Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 23:19:31 (447)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Herra forseti. Það er því miður ekki tími til að koma inn á ýmis mjög athyglisverð mál sem hæstv. ráðherra nefndi en ég verð þá að gera það í annarri umræðu. En fyrst vil ég taka það skýrt fram að það er rétt skilið hjá hæstv. ráðherra að ég get ekki mælt með því að þessi samningur verði studdur án þess að stjórnarskránni verði breytt. Ég tók það hins vegar skýrt fram að það væri miðstjórnin sem ákvæði lokaafstöðu Framsfl. En ég sagði líka að ég teldi mig geta haft nokkur áhrif á það að vísu. Það er bara mín samviska segir að þetta sé stjórnarskrárbrot.
    Mér þótti hins vegar afar vænt um að heyra það og ég þakka hæstv. ráðherra að hann er mér sammála um að það eigi, að því er mér skildist, að marka stefnuna svo að þessu verði breytt í tvíhliða samning og ég vil eindregið ráðleggja hæstv. ráðherra að ná þessu í gegn og fá þetta bókað og staðfest og samþykkt hér á hinu háa Alþingi. Sömuleiðis fagna ég því að sjálfsögðu að allir þeir fyrirvarar verði gerðir og girðingar reistar sem menn hafa talið nauðsynlegar og við munum vitanlega styðja slíkt. En ég sagði hins vegar, hæstv. forsrh., að ég fyrir mitt leyti væri a.m.k. tilbúinn að setjast niður og athuga hvort breyta mætti stjórnarskránni á einhvern annan máta og ég er tilbúinn til þess, ég býð það hér. Ef menn telja þetta vera of langt gengið þá skulum við bara skoða hvort ekki eru aðrar leiðir. Það eru margar aðrar leiðir. Það er hægt að setja ákvæði í stjórnarskrána eingöngu um þennan samning að þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar sé heimilt að gera hann. Eigum við ekki að gera þetta svo að við getum þá mæst?
    En síðan út af yfirlýsingunni í Gautaborg, þá er það rétt sem gripið var fram í, hún er bara allt annars eðlis en niðurstaðan varð. Hún er tvær stoðir en niðurstaðan er stoð og ein hækja. Í þessari yfirlýsingu er gert ráð fyrir frumkvæðisrétti beggja aðilanna og sjálfsákvörðunarrétti beggja aðilanna. Ég mun ræða þetta miklu nánar við 2. umr. en hef ekki tíma til að fjalla nánar um það nú.