Kynning á EES-samningi gagnvart sveitarfélögum

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:49:31 (531)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það vill svo til að mér finnst ekki stætt á öðru en að verja hæstv. félmrh. í þessu máli því það var sjálft Alþingi Íslendinga sem tók þá ákvörðun, jafn fráleit og hún var, að allt það fjármagn sem átti að fara til kynningar á þessum málum var sett í utanrrn. eins og kynningin ætti fyrst og fremst að eiga sér stað á erlendri grund.
    Sú furðulega ákvörðun þingsins að vista þetta fjármagn þar hefur líka leitt til þess að það er eins og öll kynningin hafi átt sér stað erlendis en ekki hér. Ég held að þetta hljóti að kalla á það að Alþingi Íslendinga taki þá vitrænu ákvörðun við gerð fjárlaga --- og þar treysti ég hæstv. félmrh. til að láta ekki hlunnfara sig heldur dragi til sín hæfilega fúlgu af þessum fjármunum til þess að sjá til þess að það verk verði unnið sem réttilega hefur verið vakin athygli á af hv. 6. þm. Vestf. og hv. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni að er nauðsyn að vinna í þessum efnum.