Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:26:23 (501)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. seinasti ræðumaður vitnaði enn í þessa merkilegu skýrslu frá því í mars 1991. Þar segir með leyfi forseta:
    ,,Telja verður að þær hugmyndir sem varða valdsvið sameiginlegra stofnana á Evrópska efnahagssvæðinu falli innan ramma stjórnarskrárinnar eins og hún hefur verið túlkuð fram að þessu.``
    Það var afstaða utanríkisráðherra athugasemdalaust af hálfu samstarfsmanna minna í þáv. ríkisstjórn. Síðan segir: ,,Í þessu sambandi má hins vegar benda á að ef litið er til þróunar alþjóðamála almennt má vænta aukinnar þátttöku Íslands í samvinnu þjóða á fjölmörgum sviðum efnahagsmála, menningarmála, mannréttindamála og ekki síst umhverfismála. Í ljósi þessarar þróunar er full ástæða til að kanna þörf á nýju ákvæði í stjórnarskrána sem kvæði skýrt á um heimildir til þátttöku í alþjóðasamstarfi.``
    Mikið rétt. Annars vegar er fullyrt: EES-samningurinn er í fullu samræmi við stjórnarskrána. Hans vegna þarf ekki að gera breytingar á stjórnarskránni. Hins vegar ef menn líta til þróunar fram í tímann getur þurft á slíku að halda. Það er í fullu samræmi við þær forsendur sem ég hef gefið mér. Það er hins vegar í engu samræmi við málflutning sem hv. stjórnarandstæðingar hafa tamið sér í síbylju sinni undanfarnar klukkustundir þar sem þeir hafa talið það alveg höfuðglæp að hugsa þá hugsun að það eigi að greiða fyrir því að framselja vald, löggjafarvald, dómsvald eða framkvæmdarvald frá hinu íslenska lýðveldi. Það hefur talinn vera höfuðglæpur. Nú er vitnað til þess að ég hafi sagt: Það kynni að vera að það megi í framtíðinni setja slíkt ákvæði. Ég stend hins vegar við það sem ég hef sagt í þessu efni en vísa jafnframt til þess að að því er aðferðina varðar þá hleypur maður ekki til til þess að reyna að vinna einhvern pólitískan punkt með því að setja fram frv. af því tagi sem nú er búið að gagnrýna. Þetta er miklu miklu stærra mál. Maður umgengst stjórnarskrána nefnilega með sæmilegri virðingu, vandar sinn tillöguflutning og það vill svo til að við höfum stjórnarskrárnefnd að störfum. Hún hefur að vísu starfað meginið af lýðveldistímanum og hv. þm. minnti á það að við áttum þar sæti báðir um stund. Þetta mál er svo stórt og viðamikið að það er auðvitað sjálfsagt að fela það sem eitt meginverkefni slíkri nefnd til vandaðrar umfjöllunar í staðinn fyrir að gera þetta að pólitískri skiptimynt og setja það fram í því formi að hafi tilgangurinn verið sá að auðvelda framsal á valdi, sem er höfuðglæpur í öðru orðinu, þá tekst það ekki með þeim aðferðum sem lagðar eru til.