Lánafyrirgreiðsla við húseigendur

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:01:52 (562)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nokkuð gleymast þegar húsbréfakerfið er rætt og háir vextir dregnir fram og það er að með húsbréfakerfinu voru teknar upp vaxtabætur. Staðreynd er að fólk með lágar og meðaltekjur fær endurgreitt í gegnum vaxtabótakerfið þannig að helmingurinn af vaxtabyrðinni, helmingurinn og stundum allt að 2 / 3 af vaxtabyrðinni er endurgreiddur gegnum vaxtabótakerfið, enda hefur orðið veruleg aukning á greiðslum vaxtabóta milli áranna 1991--1992. Ég hygg ég muni það rétt að þar er aukning um 400 millj. á milli ára vegna útgreiðslu á vaxtabótum. Menn verða að taka allan sannleikann með í myndina, að vaxtabótakerfið léttir verulega á. Ég hygg að hv. þm. vilji varla taka aftur upp gamla kerfið sem við bjuggum við áður. Þá var útborgun 75% hjá fólki og hún var mjög erfið. Nú er útborgun komin í 50%. Fasteignaverð er stöðugt, sem var alls ekki áður. Minni skammtímalán hjá fólki, fólk þarf ekki að bíða í 3--4 ár eins og áður. Fólk þarf ekki lífeyrisréttindi, ungt fólk sem er að koma frá námi þarf ekki að safna sér fyrst lífeyrisréttindum áður en það fær lán. Allt þetta er horfið með tilkomu húsbréfakerfisins. Ég held það sé nauðsynlegt að menn muni eftir því. Ég hygg að fæstir vilji hverfa aftur til þessa tíma.
    Greiðsluerfiðleikarnir sem hér voru til umræðu sem eru 5 millj. eða 5--6 millj. á 5 ára tímabili, eru að verulegu leyti vegna þess kerfis sem við bjuggum við áður. Við þurftum að fara í gegnum það að taka upp greiðsluerfiðleikalán í húsbréfakerfinu einmitt til þess að hreinsa það upp sem voru um 2,2 milljarðar. Þegar spurt er hvort eigi að taka þessi greiðsluerfiðleikalán upp aftur þá held ég að menn verði svolítið að horfa til þess að þau afföll sem þau mynduðu í húsbréfakerfinu voru mikið gagnrýnd á síðasta ári þegar greiðsluerfiðleikalánin voru í gangi. Ég hygg að menn þurfi svolítið að horfa til þess áður en farið verður að taka það upp aftur. Vissulega var nauðsyn fyrir því þá en menn verða að meta hvort ekki sé þá skynsamlegra, ef menn vilja auka fjármagn í húsnæðiskerfið sem slíkt, að hækka frekar lánshlutfallið í húsbréfakerfinu. Ég held að það sé skynsamlegri leið.