Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 23:26:46 (451)

     Auður Sveinsdóttir :
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu mál sem öðru fremur er eitt það mikilvægasta sem til umræðu hefur verið á hv. Alþingi frá lýðveldisstofnun. Við stöndum frammi fyrir máli sem á víðtækan hátt hefur áhrif á land okkar og þjóð verði samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði samþykktur. Samningurinn ásamt öllum viðaukum, bókunum og reglugerðum er þess eðlis að verði hann samþykktur getum við haft ákaflega lítil áhrif á breytingar hvað ýmis mál varðar, einfaldlega vegna þess að hann verður rétthærri íslenskum lögum.
    Allir samningar hafa kosti og galla, öðruvísi væru það ekki samningar. Þannig er þessu einnig farið með EES-samninginn þó að ég verði að játa að ég á bágt með að koma auga á kostina, gallarnir eru það miklir.
    Virðulegur forseti. Ég ætla að leyfa mér að fara nokkrum almennum orðum um hið Evrópska efnahagssvæði og Efnahagsbandalagið er varða umhverfismálin. Þannig er nú komið í heiminum í dag að við blasir hraðfara vistfræðileg kreppa. Um það eru flestir sammála og allir vilja auðvitað forðast þannig hörmungar og stuðla að betra umhverfi. Hins vegar þegar kemur að því að hægt sé að breyta gangi mála á raunhæfan, sumir mundu kalla það róttækan hátt, þá er sem slái í bremsu og vikist til hliðar ef um fjárhagslega hagsmuni er að ræða. Á heimsvísu stendur baráttan milli aukins hagvaxtar, aukinnar neyslu og samkeppni ríku þjóðanna annars vegar og hins vegar tillits til fátækari þjóða eða þriðja heimsins, umhverfisins og sjálfbærrar þróunar. Það er dapurlegt að sú skýrsla Sameinuðu þjóðanna, sem einna mestum straumhvörfum hefur valdið í umfjölluninni um ástand umhverfisins og náttúruauðlinda heimsins og þar sem hugtakið ,,sjálfbær þróun`` gengur sem rauður þráður í gegn, sé kennd við Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, einn fremsta talsmanns Norðmanna að aðild þeirra að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu.
    Staðreyndin er nefnilega sú að sá samningur, sem Alþingi Íslendinga og jafnframt norska stórþingið hafa til umfjöllunar á þessum haustdögum varðandi þátttöku í EES og sem jafnframt er fordyrið að Efnahagsbandalaginu, samræmist á engan hátt þeim hugmyndum sem settar eru fram um sjálfbæra þróun, alþjóðasamvinnu um umhverfismál, aðstoð við þriðja heiminn, skynsamlega nýtingu auðlinda né þátttöku almennings í verndun síns umhverfis.
    Þessi samningur um Evrópska efnahagssvæðið, sem byggir á grundvallarhugmyndum Efnahagsbandalagsins, eykur enn á muninn milli ríkra og fátækra. Hann er gerður til að einangra nokkur ríki í bandalagi þar sem þau gæta aðeins sinna sérhagsmuna. Þetta er fyrst og fremst verslunarbandalag þar sem markmiðið er að búa svo um hnútana efnahagslega að ekki komi til stríðsátaka milli stórþjóða Evrópu og til þess eru þau verkfæri notuð m.a. að auka hagvöxtinn, auka framleiðslu, neyslu og samkeppni svo að hægt sé að keppa við risaveldin, Japan og Norður-Ameríku. Slíkur vöxtur getur aldrei orðið öðruvísi en með rányrkju á auðlindir jarðar þar sem enn frekar er gengið á umhverfið og rétt hinna fátækari þjóða. Slík vinnubrögð auka heldur ekki á samvinnu ríkra þjóða og fátækra sem er eitt af meginskilyrðum þess að þessi jörð verði íbúðarhæf í framtíðinni.
    Svo ég vitni í orð Nóbelsverðlaunahafans í hagfræði, Trygve Haavelmo, með leyfi forseta:
    ,,Áframhaldandi hagvöxtur meðal ríku þjóðanna er skelfileg hugsun því ef fylgja á Evrópubandalagssinnum um hagvöxt sem talinn er þurfa að vera 4% á ári þá munum við á 100 árum margfalda neyslu okkar fimmtíu sinnum.``
    Markaðsöflin eiga að ráða, önnur markmið koma langt niður á listann, svo sem staða og réttindi kvenna, ýmiss konar félagsleg réttindi ásamt umhverfisvernd.
    Stöðugt fleiri gera sér grein fyrir því að aukinn hagvöxtur er brjálæði fyrir áframhaldandi veru manna á jörðinni og þá er ég ekki að tala um að ástandið versni á einu eða næsta kjörtímabili, eins og allt of mörgum er tamt að hugsa, heldur næstu áratugi eða fram á næstu öld.
    Í náttúrunni er þannig vaxtalína sem nú blasir við skilgreind sem hættumerki sem bendir á hraðfara vöxt illkynjaðs æxlis.
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að gera það að tillögu minni að umrædd skýrsla Sameinuðu þjóðanna, sem ber heitið ,,Sameiginleg framtíð okkar``, muni framvegis ekki verða kennd við frú Brundtland því að í stuttu máli sagt er Evrópubandalagið og þar með Evrópska efnahagssvæðið algjör andstaða þess hvað heimurinn þarf í dag séð með augum umhverfisverndar.
    Eins og flestum mun vera kunnugt fór sendinefnd á vegum Íslands á alþjóðaráðstefnu um umhverfismál sem haldin var í Ríó í júní sl. Í þessa ráðstefnu var varið miklum tíma til undirbúnings og dreg ég ekki í efa að íslensku þátttakendurnir ásamt starfsmönnum umhvrn. hafi ekki dregið af sér til að koma á framfæri þeim hagsmunum Íslendinga sem stuðlað gætu að betri og meiri umhverfisvernd á alþjóðavísu. Hitt er svo annað mál að fróðlegt væri að fá yfirlit um það hvaða braut er talin vera sú vísasta til að umhverfi heimsins verði ekki stefnt í óefni. Mér þætti því afar fróðlegt ef hæstv. umhvrrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar gæti dregið saman í skýrslu þær ályktanir sem hann dregur af umfjölluninni um ástand mála og hvað væri til ráða eftir umrædda Ríó-ráðstefnu því að tilgangurinn hlýtur að vera sá að draga saman ályktanir sem lagðar eru fyrir ríkisstjórn sem síðan getur stefnt að beinum aðgerðum í umhverfismálum.
    Í framhaldi af því væri athyglisvert að fá samanburð á því hvernig EES-samningurinn og Evrópubandalagið samræma slíkt. Staðreyndin er nefnilega sú að samningurinn um EES getur aldrei samræmst þeirri umhverfisvernd sem er raunhæf. Mörg dæmi væri hægt að taka og e.t.v. er núna nærtækasta dæmið barátta dönsku og sænsku náttúruverndarsamtakanna gegn fyrirhugaðri brú yfir Eyrarsund. Það er fyrirliggjandi staðreynd að umhverfislegar afleiðingar hennar verða gífurlegar varðandi lífríkið í Eyrarsundi svo ekki sé talað um áhrif aukinnar umferðar á Kaupmannahafnarsvæðið og þjóðbrautina gegnum Danmörku.
    Í lögum Evrópubandalagsins er gert ráð fyrir að skjóta megi slíkum málum til umfjöllunar í umhverfismálaráðinu og var það m.a. gert á forsendum þess að umhverfismat hefði ekki legið fyrir. Þetta eru m.a. þau ákvæði sem verið er að veifa framan í umhverfisverndarsinna sem einhverri tryggingu um betri og öruggari málsmeðferð. Sannleikurinn er bara sá að málið er ekki afgreitt og litlar líkur á að nokkur árangur náist. Almenningur á engan rétt á að segja skoðun sína í þessu máli. Það er vegna þess að kerfið í Evrópubandalaginu sem verður jafnframt allsráðandi í EES er ólýðræðislegt embættismannakerfi sem einstaklingarnir hafa enga möguleika á að hafa áhrif á né koma skoðunum sínum á framfæri.
    Annað dæmi væri hægt að taka en það eru flutningar í Evrópu. Samkvæmt lögum EB og þar með EES má ekki hefta flutninga né verslun milli landa og þá er verið að tala um aukningu í vöruflutningum á þjóðvegum um 42% að árinu 2010. Fjöldi einkabifreiða mun aukast um 45%, allt til að styrkja innri markað bandalagsins á sama tíma og baráttan stendur um að draga úr koltvísýringsmengun í andrúmsloftinu, en eins og vitað er þá er bíllinn einn stærsti mengunarvaldur hvað varðar koltvísýring. Talað er um að það þurfi að draga úr koltvísýringsmengun um 80% frá því sem er í dag ef vel á að vera, en nefnd Sameinuðu þjóðanna sem fjallar um þessi mál ráðleggur hins vegar lækkun um 60%. Hver og einn hlýtur að sjá þverstæðurnar í þessu. Fleiri dæmi er hægt að taka, eða hvernig verður samkeppnisstaða okkar hér með okkar hreinu náttúruafurðir, grænmeti, kjöt og aðrar landbúnaðarafurðir þegar kröfur um eiturefni og rotvarnarefni í matvælum verða þannig að okkar vörur eru á engan hátt samkeppnishæfar. Það sjáum við m.a. glöggt á hollenskum tómötum sem koma í verslanir í maí og eru ekki enn farnir að rotna seinni part sumars þegar íslenska framleiðslan kemur á markað.
    Samkvæmt þessum samningi þarf að rýmka verulega allar heimildir um eiturefni og meðferð þeirra þótt íslensk lög, núverandi lög og reglugerðir um eiturefni séu mjög góð að flestra mati.
    Ég vil enn fremur benda á að frjáls verslun, eða réttara sagt óheft verslun gildir einnig um flutning á eitruðum úrgangi, þ.e. verslun með og flutningur á eiturefnum verður óheftur án þess að til komi nokkurt eftirlit né trygging um meðferð þessara mála. Hvernig iðnríkin hugsa eða hugsa ekki í þessum efnum kemur skýrt í ljós þegar rifjað er upp hvernig ruslahaugar Austur-Evrópu voru fylltir af rusli, þar með talið eitri, frá Vesturlöndum, eða það sem minnst var á í fréttum ekki alls fyrir löngu að stórfyrirtæki Evrópu væru jafnvel að notfæra sér eymdina í Sómalíu og greiða þeim þar fé gegn geymslu á hættlegum úrgangi frá okkur, neysluríkjunum.
    Með EES-samningnum þurfum við að taka yfir lög og reglugerðir sem verða okkar lögum rétthærri. Mörg hver eru ekki miðuð við aðstæður okkar eða sérstöðu, en tíðrætt hefur verið um þann kostnað sem samningurinn hefur í för með sér og fyrir liggja beinar tölur varðandi samningsgerðina samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum frá utanrrh., auk þess er vitað hver hagnaður af tollaívilnunum af hluta sjávarafurða er fyrir þjóðarbúið. En hver raunverulegur kostnaður er liggur ekki fyrir og ég leyfi mér að efast um að þar séu öll kurl komin til grafar því í marga kima er að líta.
    Með samningnum er auk allra lagaákvæða verið að samþykkja ótal tilmæli og reglugerðir sem munu hafa umtalsverðan kostnað í för með sér.
    Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. umhvrh. sem er reyndar ekki viðstaddur í kvöld, hver verður kostnaður sveitarfélaganna í landinu í sambandi við förgun eiturefna, sorphirðu, frárennslismál, skipulagsmál, svo eitthvað sé nefnt. Auðvitað þarf að koma mörgum málum í lag hér á landi því víða er pottur brotinn. En við þurfum ekki á EES-samningnum að halda til þess. Þau lög sem til þarf er hæstv. Alþingi fullfært um að setja. Þetta á ekki eingöngu við um umhverfismálin heldur enn fremur um neytendamál og ótalmörg önnur mál. Samningurinn gerir ráð fyrir reglugerðum sem við verðum að fylgja. Hluti af þeim er tekinn með í þessu riti um Evrópska efnahagssvæðið sem umhvrn. hefur látið gera en fremur lítið er gert úr þeim kostnaði sem mun fylgja. Með leyfi forseta vil ég nefna dæmi, en samkvæmt tilskipunum varðandi loftmengun ber að setja upp og reka mælistöðvar vegna bindandi ákvæða um loftgæðarannsóknir og upplýsingaskyldu. Okkur Íslendingum er því gert að mæla mengun í andrúmsloftinu og ber að setja upp mælistöðvar til þess að kanna þetta. Þá kemur upp í hugann að erfiðleikar virðast vera á áframhaldandi rekstri þeirrar einu mælistöðvar sem er til á landinu á vegum Hollustuverndar ríkisins og staðsett er á Miklatorgi. Ef ekki er hægt að halda þeim rekstri áfram, hvað þá með þessa tilskipun samkvæmt EES-samningnum um mælingar á loftmengun? Þetta var eingöngu eitt lítið, einfalt dæmi, en þannig eru þau mörg. Ég leyfi mér að álíta að þau hafi ekki verið reiknuð út til hlítar.
    Hér á Norðurlöndum búum við við sterkari umhverfisvernd en víðast hvar í Evrópu en með EES-samningum munum við fá veikari stöðu og minni möguleika á að sinna umhverfisvernd miðað við okkar sérstöku aðstæður. Samningurinn mun, eins og ég hef áður bent á, hafa það í för með sér að við þurfum að yfirtaka lög og reglur Evrópubandalagsins og það þýðir m.a. að þátttaka almennings, frjálsra samtaka í ákvarðanatöku á sviði umhverfismála, verður ákaflega takmörkuð. Ákvarðanir verða teknar langt fjarri hinum einstöku byggðarlögum og þjóna ekki á nokkurn hátt hagsmunum íbúanna. E.t.v. er höfnun hæstv. ríkisstjórnar á beiðninni um þjóðaratkvæðagreiðslu vísbending um það sem koma skal þar sem fólkinu í landinu er hvorki ætlað að hafa vit né skoðun á um hvað málin snúast. Hæstv. utanrrh. hefur gert lítið úr þekkingu landsmanna á EES-samningnum. Auðvitað er ekki hægt að ætlast til að þorri fólks hafi lesið sig í gegnum öll þau skjöl sem fylgja málinu en rökin gegn samningnum varðandi skerðingu á sjálfstæði okkar fámennu þjóðar og frelsi til að fara með eigin mál eru það sterk að mikil og öflug andstaða er gegn samningnum um allt land. Þessi andstaða fer ekki hátt en hún er þar. Fólkið á rétt á að fá að segja skoðun sína í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega ekki þannig að ef við höfnum EES-samningnum eða Evrópubandalaginu verðum við útskúfuð og einangruð frá Evrópu. Það er hægt að gera samninga í viðbót við þá sem þegar hafa verið gerðir og þjóna hagsmunum okkar vel.
    Í athyglisverðri grein sem hinn þekkti norski prófessor Torstein Eckhoff hefur ritað, afneitar hann algjörlega þeirri skoðun að höfnun á þátttöku í EES leiði til einangrunar, eymdar og volæðis, heldur að margir aðrir góðir möguleikar séu til staðar og ekki sé verið að loka neinum gáttum.
    Það er ekki að ástæðulausu að náttúruverndarsamtök Norðurlanda eru andvíg aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópubandalaginu og hafa lýst því opinberlega yfir. Ástæðan er einföld. Samningurinn um EES þjónar á engan hátt hagsmunum umhverfisverndar, með öðrum orðum framtíðarhagsmunum íbúa jarðarinnar til lífvænlegra umhverfis.
    Evrópubandalagið og Evrópska efnahagssvæðið eru fullkomlega í andstöðu við þær aðgerðir sem eru brýnastar á alheimsvísu. Af þeirri einföldu ástæðu er ég algjörlega andvíg aðild að EES eða Evrópubandalaginu og veit að þeir, sem annt er um að lífríki jarðar og auðlindum verði ekki misþyrmt, eru sama sinnis.