Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:16:31 (567)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum sem er á þskj. 2. Þetta frv. er lagt fram í tengslum við frv. um aðild Íslands að samningi um hið Evrópska efnahagssvæði. Frv. var upphaflega lagt fram á 115. löggjafarþingi en kom þá ekki til umræðu. Iðnn. fékk frv. engu að síður til umfjöllunar og sendi það ýmsum aðilum til umsagnar.
    Frv. er nú lagt fram efnislega óbreytt en með smávægilegum breytingum í ljósi athugasemda sem bárust frá umsagnaraðilum til hv. iðnn.
    Smárás, sem á ensku nefnist integrated circuits eða silicon chip, hefur valdið byltingu í rafeindatækni. Uppfinning smárása og framleiðsla þeirra hefur verið forsenda tækniframfara á fjölmörgum sviðum, bæði í tölvubúnaði og geimförum svo að ég nefni tvö mikilvæg dæmi. Smárás samanstendur af mörgum lögum af rásum sem komið er fyrir á kubbi úr hálfleiðaraefni. Það er teikning þessara rása og gerð þeirra sem nefnist svæðislýsing. Hönnun svæðislýsinganna krefst mikillar sérþekkingar, er bæði tímafrek og dýr. Hins vegar er mjög auðvelt og ódýrt að búa til eftirlíkingar þegar hönnuninni er lokið. Það er ekki hægt samkvæmt gildandi einkaleyfalöggjöf að fá einkaleyfi fyrir hönnun svæðislýsinga og hönnunarvinnan er því miður heldur ekki vernduð samkvæmt höfundalögum. Það er þess vegna sem þörf er fyrir sérstaka löggjöf til að tryggja að hönnuðir svæðislýsinga njóti verndar og njóti ávaxta síns erfiðis. Þetta frv. kveður á um slíka vernd.
    Við gerð frv. var stuðst við efni tilskipunar Evrópubandalagsins um vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum auk norrænna laga um þetta efni. Verndin, sem frv. kveður á um stofnast sjálfkrafa, þ.e. ekki er þörf sérstakrar skráningar til að einkaréttur stofnist. Það er kveðið á um það í 7. gr. frv. að einkaréttur til hagnýtingar svæðislýsingar smárása í hálfleiðurum stofnist þegar svæðislýsingin er fyrst áfest eða árituð á hálfleiðarakubb. Hér er fylgt sömu reglu og gildir um vernd samkvæmt höfundalögum og var reyndar sama leið valin í Noregi.
    Þess er að geta að enn er engin framleiðsla smárása hafin hér á landi. Flest fyrirtæki sem hanna og framleiða smárásir eru stór fjölþjóðafyrirtæki. Ein forsenda þess að unnt verði að hefja hönnun eða framleiðslu slíkra smárása á Íslandi er vitaskuld að viðunandi vernd fáist fyrir slíka vinnu. Þessu frv. er ætlað að stuðla að því að slík vernd sé veitt á Íslandi.

    Með frv. er einnig lagður að því grunnur að tryggt sé að íslenskir ríkisborgarar njóti sams konar verndar innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum innan Evrópubandalagsins nær samkvæmt tilskipun bandalagsins um þetta efni aðeins til ríkisborgara aðildarríkja Evrópubandalagsins. Hins vegar hefur framkvæmdastjórnin ákveðið að láta vernd samkvæmt tilskipuninni einnig ná til ákveðinna ríkja, þar á meðal EFTA-ríkjanna, enda veiti þau ríki ríkisborgurum Evrópubandalagsins sama rétt. Þessu frv. er ætlað að stuðla að því að hægt sé að uppfylla þessar gagnkvæmnikröfur.
    Virðulegi forseti. Frv. mun tryggja að þeir sem hanna eða framleiða smárásir muni í framtíðinni njóta verndar hér á landi. Þar sem verndin stofnast sjálfkrafa mun frv. ekki hafa í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um efni frv. en vísa til athugasemda við einstakar greinar.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.