Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:26:04 (548)

     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ja, ég er nú alveg dolfallinn eftir þessar upplýsingar sem fram

komu hjá hv. 4. þm. Austurl. Er það virkilega svo að ráðherra sveitarstjórnarmála hefur ekkert fram að færa um þessi mál en að lesa gamla ræðu frá því í nóvember 1991? Maður á varla orð yfir það hvað mönnum dettur í hug í framkomu sinni við þingið og hefur nú ýmislegt verið gert sem er ekki hefð fyrir. ( ÓÞÞ: Það er sparnaðarátak í ráðuneytinu.) Ja, mikill er sá sparnaður.
    En ég vil bæta við fleiri atriðum sem ég komst því miður ekki yfir að geta um. Kannski er það höfuðatriði hvað varðar sveitarfélög sem hæstv. ráðherrar í þessari ríkisstjórn, sem ber ábyrgð á þessum samningi, ættu að hafa komið á framfæri við sveitarfélögin fyrir löngu, það eru áhrif samningsins á sveitarfélög varðandi umhverfismál. Ætlunin er að taka hér í lög reglugerðir EB í umhverfismálum. Ég man eftir tveimur, um skolphreinsun og sorpbrennslu. Þar er okkur gert að uppfylla kröfur sem í þeim reglugerðum eru. Þær eru að vísu svo strangar að íslenskum samninganefndarmönnum hefur þótt vissara að hafa tveggja ára aðlögunartíma að því. Þetta er verkefni sveitarstjórna. Hvað skyldi það kosta íslensk sveitarfélög mikið að uppfylla þessar kröfur? Það veit ég ekki en það væri fróðlegt að fá það upplýst. Ég veit það eitt að þetta eru risavaxnar tölur sem sveitarfélögunum er gert að uppfylla í kröfum í umhverfismálum með þessum samningi og þau hafa enga tekjustofna á móti til að mæta því.
    Ég get sagt það eitt um það mál að upphæðirnar eru frekar taldar í milljörðum króna en í milljónum, svo gríðarlegar upphæðir er hér um að ræða.