Jarðhitaleit í Austur-Skaftafellssýslu

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:37:17 (525)

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svar hans við fyrirspurn minni. Eins og þar kemur fram hafa orðið nokkrar jákvæðar niðurstöður og vísbendingar vegna þeirrar jarðhitaleitar sem fram hefur farið nú í sumar. Ég tel að það beri vott um að þarna beri að halda áfram með skipulegum hætti, auðvitað ekki að rasa um ráð fram í fjárfestingum, heldur að vinna skipulega að rannsóknum á svæðinu með hugsanlega nýtingu í huga. Hæstv. ráðherra taldi að það væri ekki á sínu verksviði að fjalla um fjárveitingar eða styrkveitingar vegna rannsókna á einstökum svæðum, og það þekki ég af lögum um orkuráð, en hins vegar skiptir það auðvitað öllu máli að það sé fjármagn til staðar til að sinna þeim beiðnum sem berast kunna til ráðsins og með tilliti til þess tel ég brýnt að þetta nýja svæði sé haft í huga með vissum hætti þegar metin er fjármagnsþörf orkuráðs fyrir árið 1993.
    Það er ljóst að niðurstöður úr þessum rannsóknum eru nýkomnar í bráðabirgðabúningi og von er á frekari úrvinnslu eins og hæstv. ráðherra upplýsti en ég tel nauðsynlegt

að það verði tekið tillit til þessara jákvæðu vísbendinga hið fyrsta. Vafalaust mun héraðsnefndin í Austur-Skaftafellssýslu fljótlega bera sig eftir björginni og ég heiti á stuðning hæstv. ráðherra og vænti að hann styðji þetta mál fyrir sitt leyti og þá með því að það verði viðunandi fjárveiting á fjárlögum ársins 1993 til jarðhitarannsókna að teknu tilliti til þessa svæðis.