Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Miðvikudaginn 09. september 1992, kl. 23:58:07 (454)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er sammála síðasta ræðumanni að því leyti til að tollalækkanir á fiski eru að sjálfsögðu hluti af kostum þessa samnings. Hins vegar fengum við ekki þá fríverslun sem við báðum um. Hér stöndum við frammi fyrir því að við erum að vega og meta bæði kosti og galla, reikna út heildarávinning og jafnframt að meta það hvort við kostum of miklu til og þá meina ég bæði efnahagslega og á annan hátt. Ég vil minna á að nú liggur ekki fyrir fiskveiðisamningur sá sem við þyrftum mjög tilfinnanlega að hafa í höndunum við þessa umræðu.
    Í öðru lagi vil ég benda á að það er fleira en tollalækkanir sem valda því að vara er samkeppnisfær og jafnframt að ákveðið er að halda uppi vinnu á einum stað en ekki öðrum. Þá vil ég sérstaklega benda á það, sem hér hefur komið fram, að orkuverð hefur mikið að segja um það hvar vinnsla er ákveðin. Og það er fleira. Evrópubandalagið er með mjög yfirgripsmikla styrki til alls sjávarútvegs og við þessar óréttlátu aðstæður erum við að keppa.
    Hins vegar get ég enn og aftur tekið undir það að allt sem getur valdið atvinnusköpun er að sjálfsögðu mjög gott. Ég hef efasemdir um að við séum hér að finna lausn sem dugar okkur langt og ég heyrði að hv. síðasti ræðumaður er sammála því að við höfum ekki dottið niður á töfralausn, síður en svo. Þetta snýst nefnilega ekki um það að við getum fundið einhverja töfralausn.