Staðlar

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:16:57 (580)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um staðla sem er á þskj. 4. Þetta frv. er lagt fram í tengslum við frv. um aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Til að rifja nokkuð upp forsögu þessa máls vil ég nefna að frv. til laga um stöðlun var fyrst lagt fram á 112. löggjafarþingi. Þar var það ekki tekið til umræðu heldur eingöngu sýnt til kynningar. Í frv. var lagt til að Staðlaráð Íslands yrði gert að sjálfseignarstofnun, auk þess sem lögfest yrðu ýmis ákvæði um sjálfa stöðlunarstarfsemina, þar á meðal um birtingu og notkun staðla. Að fengnum umsögnum helstu aðila sem málið varðar var þetta frv. svo endurskoðað og lagt fram að nýju á 113. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Frv. var svo flutt á ný á 115. löggjafarþingi í nokkuð breyttri mynd. Þá var gert ráð fyrir að Staðlaráð Íslands yrði gert að hlutafélagi og að ríkissjóður legði félaginu til starfsemi og eignir staðladeildar Iðntæknistofnunar.
    Ákvæði frv. um sjálfa stöðlunina voru hins vegar óbreytt frá fyrri gerðum þess.
    Samhliða frv. var flutt sérstakt frv. til laga um breytingar á lagaákvæði er varða stöðlun og fleira en efni þess hafði áður verið hluti af frv. um stöðlun. Þessi frv. hlutu ekki afgreiðslu.
    Frv. um staðla sem ég mæli fyrir í dag felur í sér þá meginbreytingu frá fyrri frv. um sama efni að fallið er frá fyrri hugmyndum að stofna sjálfstætt staðlaráð sem yfirtaki starfsemi staðladeildar Iðntæknistofnunar ríkisins. Það er mikilvægt að lagagrundvöllur staðla og gerð þeirra verði styrktur án tafar. Til að greiða fyrir framgangi frv. er því talið heppilegt að engar breytingar verði gerðar að sinni á stöðu Staðlaráðs og staðladeildar Iðntæknistofnunar.
    Virðulegi forseti. Eins og ég minntist á í upphafi er þetta frv. lagt fram í tengslum við frv. um aðild Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið. Staðlar hafa afar mikilvægu hlutverki að gegna í afnámi viðskiptahindrana milli landa. Í samningi sem gerður var á vettvangi GATT, almenna samkomulagsins um tolla og viðskipti, um afnám viðskiptahindrana á tæknisviði eru hugtökin staðall og stöðlun skilgreind. Þar er kveðið á um að vísa skuli til alþjóðlegra staðla í opinberum stjórnvaldsfyrirmælum fremur en að tilgreina í einstökum atriðum hverjar tæknilegar kröfur skuli gera til vöru og þjónustu í reglugerðarákvæðum einstakra stjórnvalda. Það er eitt megineinkenni staðla að þeir eru samdir í samvinnu og samráði við helstu hagsmunaaðila. Í þeim ætti því að endurspeglast góð framkvæmdavenja að bestu manna yfirsýn þar sem enginn getur samið staðal án samráðs við þá sem við hann eiga að búa. Þetta nána samráð greinir staðlana skýrt og hiklaust frá hefðbundnum stjórnvaldsfyrirmælum.
    Annað atriði sem greinir staðlana frá hefðbundnum stjórnvaldsfyrirmælum er að þeir eru frávíkjanlegir. Vegna þessara eiginleika ákvað framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins að þeir skyldu gegna veigamiklu hlutverki í áformum þess að mynda einn markað á efnahagssviði aðildarríkjanna fyrir árslok 1992.
    Í framhaldi af þessari ákvörðun var ákveðið að lögbundin samræming í tilskipunum Evrópubandalagsríkja á tæknisviðinu, skyldi takmörkuð við grunnkröfur um öryggi og heilsu manna og dýra og verndun umhverfis. Því til viðbótar var þeim aðilum sem lengi höfðu unnið að stöðlun í iðnaði fengið það hlutverk að semja tæknilegar forskriftir, þ.e. staðlana. Það er litið svo á að þeir framleiðendur sem styðjast við staðla við framleiðslu sína hafi þar með fullnægt grunnkröfum bandalagsins um framleiðsluna.
    Evrópubandalagið gerði rammasamning við Evrópsku staðlasamböndin CEN og CENELEC um að stýra gerð þeirra staðla sem gert er ráð fyrir í tilskipunum bandalagsins. Þeir staðlar sem eru samþykktir af staðlasamböndunum eru nefndir Evrópustaðlar og skulu samkvæmt samningnum verða að landsstöðlum í aðildarríkjum staðlasambandanna innan missiris frá samþykkt þeirra.
    EFTA-ríkin gerðu sams konar samning við Evrópsku staðlasamböndin. Þessir rammasamningar hafa leitt til þess að til eru samræmdir staðlar á æ fleiri sviðum innan Vestur-Evrópu. Í samningnum um Evrópskt efnahagssvæði er gert ráð fyrir að vísað verði til þessara staðla í stjórnvaldsfyrirmælum og tæknisviðum og við opinber innkaup. Með þessari auknu áherslu sem lögð hefur verið á staðla hefur hlutverk og starf þeirra sem semja staðla í Evrópu verið aukið. Sérstaklega á það við um hin smærri, fámennari ríki.

Sem dæmi má nefna að áður en Staðlaráð Íslands gerðist aðili að Evrópsku staðlasamböndunum höfðu eingöngu verið staðfestir 50 staðlar á Íslandi á 30 ára tímabili. En á þeim fjórum árum sem liðin eru frá því að Staðlaráð gerðist aðili að evrópsku staðlasamböndunum, en það var árið 1988, hafa 1.600 staðlar verið staðfestir.
    Í ljósi þess mikilvæga hlutverks sem stöðlum er ætlað að gegna í framtíðinni á hinu sameiginlega evrópska markaðssvæði, er öllum Evrópuríkjum nauðsynlegt að fylgjast vel með samningu og gerð Evrópustaðla og taka þátt í þeirri vinnu á þeim sviðum sem varða beina hagsmuni þeirra.
    Þetta á reyndar við um fleiri staðla en Evrópustaðlana, fjölmörg sjónvarpstæki, svo ég taki eitt dæmi hér á landi, geta ekki birt séríslenska bókstafi í textavarpi Ríkissjónvarpsins vegna ófullnægjandi staðla. Þá er skemmst að minnast tillögu Tyrkja um að sértyrkneskir bókstafir komi í stað séríslenskra í alþjóðlegri stafatöflu fyrir tölvur sem samin er á vegum Alþjóðastaðlasambandsins. Samþykkt þeirrar tillögu hefði leitt til þess að þurft hefði að gera kostnaðarsamar breytingar á tölvubúnaði sem fluttur væri inn í framtíðinni til þess að hann félli að sérkennum íslenskrar tungu. Af þessu dæmi er ljóst að skýrari lagaramma, skýrari lagastoð, þarf fyrir staðla og stöðlun á Íslandi, ekki síst til þess að unnt sé að gæta, með skipulögðum hætti og með góðum árangri, íslenskra hagsmuna á sviði alþjóðlegrar stöðlunarstarfsemi.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja nákvæmlega efni allra greina þessa frumvarps. Meginefni þess eru ákvæði um gerð og birtingu staðla. Þau eru að mestu leyti samhljóða samsvarandi ákvæðum þar að lútandi í fyrri frv. á þessu sviði sem rækilega voru rædd á 115. þingi. Einnig er í frv. kveðið á um Staðlaráð Íslands og starfsemi þess lýst. Horfið er frá því að hafa sérákvæði um breytingar á gildandi lagaákvæðum er snerta staðla og stöðlun þar sem samkomulag hefur náðst um að viðeigandi ráðuneyti muni beita sér fyrir því að breytingar verði gerðar á þeim lögum sem undir þau falla og þar sem orðanotkun um staðla og stöðlun eru í ósamræmi við þetta frv.
    Þetta frv. mun tryggja skýrari reglur um birtingu staðlanna, um rétt hagsmunaaðila til athugasemda við frv. að nýjum stöðlum sem aftur á að tryggja að víðtækt samráð verði um gerð þeirra. Með því er lagður grunnur að því að í framtíðinni verði í ríkara mæli vísað til staðla í reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum.
    Frv. sem slíkt mun ekki leiða af sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um frv. fleiri orð, en vísa til athugasemda við einstakar greinar þess.
    Ég vil að endingu, virðulegi forseti, leyfa mér að láta það álit í ljós að þó að þetta efni kunni að virðast óaðgengilegt og tyrfið þá er staðlanotkunin og þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu samstarfi á því sviði hvorki meira né minna en lykillinn að hinu sameiginlega markaðssvæði fyrir íslenskan útflutning, að sem flest okkar fyrirtæki starfi á sama grundvelli og keppinautar þeirra og samstarfsaðilar á hinu Evrópska efnahagssvæði.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.