Skoðanakönnun á þekkingu fólks á EES

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 10:56:16 (534)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Sem svar við fyrsta lið fsp. hv. þm. vísa ég til spurningalista Gallups og skýrslu fyrirtækisins um niðurstöðu könnunarinnar. Þessum gögnum hefur verið komið á framfæri við skrifstofu Alþingis og þess jafnframt óskað að þeim verði dreift og að öðru leyti er rétt að vísa til skýringa þeirra er þessa könnun tóku að sér á framkvæmd könnunarinnar en hún er svohljóðandi:
    ,,Spurningar voru lagðar fyrir símleiðis og var því miðað við að hafa orðalag þannig að það gæti ekki misskilist. Varðandi þá ákvörðun að miða ekki við kosningaaldur þá voru skoðanakannanir reglulega framkvæmdar af ÍM Gallup á aldurshópnum 15--69 ára. Ef einstakir liðir könnunarinnar eiga ekki erindi til yngsta hópsins, svo sem kosningaspurningar, þá eru þeir hópar felldir niður. Í þessari könnun var hins vegar ekki verið að kanna hugsanlega kosningahegðan fólks heldur eingöngu viðhorf og þekkingu. Ef spurt hefði verið hvort fólk mundi greiða atkvæði gegn málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu þá hefðu þeir sem ekki hefðu náð kosningaaldri verið felldir út. Aldurshópurinn 15--18 ára hefur því samkvæmt þessari skilgreiningu verið með alveg jafnmarktækar skoðanir og aðrir aldurshópar. Hvað varðar þá sem náð hafa sjötugsaldri eða eru eldri þá eru töluverð vandkvæði samkvæmt reynslu fyrirtækisins við framkvæmd símakönnunar hjá þeim aldurshóp, m.a. vegna heyrnarerfiðleika, og var þeim því sleppt.``
    Svörin skiptast eins og sýnt er í skýrslunni sem fylgir og lögð er fram til Alþingis og það svarar spurningu hv. þm. um það hvernig svörin voru. Ég vil þá jafnframt biðja virðulegan forseta að koma þessum gögnum á framfæri við skrifstofu Alþingis.
    Hv. þm. vék að því og ályktaði sem svo að kynning málsins hefði ekki tekist. Það er rétt að það kemur fram í könnuninni að fólk hefur ekki kynnt sér samninginn vel til þessa. Mikill meiri hluti segir í svörum sínum að þeir hafi kynnt sér málið lítið sem ekkert og kemur það fram í afstöðu fólks til þátttökunnar enda verulega stór hluti þátttakenda óákveðinn. Hitt er staðfest í þessari könnun sem og öðrum sem átt hafa sér stað fyrr á vegum annarra aðila einnig að greinileg fylgni er milli þess hversu vel fólk hefur kynnt sér samninginn og hvort það hefur jákvæða afstöðu til hans.
    Það er hins vegar ekki rétt ályktun að segja af hálfu fyrirspyrjanda að það að fólk hafi ekki kynnt sér samninginn, sem ég tel lofsverða hreinskilni að fólk segi hispurslaust, sé einhverjum öðrum að kenna. Því að ef það er rakið hvað gert hefur verið til þess að kynna málið almennt eða með því að koma upplýsingum á framfæri til sérstakra hópa, sérstaklega þeirra sem hafa beinna hagsmuna að gæta þegar í stað, þá er það ekki lítið. Og ef allt það upplýsingaefni væri tíundað sem aðgengilegt er fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málið er það ekki jafnmikið í nokkru öðru máli sem lagt hefur fyrir okkar þjóð til kynningar.
    Þess má svo að lokum geta að misjafnlega getur tekist til með skoðanakannanir í kjölfar kynningar. Þess er t.d. að geta að í nýlegri breskri skoðanakönnun um þekkingu

Breta á málefnum Evrópubandalagsins, en Bretar eru sem kunnugt er þar meðlimir, þá reyndist niðurstaðan vera sú að meiri hluti breskra karla telur Maastricht vera svissneska ostategund en meiri hluti breskra kvenna, sem þátt tóku í könnuninni, er þeirrar skoðunar að Jacques Delors sé frönsk ilmvatnstegund.