Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 00:15:24 (458)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef líka lesið umsagnir þær sem hv. síðasti ræðumaður nefndi. Þær eru almennt orðaðar. Þar er ekki margt sem maður getur fest hendur á. En það má kannski minna hv. ræðumann á að þessir sömu menn og hann var að lesa upp umsagnir frá hafa ævinlega bent á að það þurfi að jafna starfsskilyrði atvinnugreinanna hér við þær sem á að keppa við. ( ÖS: Lækka tekjuskattinn.) Það sem ég vil bæta við í sambandi við þetta er að sérstaða Íslendinga og íslensks iðnaðar er auðvitað sú að hér eru agnarsmá fyrirtæki sem nánast fyrirfinnast ekki í þeim hópi sem geta keppt á þessum stóra markaði. Þannig er þetta. Því miður er ekki bjart fram undan fyrir íslenskan iðnað. Nákvæmlega sömu hlutirnir eru sagðir í dag og voru sagðir við inngöngu okkar í EFTA, að þetta mundi opna ótal möguleika fyrir íslenskan iðnað. Því miður reyndist það ekki rétt. Við misstum töluvert af okkar iðnaði og það er greinilegt að við missum eitthvað af okkar iðnaði núna líka með þessum samningi og við höfum svo agnarsmá fyrirtæki að þau geta lítið keppt á þessum markaði. Við þurfum að aðlaga okkur alveg nýjum aðstæðum

og ekki er hægt að sjá að við græðum mikið á því, a.m.k. ekki á næstunni.