Evrópskt efnahagssvæði

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 02:04:38 (485)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Fyrst varðandi seinna atriðið. Það er grundvallaratriði þessa samnings að hann er ekki um tollabandalag. Hann kveður ekki á um samræmda ytri tolla. Hann hefur ekki í sér fólgna neina skuldbindingu um hvort heldur er tolla eða viðskiptastefnu gagnvart þriðju löndum. Og eitt dæmi um misskilning lögfræðinganna, sem hafa verið með fullyrðingar um þennan samning, er þetta: ( Gripið fram í: Þeir eru fjórir.) Því hefur verið haldið fram --- Nei, það er nú reyndar annar. Því var haldið fram af einum lögfræðingnum að greinar samningsins sönnuðu að verið væri að draga úr fullveldisrétti íslenska ríkisins til þess að gera samninga við annað ríki. Þetta ályktaði lögfræðingurinn af því að tvær greinar kveða á um að okkur er ekki heimilt að mismuna innbyrðis milli aðila í samningnum, þ.e. að bjóða Þjóðverjum betri kjör en Frökkum. Af þessu ályktaði fræðimaðurinn að þetta sannaði að Íslendingum væri bara óheimilt að gera samninga við önnur ríki og væru bundnir á höndum og fótum. Og maður sem skilur samninginn svona skilningi opinberar það náttúrlega að það er ekki hægt að treysta ályktunum hans á öðrum sviðum.
    Að því er varðar vörugjöldin þá er því til að svara að um leið og við fellum niður fjáröflunartolla tökum við upp önnur gjöld í staðinn í formi vörugjalda. Það er það sem þetta frumvarp felur raunverulega í sér.