auðvitað ekki vanhæfa til að hafa skoðun á málinu. Hana geta þeir haft og þeir geta stutt sína skoðun sterkum rökum og menn geta verið sammála þeirri skoðun. En það gerir þá tvímælalaust vanhæfa til að fella dóm. Álit þessara manna hefur verið meðhöndlað sem dómur og þá ætla ég að vitna í hvernig viðskrh. meðhöndlaði þetta álit strax eftir að það kom fram. Þá komu hans úrslitaorð: Nú þarf ekki frekari umræður um þetta mál. Nú þarf ekki frekar vitnanna við, dómur er fallinn. Þótt hann hafi ekki orðað það nákvæmlega þannig, þá voru þetta hans skilaboð til almennings í gegnum fjölmiðla. Það hljótum við að gagnrýna og við hljótum að mótmæla því að þetta sé einhver allsherjardómur í málinu.
    Þá má líka benda á að það orki tvímælis að álit þessara fræðimanna --- það er kannski ekki rétt að þeir séu fræðimenn en þó allir lögfræðingar hver á sínu sviði --- sé það sama nú í þessu máli og það hefur verið þegar þeir hafa fjallað um þetta fræðilega á öðrum vettvangi. Þá vil ég vitna í grein eftir Stefán Má Stefánsson sem birtist í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1988. Greinin heitir Um störf og lögfestingu þjóðréttarsamninga. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Að því er íslenskan rétt varðar er hugsanlegt að veita þjóðréttarsamningum eða tilteknum tegundum þeirra lagagildi í eitt skipti fyrir öll. Þetta verður þó tæpast gert nema með breytingu á stjórnarskránni.`` Þetta segir Stefán Már 1988 í fræðilegri ritgerð um lögfestingu þjóðréttarsamninga. Hann kemst síðan að öðru áliti þegar hann stendur að nefndaráliti fyrir utanrrh. og það geta verið fyrir því ákveðin rök. En það sýnir manni svart á hvítu að þetta er auðvitað mikið álitamál sem þarna er á ferðinni. Hann heldur áfram og segir: ,,Væri þetta gert mundu dómstólar meta að hvaða marki ákvæði tiltekins þjóðréttarsamnings hefðu bein réttaráhrif. Það skal þó tekið fram að breyting á stjórnarskrá er flókin aðgerð í framkvæmd.`` Og svo heldur hann áfram: ,,Hins vegar er tæpast hægt að ákveða með almennu lagaboði að þjóðréttarsamningur án frekari tilgreiningar skuli hafa bein réttaráhrif.`` Svo segir hann: ,,Slíkt framsal af hálfu löggjafans yrði væntanlega í flestum tilvikum talið of vítt og teldist fara í bága við stjórnarskrána.``
    Þetta segir hann 1988. Þess vegna frábið ég mér þann málflutning sem hér var m.a. hafður uppi af forsrh. að það að setja stjórnarskrána fyrir sig í þessu máli væri eins og hver annar fyrirsláttur. Ég frábið mér slíkan málflutning. Það er enginn fyrirsláttur af minni hálfu. Ég held að það sé enginn fyrirsláttur af hálfu margra þingmanna sem hafa raunverulegar áhyggjur af því að samningurinn, eins og hann liggur fyrir, fari í bága við stjórnarskrána.
    Þó að ég fari kannski aðeins út fyrir efnið ætla ég að leyfa mér að segja að það kann vel að vera að forsrh. hafi á því ákveðnar skoðanir að tillaga til stjórnarskrárbreytingar, sem hér liggur fyrir og stjórnarandstaðan hefur lagt fram, sé ekki nógu góð og hann geti fært fyrir því rök. Það er út af fyrir sig allt í lagi. Hann getur þá fundið leið til að gera stjórnarskrárbreytingu sem gerði þennan samning löglegan og gerði hann þannig að hann stangaðist ekki á við stjórnarskrána. Hann gæti t.d. stungið upp á því að það kæmi ákvæði inn í stjórnarskrána um að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. stjórnarskrár yrði þessi samningur lögtekinn á Íslandi. Það er ein leið. Menn geta auðvitað fundið ýmsar leiðir til þess ef þeir hafa á því einhvern áhuga. Það er bara fyrirsláttur af hans hálfu að setja fyrir sig hvernig þetta er orðað hjá stjórnarandstöðunni.
    Þó að ráðherrar hafi hér svarað litlu og fært fram fá rök, þá ætla ég ekki að víkjast undan því að svara þeirri spurningu sem hér var varpað fram til stjórnarandstöðunnar allrar af Vilhjálmi Egilssyni þingmanni. Hann benti á það réttilega að það væri ákvæði í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði þess efnis að það væri hægt að segja honum upp með árs fyrirvara og hann spurði: Ætlar stjórnrandstaðan að segja samningnum upp komist hún í stjórnaraðstöðu? Hann spurði þessarar spurningar. Það verður auðvitað að segjast eins og er að það er erfitt að gefa bindandi loforð sem taka eiga gildi í óljósri framtíð því að hvort þeir flokkar sem nú eru í stjórnarandstöðu komast í stjórnaraðstöðu fyrr en síðar er auðvitað mjög óljóst --- þó að vonandi gerist það í næstu kosningum og vonandi verður það mjög fljótlega. Eins og við sáum í blöðunum í morgun nýtur stjórnin afskaplega lítils fylgis meðal þjóðarinnar um þessar mundir. Það er sem sagt erfitt að gefa slíkt loforð. En ég skal svara fyrir mitt leyti eftir að hafa hugsað um þetta svolítið síðan þessari spurningu var varpað fram. Mér finnst afskaplega trúlegt að það verði ekki gert. Mér finnst afskaplega trúlegt að samningnum verði ekki sagt upp. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að þetta uppsagnarákvæði sé ákaflega lítils virði og í raun og veru sé mjög erfitt að segja þessum samningi upp. Við verðum að athuga að það er gagnger breyting sem verður hér á öllu viðskiptaumhverfi, á lagasetningu og á ótal mörgum hlutum. Þessi breyting verður ekki aftur tekin með því að segja samningnum upp með árs fyrirvara. Við verðum búin að gerbreyta íslenskum lögum og við verðum búin að gerbreyta þeim aðstæðum í atvinnulífi sem menn eiga að vinna við hér á landi. Það tökum við ekki aftur eins og hendi sé veifað. Ég hélt að Vilhjálmur Egilsson væri framsýnn maður og áttaði sig á því að hjólum sögunnar verður ekki snúið við. Klukkan tifar réttsælis. Það er ekki hægt að taka ákvörðun um að í einhverri framtíð segi menn: Nú setjum við samfélagið aftur eins og það var þegar við ákváðum að ganga inn á hið Evrópska efnahagssvæði á sínum tíma. Slíkt verður ekki gert.
    Þar að auki er það mín einlæga skoðun að nýir stjórnarherrar eða stjórnarfrúr, ef við notum það orð, hafi ekkert leyfi til þess að koma að völdum og kippa grundvellinum, nýlögðum grundvelli jafnvel, undan fólki og fyrirtækjum. Það er alveg fráleitt að stjórnvöld geti leyft sér slíkt. Í upphafi þessa kjörtímabils líkti ég ríkisstjórninni eða ráðherrum hennar réttara sagt við fíla í glervörubúð. Þeir koma inn í ráðuneytin og segja: Það er ekkert hægt að nota hér. Um hluti sem fólk, fagfólk og fyrrverandi ráðherrar, hafa verið að vinna að, eytt tíma í og orku í að vinna að, koma þeir og segja: Þetta eru sagnfræðilegar heimildir. Það er ekki hægt að nota þetta. Það er búið að eyða í þetta peningum, orku og mannafla og þeir geta ekki notað það. Þeir vilja henda úr fyrri innréttingum og setja inn nýjar. Þeir vilja stjórna með kollsteypum. Þetta finnst mér ekki boðlegir stjórnarhættir vegna þess að það er fólk og það eru fyrirtæki sem eru höfð að leiksoppum við slíkar aðstæður. Þess vegna er það mín skoðun að það verði mjög illa gerlegt að segja upp þessum samningi, verði hann á annað borð gerður, enda er þetta uppsagnarákvæði fyrst og fremst formlegt en ekki raunverulegt og hefur afskaplega litla þýðingu í praxís. Ég held að í þessu máli, eins og öllum öðrum, gildi að það er eitt af frumskilyrðunum, og það er kannski ekki síst mikilvægt að Íslendingar geri sér grein fyrir því, að hægt sé að skipuleggja til framtíðar. Það skiptir máli fyrir einstaklinga, fyrirtæki og fyrir þessa þjóð að hún geti skipulagt hlutina til framtíðar og geti trúað því að hún búi við svipað kerfi eftir fimm eða tíu ár og hún býr við í dag.
    Þó að við tökumst á um þessi mál núna og gerum líklega harkalega á næstu mánuðum, þá held ég að þegar upp er staðið verðum við að sætta okkur við niðurstöðuna sem hér fæst og við verðum að tryggja að það sé ákveðin lágmarkssátt um það hvernig við ætlum að vinna úr þeim aðstæðum.