Gjaldeyrismál

18. fundur
Fimmtudaginn 10. september 1992, kl. 13:36:09 (583)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um gjaldeyrismál. Hér eru lagðar til grundvallarbreytingar og framtíðin verður auðvitað að leiða í ljós hvernig þær reynast. Mig langar að vekja máls á nokkrum atriðum sem snerta frv.
    Ég geri fyrst þá almennu athugasemd við meginþorra þeirra frumvarpa sem við munum ræða varðandi hið Evrópska efnahagssvæði að það vekur athygli mína hversu oft það kemur fyrir í þessum frumvörpum að ráðherrum er gefið vald til þess að ákveða framkvæmd og nánari framkvæmd í reglugerðum. Ég tel að þetta sé nokkuð sem við þurfum að athuga í nefndum þingsins, hvort þarna sé um óeðlilega mikið afsal á valdi til ráðherra að ræða, en þar með er ég ekki að segja að það sé óeðlilegt í því tilviki sem hér er til umræðu. Ég þarf einfaldlega að kanna það betur. Þetta er hins vegar ákveðið einkenni á þessum frumvörpum sem snerta hið Evrópska efnahagssvæði og gerir það að verkum að framkvæmd laganna verður kannski óljósari en ella.
    Sú stóra spurning sem vaknar varðandi þetta mál er auðvitað sú hvernig íslenskur markaður er búinn undir þessa breytingu og mig langar til að spyrja hæstv. viðskrh. hvernig þessi breyting, sem hér er lögð til og tekur gildi um leið og lögin verða samþykkt, hafi verið undirbúin. Er íslenskur gjaldeyrismarkaður búinn undir þessa opnun? Ég vildi gjarnan heyra hans mat á því vegna þess að við vitum að íslenskt fjármálalíf fer gjarnan sínar eigin leiðir.
    Það eru einkum tvær greinar sem hafa vakið spurningar hjá mér. Það eru 10. og 11. gr., þ.e. varðandi upplýsingaskyldu og nauðsynlegt eftirlit og hagskýrslugerð Seðlabankans. Sú spurning vaknar hvort menn séu að veita frelsi öðrum þræði en vilji samt vera með puttana í þessu, hvort menn eru ekki tilbúnir að stíga skrefið í áttina til frelsisins þegar á reynir. Ég vildi gjarnan heyra skýringu hæstv. viðskrh. á 11. gr., hvernig hann skilur þetta nauðsynlega eftirlit. Hagskýrslugerðin skýrir sig auðvitað sjálf, en hversu víðtækt vald er þarna um að ræða fyrir Seðlabankann? Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði, að það þarf auðvitað að vera hægt að fylgjast með slíkum hreyfingum vegna skattaeftirlits, en þarna má velta fyrir sér hvort menn séu jafnvel að halda að hluta til í gamalt kerfi.
    Varðandi 10. gr. komu fram athugasemdir af hálfu umsagnaraðila, að þarna væri verið að leggja á þá óþarfa skyldu en ég held að það hafi reyndar verið einhver misskilningur og hér sé fyrst og fremst verið að kveða á um það að allar upplýsingar sem varða þau kjör sem um ræðir liggi frammi.
    Við munum að sjálfsögðu skoða þetta mál rækilega í efh.- og viðskn. en þetta voru þau atriði sem ég vildi beina til hæstv. viðskrh.