Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:49:53 (479)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Já, það skal gert. Varðandi ferskan óunninn fisk er því til að svara að vonir standa til þess þegar þessi samningur er kominn til framkvæmda að það dragi úr útflutningi á óunnum ferskum fiski og hefur þegar gert það af öðrum ástæðum sem hv. fyrirspyrjanda er líka vel kunnugt um, en það met ég jákvætt ef það leiðir til þess að t.d. flakabyltingin væntanlega verði til þess að við fáum hærra verð og meiri verðmæti en við ella fengjum fyrir óunninn fisk.
    Hv. þingmaður spurði, hvar er síldin? Því hefur verið svarað svo oft að ég á ekki að þurfa að endurtaka það úr ræðustól á Alþingi kl. 2 að nóttu. Staðreyndirnar eru þær og þau svör liggja fyrir skrifleg líka og það hafa verið gerðar greinargerðir um það til síldarútvegsnefndar og það hefur verið lagt fram í utanrmn. Af hverju á maður alltaf að þurfa að vera að endurtaka þessa einföldu hluti? (Gripið fram í.) Nei, það er ekkert leyndarmál. Þetta er líka í almennum fréttum. Staðreyndin er mjög einfaldlega sú að ein EB-þjóðin, Írar, settu hnefann í borðið og sögu: Ekki síld. Hins vegar þrátt fyrir það þá tókst að fá fram undanþágu fyrir saltsíldarflök. Frá því er hins vegar af tæknilegum ástæðum vegna tollskrár EB sú undantekning að þetta nær ekki yfir vissar tegundir af ediksaltaðri síld sem er okkur Íslendingum mikilvæg. En engu að síður þá er staðreyndin sú að þrátt fyrir þetta tabú eða veto þá fékkst undanþága en hún er takmörkuð. En þetta er búið að upplýsa fyrir tveimur árum.