Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 15:28:41 (423)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ástæðan fyrir því að slík vinna fór ekki fram á þessum tveimur og hálfum til þremur mánuðum hún er einföld. Hún er sú að þáv. landbrh. var algjörlega andvígur því að fallið yrði frá kröfunni um varanlegan fyrirvara. Ég neyðist til að upplýsa það hér eða síðar í umræðunni, þó það komi við ágæta samstarfsmenn mína í þeirri ríkisstjórn, að ég hafnaði tilmælum bæði þáv. utanrrh. og þáv. forsrh. um að fallast á það að gefin yrði eftir krafan um varanlegan fyrirvara. Ég sagði þá strax, og ég er enn þeirrar skoðunar, að það væri ekkert sem gæti tryggt stöðu okkar nægjanlega vel í þessum efnum annað en varanlegur, ótímabundinn fyrirvari eða undanþága. Það var mín skoðun og það er enn mín skoðun. En ber að skilja málflutning framsóknarmanna hér svo, sem sönnun þess að þeir hafi verið tilbúnir til þess veturinn 1990--1991 að falla frá kröfunni um varanlegan fyrirvara? Ég óska eftir því að talsmenn Framsfl. komi hér og svari því en hætti að reyna að bíta í hælana á öðrum mönnum. Er það svo að tilmæli formanns Framsfl. og þáv. forsrh., um að í þessa vinnu yrði farið af hálfu landbrrn. í minni tíð, hafi verið stefna Framsfl. um að það væri rétt að falla frá kröfunni um varanlegan fyrirvara? Ég var andvígur því, ég neitaði því, ég krafðist þess að kröfunni um varanlegan fyrirvara yrði haldið til streitu og það lá ljóst fyrir þá eins og það gerir nú að ég gæti ekki sætt mig við EES-samning sem ekki hefði þannig varanlegan fyrirvara. Ég bið hæstvirta framsóknarmenn, eða háttvirta, sem þeir eru núna um þessar mundir flestir eða allir, að hugleiða það út á hvaða þunna ís þeir eru að fara í sínum málflutningi ef þeir halda að þeir græði á því að reyna að kenna mér um einhverja vanrækslu í þessum efnum, því þá verður hverjum steini snúið við í þessu máli og þá munu spjótin beinast að Framsfl. og spurningin koma frá fleirum en mér: Var og/eða er Framsfl. tilbúinn til að kyngja EES-samningi án varanlegs fyrirvara sem tryggir forræði Íslendinga hvað jarðeignir og landnæði snertir?