Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 01:59:01 (481)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Þótt kominn sé galsi í mannskapinn þá veit ég að við gleðjumst öll sameiginlega yfir því að Reykholt er vel setið enn í dag.
    Hv. þingmaður sagði: Fáheyrðir atburðir hafa nú gerst. Og hverjir voru fáheyrðu atburðirnir? Að því væri yfirlýst af utanrrh. að EES-samningurinn stæðist stjórnarskrána. Það getur ekki verið fáheyrt. Hv. þm. var mjög öflugur og góður stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar. Því var ævinlega lýst yfir af hennar hálfu að samningarnir, eins og þeir þá stóðu hvað þá nú, stæðust stjórnarskrána og hv. þm. orðaði aldrei nokkrar efasemdir um það. Það var ekkert nýtt um það að segja. Það eina sem ég var að rekja og er nýtt úr skjali aðalsamningamanns, sem nú er nýlega fram komið og verður birt, var þetta: Hann er að halda því til haga að þetta var meginsjónarmið samningamanna Íslands fyrir hönd fyrrv. ríkisstjórnar allan tímann og ekkert fáheyrt við það.