Jarðhitaleit í Austur-Skaftafellssýslu

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:30:11 (523)


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 24 ber ég fram svofellda fsp. til hæstv. iðnrh. um jarðhitaleit í Austur-Skaftafellssýslu:
  ,,1. Hvaða niðurstöður eða vísbendingar liggja fyrir eftir jarðhitaleit í Austur-Skaftafellssýslu á þessu ári?
    2. Mun ráðherra beita sér fyrir fjárveitingu til áframhaldandi rannsókna á þessu svæði á fjárlögum 1993?``
    Tilefni fyrirspurnarinnar kemur fram af henni sjálfri en ég vil geta þess að í sumar fóru fram rannsóknir og fregnir hafa komið um að árangur hafi í ýmsum tilvikum orðið jákvæður og sumpart nokkuð óvæntur. Yfirlitsskýrslur hafa legið fyrir um vitneskju um jarðhita á þessu svæði, t.d. frá jarðhitadeild Orkustofnunar frá árinu 1981, eftir Jón Jónsson jarðfræðing, ,,Jarðhita- og ölkeldur í Skaftafellsþingi``. Ég hef á undanförnum árum ítrekað knúið á um það að rannsóknum á þessu svæði yrði fram haldið til jarðhitaleitar og flutti t.d. brtt. vegna fjárlagafrv. 1988 um að veitt yrði fjármagni til yfirlitsrannsókna á jarðhita í Austur-Skaftafellssýslu, að upphæð 3,4 millj. kr., sem því miður var ekki fallist á þá.
    Ég tel afar brýnt að skipulega verði unnið að framhaldi þessa máls sem getur haft verulega þýðingu fyrir byggðarlögin á þessu svæði ef árangur fæst og það gildir bæði varðandi húshitun en einnig varðandi atvinnustarfsemi, svo sem ylrækt eða ræktun af öðru tagi, fiskeldi og fleira.
    Ég leyfi mér því, í öðrum lið fyrirspurnarinnar að inna hæstv. ráðherra eftir hvort þess megi vænta að hann beiti sér fyrir fjárveitingu af hálfu hins opinbera til áframhaldandi rannsókna á svæðinu.