Velferð barna og unglinga

17. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:12:14 (565)

     Fyrirspyrjandi (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svarið þótt ég hljóti að láta í ljós mikil vonbrigði mín yfir því að ekki hefur verið farið eftir ályktun Alþingis að skipa þessa nefnd. Hæstv. ráðherra sagði að vísu að það mundi takast að ljúka því á yfirstandandi þingi að leggja skýrslu fyrir þingið en ég tel að þetta mál sé svo brýnt að hver vika, jafnvel hver dagur geti orðið dýr ef ekki er hægt að finna einhverjar áhrifaríkar aðgerðir til þess að snúa þessu máli við.
    Það sem lá að baki þáltill. og í henni felst er að reyna að fá víðtæka samstöðu Alþingis og ríkisvaldsins með samstarfi allra stjórnmálaflokka um þetta mál til að reyna að fá fram viðhorfsbreytingu. Að vísu eru skiptar skoðanir um hvernig eigi að taka á þessum málum. Margir tala um að það þurfi fyrst og fremst að auka löggæslu. Slíkt er auðvitað neyðarúrræði og ekki allt of vænlegt þegar sífellt er dregið úr fjármagni til þess á síðustu árum. En það læknar ekki vandann. Ég held að þeir sem stjórna þjóðfélaginu verði að gera sér grein fyrir því að við verðum að breyta því umhverfi sem börn og unglingar alast upp við og hafa fyrir augunum vegna fordæmis þeirra eldri. Það gerist ekki nema með víðtæku samstarfi og sameiginlegu átaki þeirra sem ráða og þess vegna er það mikilvægt að þarna taki allir stjórnmálaflokkar höndum saman og vinni að þessu máli. Ég skora á hæstv. ráðherra að hann láti ekki dragast stundinni lengur að skipa þessa nefnd.