Áhrif EES-samnings á sveitarfélögin

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:28:26 (549)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Þetta mál er nú allt saman dálítið kyndugt. Þegar menn líta á skjölin sem hér er verið að fjalla um þá hef ég hvergi séð neitt skjal sem heitir samningur um evrópusvæðið eða neitt slíkt. Ég veit ekki til að neinn slíkur samningur sé til. Því miður er hæstv. utanrrh. ekki hér núna. Ég vildi gjarnan spyrja hann að því hvenær sá samningur hafi verið gerður, hver hafi undirskrifað hann og t.d. hvaða ríki standa að honum. Ég veit ekki til að hér séu önnur plögg en t.d. þetta, sem ég held á, sem þetta snýst meira og minna allt um. Það heitir frumvarp til laga um Evrópska efnahagssvæðið, (EES). Það er ekki samningur um eitt eða neitt til, verður kannski aldrei. Alla vega ekki óbreytt, ekki hef ég nokkra trú á því. Þetta eru drög að samningi, þetta er rifrildi að samningi, þetta eru hálfgerð plögg. Þau hafa lengi legið fyrir. Og hvort menn séu hér að rífast um það sem gerðist fyrir einu ári síðan eða tveimur --- eða verða að rífast um eftir eitt eða tvö ár, það verður vafalaust þannig. Þetta er enginn samningur. (Forseti hringir.) Þetta eru drög, besta orðið sem maður getur haft um þetta plagg er drög að samningi, sem maður veit aldrei hvort samningur verður.