Lánafyrirgreiðsla við húseigendur

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 11:47:32 (557)

     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég leyfi mér að bera fram fsp. á þskj. 67 til hæstv. félmrh. um lánafyrirgreiðslu við húseigendur. Fyrirspurnin er í þrennu lagi og hljóðar svona:
  ,,1. Njóta húseigendur, sem tekið hafa húsbréfalán sambærilegrar fyrirgreiðslu í lánastofnunum og aðrir viðskiptavinir bankakerfisins hvað varðar skuldbreytingar bankalána?
    2. Hyggst ráðherrann beita sér fyrir því að Húsnæðisstofnun hefji að nýju að veita greiðsluerfiðleikalán?
    3. Er fyrirhugað að veita sérstaka aðstoð við fjárhagslega endurskipulagningu hjá þeim sem verða fyrir miklum áföllum vegna hækkunar vaxta í félagslega íbúðakerfinu?``
    Allar eru þessar spurningar auðvitað sprottnar af þeim veruleika sem nú er orðinn, þ.e. afleiðingar þess glapræðis að innleiða vaxtaokrið í þjóðfélaginu inn í stærstu fjárfestingu heimilanna í landinu. Nú eru afleiðingar þess að tengja stærstu fjárskuldbindingu heimilanna við þessa arðsemiskröfu á fjármagnsmarkaðnum að koma í ljós. Skuldir fólks, sem hefur verið að kaupa íbúðir að undanförnu, eru miklu meiri vegna affallanna á húsbréfum heldur en áður var.
    Og ég vil vegna fyrstu spurningarinnar segja þetta: Ég hef um það upplýsingar að aðilar sem hafa fengið húsbréfalán út á íbúðir sínar hafa --- þrátt fyrir að þeir hafi lagt fram gögn um að íbúðir þeirra séu í brunabótamati og fasteignamati miklu meira en nógu mikils virði til að teljast veðhæfar fyrir lánsbeiðni --- fengið afsvar og neitun um fyrirgreiðslu. Þegar eftir því var gengið þá hafa svörin verið þau að það væri því miður ekki hægt vegna þess að það væri húsbréfalán sem hvíldi á íbúðinni. Svona hafa svör verið hjá lánastofnunum.
    Ég tel að það verði ekki hjá því komist að rétta hlut þess fólks sem hefur reist sér hurðarás um öxl með þessum óeðlilegu viðbótarskuldum sem afföll húsbréfakerfisins valda. Það þyrfti að vera möguleiki á að koma til móts við þessa aðila með fyrirgreiðslu lána með hagstæðum kjörum og án affalla. Þess vegna lagði ég fram spurninguna um það hvort að ráðherrann hygðist beita sér fyrir því að Húsnæðisstofnun hefji að nýju að veita greiðsluerfiðleikalán en eins og menn vita eru þau ekki lengur fyrir hendi hjá Húsnæðisstofnun.
    Ég tel að það verði ekki hjá því komist að rétta hlut þessa fólks og tel að þetta kerfi sem hefur verið sett af stað sé nú þegar orðið mikið vandamál og það sé mjög mikið atriði að menn bregðist við í tíma og reyni að setja undir þann leka sem nú þegar er augljós að verður og til að koma í veg fyrir að verði meiri slys en nauðsynlegt er að verði.