Stjórnarskipunarlög

16. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 03:44:09 (514)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu rétt og skylt að gera það, enda aðeins fáein orð sem ég vil láta falla hér í ljósi þess hvernig umræðan hefur þróast á allra síðustu mínútunum eða klukkustundinni skulum við segja og þó sérstaklega vegna ítrekaðra tilrauna hæstv. utanrrh. til þess að gera flutningsmönnum frv. og aðstandendum öllum upp tilgang með flutningi þess sem er a.m.k., hvað þann sem hér talar snertir, annar en í málinu liggur. Ég ætla að biðja hæstv. utanrrh. að hlýða á það.
    Ég tel mig bera nokkra ábyrgð á þessum króga sem einn af þeim þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa fallist á að það sé flutt fyrir okkar hönd af ágætum hv. þm. Afstaða mín til málsins er sú að ég tek undir og er sammála þeim rökum að tilgangur frv. og tilurð þess er bæði nú og frá fyrri tíð með hliðsjón af þeirri þróun í alþjóðamálum sem við horfum á og menn hafa um nokkurt árabil gert sér ljóst að geri það að verkum að ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar sé ábótavant hvað þetta snertir. Það væri mikið óraunsæi ef við Íslendingar áttuðum okkur ekki á því, í ljósi þeirra ákvæða sem á undanförnum árum hafa komið inn í stjórnarskrár annarra landa hvað þetta snertir, að okkar gamla en annars ágæta stjórnarskrá er barn síns tíma og í raun og veru úrelt hvað þetta snertir, sá ekki fyrir þessa þróun. Þess vegna hafa

menn bæði nú og fyrr velt fyrir sér möguleikanum á því að taka úrræði inn í stjórnarskrána sem geri slíkar breytingar og þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi mögulega.
    Hitt er jafnframt tilgangur frv. sem á að vera öllum augljós, að þetta gengur frá því með hvaða hætti slíkir samningar verði staðfestir og tryggir að það gerist ekki nema aukinn meiri hluti sé fyrir því á löggjafarsamkomunni. Þar með má í raun segja að frv. geri hvort tveggja í senn að opna þessi úrræði en torvelda jafnframt að einfaldur meiri hluti Alþingis geti hrint slíkum breytingum í framkvæmd. Þetta er ekki mótsögn. Og það er mjög ómerkilegt, hæstv. utanrrh., og ekki samboðið virðingu hæstv. utanrrh. að fara út í þá ómerkilegu útúrsnúninga sem hér hefur verið reynt því miður að nokkru leyti af hæstv. utanrrh. en þar áður aðallega af hv. 3. þm. Reykv. að gera flutningsmönnum og öllum aðstandendum frv. upp þveröfugan vilja við þann sem fluttur er sem rök fyrir málinu af hálfu þeirra. Satt best að segja er það svo ómerkilegur málflutningur að það veldur mér miklum vonbrigðum að hæstv. utanrrh. skuli falla í þá gryfju, jafnvel þó það sé um miðja nótt, að feta í fótspor annarra sem hafa haft þann málflutning uppi. (Gripið fram í.).
    Hæstv. forseti. Með tilliti til aðstæðna skal ég ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vildi bara að það lægi alveg ljóst fyrir að það sem er ekki síður í mínum huga og að mörgu leyti enn frekar sem tilgangur þessa frumvarpsflutnings eru þau ákvæði sem koma þeirri bráðnauðsynlegu reglu inn í stjórnarskrá okkar að breytingar af þessu tagi, þátttaka í alþjóðasamstarfi sem felur í sér skuldbindingar eða valdaafsal, geti ekki gerst nema fyrir því sé svo ríkur stuðningur og yfirgnæfandi fylgi að a.m.k. þrír fjórðu hlutar löggjafarsamkomunnar á hverjum tíma standi að því og að jafnframt sé þessi málskotsréttur til þjóðarinnar virkur og fyrir hendi.