Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 15:27:25 (422)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á því að biðja hv. 4. þm. Norðurl. e. að láta mig hafa afrit af lögunum frá sautjánhundruð og súrkál. En ef menn vilja viðhafa svona . . .   ( Gripið fram í: Er þetta kjarni málsins?) Nei, en kjarni málsins er sá að ég sagði ekkert um að það hefði verið vanrækt að setja slíkt í lög á þessum tíma. Það sem ég sagði var það að landbrn. hefði á þessum tíma átt að vera að vinna grundvallarupplýsingar sem menn hefðu þannig að menn vissu hvernig málið stóð. Það lögfræðiálit sem við verðum að byggja á er ekki nema rétt komið út. Ég hefði viljað sjá þá vinnu unna í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Ég var ekkert að tala um það, sagði ekki orð um það, og það getur hv. þm. skoðað ef hann lítur í þingtíðindin, ég sagði ekki orð um að það hefði verið vanrækt að setja eitt né neitt í lög á þessum tíma. En okkur vantaði þarna veigamikinn þátt varðandi upplýsingar til að byggja okkar afstöðu á.