Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:31:19 (582)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið mælt fyrir fyrsta frv. sem kemur til kasta efh.- og viðskn. í tengslum við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Nú er það svo eins og kom að vísu fram í máli hæstv. viðskrh. að frv. tengist ekki samningnum nema að hluta og svo er reyndar með æði mörg þeirra frv. sem við höfum séð og koma til efh.- og viðskn. Þar eru fléttaðir inn í heilu lagabálkarnir í mjög stórum málum, t.d. ný samkeppnislög, sem gerir það að verkum að sú vinna sem liggur fyrir nefndinni á næstu vikum og mánuðum er gríðarlega mikil og að mínu mati verður að taka tillit til þess gagnvart öllum dagsetningum varðandi endanlega afgreiðslu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði hér á Alþingi. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þingmenn taki afstöðu til hans fyrr en búið er að vinna fylgifrumvörpin í nefnd.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að halda hér langa ræðu. Þetta er eitt af þeim frumvörpum sem nefndin byrjaði að fjalla um í sumar. Það varð að vísu miklu minna úr nefndarvinnu í sumar en ég í það minnsta hafði reiknað með, væntanlega vegna þess að fyrir okkar litla stjórnkerfi hefur það reynst mjög mikil vinna að undirbúa öll þau mál sem hér þarf að taka fyrir og koma þeim fram.
    Mig langar þó að varpa örfáum spurningum fram til hæstv. viðskrh. Varðandi heimildir til takmörkunar á skammtímaviðskiptum hefur vaknað sú spurning hvort ekki sé hægt að komast fram hjá þeim í gegnum kaup og sölu á hlutdeildarbréfum í verðbréfasjóðum sem fjárfesta í langtímaskuldabréfum. Þarna

hafi menn því í raun tæknilega leið til þess að komast fram hjá þessum heimildum.
    Í 3. gr. er heimild til stöðvunar mjög víðtæk og menn geta velt því fyrir sér hvort, þegar gripið er til hennar --- hún gildir til sex mánaða og hægt er að grípa til hennar hvað eftir annað --- slík stöðvun getur komið í veg fyrir að aðilar í viðskiptum geti staðið við sínar viðskiptaskuldbindingar.
    Varðandi 4. gr. vaknar sú spurning hvort lög um fjárfestingu erlendra aðila gæta ekki þeirra hagsmuna sem þar er getið um og hvort þetta þarf að vera bæði í þeim lögum og eins í gjaldeyrislögunum.
    Að lokum varðandi 11. gr., sem fjallar um upplýsingaskyldu þeirra aðila, sem um þessi mál fjalla, getur maður velt því upp hvort ekki þyrfti að koma inn ákvæði sem þyrfti að grípa til þegar, ég vil ekki segja ef heldur þegar, kemur að almennri skattlagningu eignatekna og hvort þá þurfi ekki að vera þarna alveg skýr ákvæði um upplýsingaskyldu til skattyfirvalda þannig að ekki þurfi að gera þá breytingu þegar þar að kemur.