Skoðanakönnun á þekkingu fólks á EES

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:04:12 (537)

     Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson) :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. og ég eigum það sameiginlegt að hafa báðir fengist við kennslu þó nokkurn hluta ævinnar. Ég er þeirrar skoðunar að ef tveir nemendur af þrjátíu falla í bekk þá bendi allt til þess að þeir prívat og persónulega einhverra hluta vegna hafi ekki getað tileinkað sér kennsluna eða haft áhuga á að kynna sér námsefnið. Gerist það aftur á móti að tveir af þrjátíu nái prófi en hinir allir falli þá er ég þeirrar skoðunar að það sem gerst hafi sé að kennarinn hafi ekki komið námsefninu eðlilega á framfæri við bekkinn. Það má vel vera að hæstv. utanrrh. sé annarrar skoðunar en ég hygg að flestir mundu í því tilfelli ekki afskrifa bekkinn sem nothæfan til þess að nema fræðin heldur athuga hvort eitthvað væri að kennslunni. ( Gripið fram í: Skipta um kennara.)
    Ég tel þess vegna að það albrýnasta í þessari stöðu sé að menn geri sér grein fyrir hvort ekki sé eðlilegt, miðað við þær niðurstöður sem liggja fyrir, að það sé tryggt að því fjármagni sem varið verður til að kynna þetta mál verði dreift m.a. til þeirra hópa sem eru andvígir samningnum. Og því verði einnig dreift til þeirra aðila sem könnunin gerir ráð fyrir að þjóðin treysti best til þess að veita réttar upplýsingar í málinu.
    Ég geri ekki athugasemd við þau vinnubrögð hæstv. ráðherra að hann leggur fram skriflega hverjar spurningarnar hafa verið. Mér hefði þótt mjög vænt um að það hefði komið fram í gær þannig að gefist hefði kostur á að taka það inn í umræðuna ef þar væri eitthvað sérstakt á ferðinni. En ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans svör. Ég tel að eftir atvikum sé þessari fsp. svarað eins og best verður á kosið.