Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:42:51 (472)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. hefur upplýst okkur um nýjan sið. Hér er um að ræða mikla siðbótarríkisstjórn sem tekur upp nýja siði í hverju máli á fætur öðru, að það er ekki á verksviði frsm. máls að greina frá efnisatriðum þess í einstökum atriðum heldur þingnefndar.
    Ég var með tvö atriði sem ég beindi sérstaklega til hæstv. ráðherra og bað um svör við. Það var um 28. gr. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, annars vegar um það hversu víðtækur atvinnurétturinn væri gagnvart opinberum störfum og hins vegar hver staða ÁTVR yrði samkvæmt samningnum.
    Hæstv. ráðherra sagði eitthvað á þá leið að það að atvinnugreinin nýti ríkisstyrkja segði ekkert um það hvort samkeppnisstaða þessara greina væri betri eða verri en í öðrum löndum. Ég vil minna hæstv. ráðherra á það að það var áætlað að á síðasta ári hafi styrkir frá EB til sjávarútvegs í sínum löndum numið 64,5 milljörðum kr. Að aflaverðmæti til jafngilti, virðulegi forseti, að íslenskur sjávarútvegur hefði fengið 16,5 milljarða í ríkistyrk. Þetta er aðstöðumunurinn.