Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:21:21 (499)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyrir tiltölulega skýr svör við þeim spurningum sem beint var til flm. Það fór sem mig uggði að svörin gefa til kynna að frv. er ónýtt. Ég spurði, hv. þm.: Er það svo að það vaki fyrir ykkur flm. að greiða fyrir frekara framsali valds? Svar hv. þm. var alveg skýrt og afdráttarlaust: Já. Í ljósi alþjóðlegrar þróunar sem gerir það í vaxandi mæli óhjákvæmilegt, bæði að því er varðar umhverfisvandamál, mannréttindamál o.fl. Heiðarlegt svar og einfalt við einfaldri spurningu. Það er tilgangurinn. Og þá er spurningin: Hvernig á að ná þessum tilgangi? Og svarið við því er, að þá tekst flm. svo óhönduglega til að þeir koma ekki fram þessum tilgangi vegna þess að ekkert sem í þessu frv. er kemst fram hjá 2. gr. sem gerir slíkt óheimilt þannig að tilganginum er alls ekki náð.
    Þriðja atriðið er síðan að skapa ótæpileg skilyrði þess að minni hluti þingheims geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mál sem aukinn meiri hluti þings hefði staðfest er slíkt stílbrot í íslenskum stjórnskipunrrétti og getur leitt til svo fjarstæðukenndra afleiðinga að það hefur greinilega ekki verið hugsað til enda. Meginatriðið er þó þetta, að það hafa verið gefin skýr og eðlileg svör við tilganginum sem er það að greiða fyrir framsali valds eftir allar ræður þeirra alþýðubandalagsmanna sérstaklega og framsóknarmanna um hvílíkt guðlast og landráð í því felist. Mistökin eru hins vegar í því fólgin að tilgangurinn nær ekki fram og rökleysurnar eru síðan þær að um leið og þetta er tilgangurinn þá er samt sem áður jafnframt verið að skapa forsendur fyrir því að minni hluti geti hvenær sem er í pólitískum tilgangi komið málum til þjóðaratkvæðagreiðslu, sérstaklega og einmitt milliríkjasamningum sem geta verið eðli málsins samkvæmt ekki mjög mikilvægir, mundu þó falla undir þessar skilgreiningar og mundi þannig gera nærri því ógerlegt fyrir íslenska lýðveldið að beita fullveldisrétti sínum til þess að geta með árangursríkum hætti tekið á sig þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ég held að þetta séu mistök frá upphafi.