Skoðanakönnun á þekkingu fólks á EES

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:06:49 (538)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði ranglega að Jón Baldvin

Hannibalsson teldi að þjóðin þekkti þetta mál illa. Jón Baldvin Hannibalsson telur ekki eitt eða neitt um það. Það sem hér liggur fyrir er að þeir sem hér hafa verið spurðir, mikill meiri hluti þátttakenda í þessari könnun, telja sjálfir að þeir þekki þetta mál illa. Ég segi um það: Ég tel virðingarvert þegar menn segja það hreinskilnislega að þeir hafi ekki haft tíma nú eða áhuga eða aðstöðu til að leggja sig eftir upplýsingum um þetta flókna mál. En þeir viðurkenna það --- sem er meira en hægt er að segja um marga aðra. Þetta tel ég virðingarvert.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson vitnaði til kennslureynslu og taldi að ef ekki tekst vel til að koma námsefni til skila þá sé það sök kennara. Ég get fallist á það. En þegar niðurstöður þessarar könnunar eru skoðaðar kemur á daginn að kennarar hafa verið margir. Það hafa nefnilega margir tekið að sér að fara með upplýsingar fyrir íslensku þjóðina í þessu máli, þeirra á meðal hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sem farið hefur með fleipur í hverju málinu á fætur öðru. Þar á meðal um stjórnarskrármál sem opinberar það að hann hefur ekki kynnt sér málið og skilur það jafnvel ekki. En einhverjir eru nú jafnvel til þess að taka mark á þeim sem situr í Reykholti og taka þetta trúanlegt. Og þetta virðist koma fram vegna þess að samkvæmt helstu niðurstöðum, eins og könnuðir gera grein fyrir því, þá segir: Það sem haft hefur raunveruleg áhrif á afstöðu fólks í þessari könnun er óttinn um stjórnun fiskveiða. Þótt allir viti sem kynnt hafa sér málið að það er varanlegur fyrirvari byggður á grundvelli íslenskra laga um það mál. Það er óttinn um fullveldið. Þótt allir viti sem fengið hafa réttar upplýsingar um málið að það er ekkert fullveldisafsal í þessum samningi. Það er óttinn um fjárfestingar í atvinnulífinu og þá einkum og sér í lagi varðandi orkulindir. ( HG: Þetta er nú kennari.)
    Hverjir, virðulegi forseti, hafa fyrst og fremst alið á ótta þjóðarinnar í þessu efni og það svo mjög í síbylju að það birtist hér og endurspeglast sem niðurstaða í viðhorfum fólks? Hvaða kennarar, hv. þm., eiga að líta í sinn eiginn barm? ( ÓÞÞ: Fá að bera af mér sakir.) Þó nú væri.