Einkaleyfi og vörumerki

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 12:32:13 (571)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingar á einkaleyfalögum, nr. 17/1991, og vörumerkjalögum, nr. 47/1968, sbr. lög nr. 31/1984, en þetta frv. er að finna á þskj. 3. Frv. er lagt fram í tengslum við frv. til laga um aðild Íslands að samningi um Evrópskt efnahagssvæði. Það var reyndar lagt fram á 115. þingi en kom þá ekki til umræðu. Iðnn. fékk frv. engu að síður til umfjöllunar og sendi það ýmsum aðilum til umsagnar. Efnislegar athugasemdir við frv. bárust ekki til iðnn. og er það nú lagt fram efnislega óbreytt en með smávægilegum breytingum og athugasemdum við einstakar greinar frá því þskj. sem lagt var fram á 115. þingi.
    Breytingarnar sem frv. gerir ráð fyrir á núgildandi einkaleyfalögum og vörumerkjalögum takmarkast við þau atriði sem beinlínis gætu torveldað frjálsa flutninga vöru og þjónustu á milli aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingin sem frv. gerir ráð fyrir á einkaleyfalögunum varðar einkum það atriði að hve miklu leyti eigandi einkaleyfis getur stjórnað markaðssetningu afurðar sem framleidd er samkvæmt einkaleyfinu. Breytingin felur í sér að hafi íslenskur einkaleyfishafi eða aðili með hans samþykki sett á markað einkaleyfisverndaða afurð í einu aðildarríki EES-samningsins geti hann ekki hindrað á grundvelli einkaleyfis síns að sú afurð verði líka markaðssett í öðru aðildarríki EES-samningsins. Á ensku er þessi regla nefnd ,,exhaustion of rights`` en hún hefur hlotið heitið réttindaþurrð á íslensku. Núgildandi regla einkaleyfalaganna um réttindaþurrð einkaleyfishafa tekur eingöngu til markaðssetningar á Íslandi. Þess vegna

er þetta frv. flutt.
    Í frv. er auk þess gert ráð fyrir nokkrum smávægilegum breytingum á núgildandi vörumerkjalögum. Helsta nýmæli frá gildandi löggjöf er að kveðið er á um notkunarskyldu á skráðum vörumerkjum. Það felur í sér að ef eigandi skráðs vörumerkis hefur ekki notað það innan fimm ára frá skráningu þess er hægt að fá skráninguna ógilta með dómi. Þetta ákvæði á að koma í veg fyrir að aðilar skrái vörumerki einungis til að hindra að aðrir noti þau. Enn fremur felur frv. í sér nokkra breytingu á kröfum sem gerðar eru til þeirra auðkenna sem unnt er að nota sem vörumerki.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. felur ekki í sér stórvægilegar breytingar á núgidandi vörumerkja- og einkaleyfalögum, enda eru einkaleyfalögin ný af nálinni, voru samþykkt árið 1991. Frv. mun heldur ekki hafa í för með sér neinn kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Ég tel því ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um efni frv., en vísa að öðru leyti til athugasemda við einstakar greinar þess sem fylgja á þingskjalinu.
    Frú forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.