Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 02:01:54 (483)


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er stutt leiðrétting. Hv. þingmaður hélt því fram að í tíð fyrri ríkisstjórnar hafi enginn samningur verið til en svarið er að þessi samningur varð til í áföngum. Dæmi: Fyrsti þáttur samningsins sem var frágenginn og breyttist ekkert, síðan var kaflinn á sviði samningarnefndar 2 um fjármagnsmarkað. Hann var alveg frágenginn og gjörsamlega óbreyttur eins og frá honum var gengið í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Annað dæmi var til umræðu fyrr í kvöld. Það var sá þáttur sem lýtur að því að í stað sértækra fyrirvara var tekið upp almennt öryggisákvæði og ákveðið sameiginlega af EFTA-löndunum að breyta fremur löggjöf heima fyrir heldur en að halda til haga sértækum fyrirvörum.
    Fleiri dæmi gæti ég nefnt þannig að staðreyndin er sú að samningurinn varð til í áföngum og hann varð að verulegu leyti til í tíð fyrri ríkisstjórnar og sérstaklega þó þeir þættir þess máls sem lúta að ákvörðunarferli, sem lúta að hlutverki eftirlitsstofnunar og sem lúta að úrlausn deilumála. Það er því misskilningur hjá hv. þm. að ekki hafi verið mál að taka afstöðu til. Þetta lá nefnilega fyrir í grundvallaratriðum.